Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:32:21 (3347)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill taka fram að sá úrskurður sem hefur hér verið kveðinn upp er byggður á þeirri beiðni sem barst forseta. Forseti getur, vegna orða hv. 4. þm. Norðurl. e., bætt því við að það er óheimilt að setja í frv. við 2. eða 3. umr. ný og sjálfstæð atriði sem eru utan við efnismörk frv. Það er því andstætt þessum skilningi að setja við 2. umr. --- og enn síður við 3. umr. --- inn í svokallaða bandorma, þ.e. frv. um breytingu á ýmsum lögum, nýja kafla sem oftast má jafna til sjálfstæðra frumvarpa nema þeir séu efnislega af sama tagi og aðrir kaflar frv. Í þeim brtt. sem liggja fyrir á þskj. 451 eru t.d. gerðar tillögur um fjóra nýja kafla í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Þótt lagasmíð af þessu tagi sé sannarlega ekki til fyrirmyndar sýnist forseta að meginefni þessara kafla sé innan efnismarka frv., þ.e. fjalli um ráðstafanir í ríkisfjármálum, hafi með öðrum orðum áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þess vegna er það úrskurður forseta að þessi atriði megi koma til umræðu.