Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:28:42 (3346)

[14:28]

     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að það hefur verið orðið við ósk okkar um að líta á þessi álitamál og út af fyrir sig einnig forseta fyrir þann úrskurð sem hér hefur verið upp kveðinn, en ég saknaði þess nokkuð að í úrskurði forseta var fyrst og fremst tekið á einu afmörkuðu viðbótarefni brtt. á þskj. 451. Ég ætla ekki að deila við hæstv. forseta um það sem þar var sagt um efni þess hluta brtt. sem lúta að almannatryggingalögunum. Ég hygg að það sé rétt að hvort tveggja sé að breytingarnar séu ekki stórvægilegs eðlis og ekki íþyngjandi og um þær sé sæmileg samstaða og það megi kannski færa slík rök fyrir þeim en þegar á það er litið að brtt. meiri hlutans á þskj. 451 fela í sér að taka inn í þetta frv. ekki aðeins breytingar á einum óskyldum lögum, sem alls ekkert var fjallað um í frv. upphaflega, heldur fjórum og þegar jafngersamlega óskyldir þættir eins og breyting á lögum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, breyting á ákvæðum um lánslengd útlána Ferðamálasjóðs, breyting á lögum um félagslega aðstoð og síðan áðurnefnd breyting á almannatryggingalögum eru þarna saman á ferð þá verður að segjast alveg eins og er að ég held að farið sé að teygja háskalega á þessum ákvæðum þingskapalaga og stjórnarskrár sem hér var vitnað til.
    Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér hefði fundist það varlegra og varkárara að leggja til að úr því að um er að ræða svona miklar breytingar á fjórum aðskildum sviðum sem eiga alls ekkert skylt við ráðstafanir í ríkisfjármálum í öllum tilvikum, eru um alls óskyld efni, ýmist stjórnkerfisbreytingar eða lagfæringar tæknilegs eðlis, þá hefði verið eðlilegra að leggja til að flutt yrðu fjögur sjálfstæð frv. sem fengju eðlilega þriggja umræðna meðferð.
    Ég geri nokkurn greinarmun á því þó að menn hefðu e.t.v. fallist á að rúm túlkun þessara ákvæða leyfði það að eitt slíkt minni háttar atriði hafi e.t.v. verið tekið með í bandorm af þessu tagi úr því að slíkur á í hlut. Ég held að þetta sé, hæstv. forseti, ákvæði sem menn verða að vanda sig mjög gagnvart. Út af fyrir sig veit ég að hæstv. forseti vill gera það einnig en ég og væntanlega fleiri hljótum að spyrja okkur, hv. þingmenn, inn á hvaða braut erum við að halda? Hvar endar það ef í vaxandi mæli ár frá ári er heimilað að taka inn algerlega óskylda efnisþætti í frumvörp á lokastigi afgreiðslu þeirra og stytta þar með leið slíkra hluta í gegnum þingið, jafnvel niður í eina umræðu? Auðvitað verðum við að vera á verði gagnvart því, hæstv. forseti, að leiðast ekki út á slíka óheillabraut.