Lánsfjárlög 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 13:53:17 (3328)


[13:53]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þótt þetta mál hafi borist landbrn. fyrir tveimur mánuðum og ríkisstjórnin tekið afstöðu í málinu fyrir allnokkru er engu að síður haldið þannig á þessu máli að á það var ekki minnst fyrr en 3. umr. var að hefjast seint í gærkvöldi. Það hefur á engan hátt gefist tækifæri í umfjöllun í þinginu til þess að skoða til hlítar samhengi þessarar tillögu við þau örlög sem önnur fiskeldisfyrirtæki eru að hljóta í landinu. Þess vegna blasir alveg skýrt við að verði þessi tillaga samþykkt hér og nú er fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi mismunað með óverjandi hætti. Ekki er hægt að samþykkja slíka mismunun. Og enn síður er hægt að samþykkja þessa tillögu þegar upplýst hefur verið að fyrir liggur hæstaréttardómur frá í sumar sem bannar þá veðatöku sem upplýst var í nótt að væri grundvöllur tillögunnar. Ég segi nei.