Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:36:47 (3352)


[14:36]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Á undanförnum dögum, bæði fyrir jól og nú þessa daga sem við höfum verið hér milli jóla og nýárs hafa verið gerðar miklar athugasemdir við vinnubrögð, m.a. urðu miklar umræður í nótt vegna tillögu sem tekin var upp milli 2. og 3. umr. um lánsfjárlög. Með því sem hér er til umræðu, þ.e. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er verið að fara inn á sömu braut. Það er verið að taka upp alls óskyld mál í brtt. og það verður að segjast eins og er að þær tillögur sem hér eru hafa fengið álíka umræður og aðrar tillögur sem við höfum fengið inn á okkar borð í hv. efh.- og viðskn.
    Ég lít þannig á að hér sé um allsendis óskyld mál að ræða, tilmæli um að koma á ákveðnum lagabreytingum sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við. Þær breytingar sem hér er verið að gera á almannatryggingalögunum koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við. Mér finnst hið sama gilda um tillögu um breytingu á lögum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum þar sem um er að ræða ákveðna gjaldtöku til að standa straum af ákveðnum kostnaði sem neytendur eða þeir sem fá þessa þjónustu greiða og ég get ekki séð að þetta komi ráðstöfunum í ríkisfjármálum nokkurn skapaðan hlut við. Ég efast um að þetta komi nokkurs staðar fram í fjárlögum.
    Ég held því að hér sé verið að fara inn á mjög hæpnar brautir og ef það á að ganga svona ár eftir ár að menn kippi inn nýjum og nýjum málum við 2. og 3. umr. þá veit ég ekki hvar við endum. Það stendur í íslensku stjórnarskránni hvernig farið skuli með lagafrumvörp og ég sætti mig ekki við þessa málsmeðferð.