Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:00:29 (3365)




[15:00]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst í mínum huga að hér hafa orðið mistök. Sá úrskurður sem hæstv. forseti las af stóli miðaðist eingöngu við þá kafla í þessum breytingartillögum sem snúa að almannatryggingunum. Það vill svo til eins og hér hefur verið rakið að verið er að gera breytingar á mörgum öðrum lögum sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við. Ég hlýt því að fara þess á leit við hæstv. forseta að hún skoði þetta mál að nýju í ljósi þeirra kafla annarra sem hér eru, ekki aðeins almannatrygginganna heldur hina kaflana sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við.

    Að lokum, hæstv. forseti, það er stjórnarskráin sem á að njóta vafans.