Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:41:07 (3354)


[14:41]
     Matthías Bjarnason (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi geri ég athugasemdir við það frumvarpsform sem er kallað meðal þingmanna bandormur og allir hafa lofað því að hætta við þennan skapnað en það er alltaf bætt við. Nú nær þetta frumvarpsform aðeins til ráðstafana í ríkisfjármálum á næsta ári, árinu 1995. Ég spyr hæstv. forseta varðandi 8. og 9. gr. frv.: Nær þessi breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda á flugmálum aðeins til þessa eina árs sem ráðstafanir í ríkisfjármálum gera ráð fyrir eða er hér verið á laumulegan hátt að breyta lögum til frambúðar? Ég tel að þetta sé ólöglegt í alla staði, ef þessi skilningur er og það hefði þá vantað að taka inn að þessi breyting gildi aðeins á því ári sem ráðstafanir í ríkisfjármál gilda. Hér er ekkert talað um slíkt og því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort það sé hans skilningur, forsetans, að þetta eigi að gilda um eitt ár eða þetta sé endanleg breyting á þessum lögum.