Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:13:48 (3370)


[15:13]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka frsm. meiri hluta svörin, en ég spyr hann þá í framhaldi af svörum hans: Var það ekki rætt í nefndinni hvaða atriði frv., eða hvaða greinar, væru tímabundin, afmörkuð í tíma við árið 1995, eins og heiti frv. gefur til kynna og þá hvaða ákvæði væru það ekki?
    Mér finnst það ekki góð vinnubrögð af hálfu meiri hlutans í nefndinni ef hann gerir ekki grein fyrir því í þingnefndinni hvaða ákvæði frv. falla að heiti frv. og hvaða ákvæði eru þannig að þau eigi að vera skerðingarákvæði mun lengur en frv. segir sjálft.
    Ég bendi hv. þm. á að sum ákvæði í I. kafla frv. eru skýrlega afmörkuð í tíma, eins og t.d. skerðingin á Framkvæmdasjóði fatlaðra í 3. gr., sem er sérstaklega tekið fram að eigi einungis við um árið 1995, eins og ákvæðin líka í 1., 2. og 4. gr. Það eru því bara sumar greinar sem ekki er tekið fram að eigi við um árið 1995 og ég taldi þær upp hér áðan áður en umræða hófst. En ég get minnt hv. þm. á þær og beðið hann jafnframt um að svara því hvort það sé réttur skilningur að þær breytingar séu varanlegar, þ.e. breytingarnar í 5. gr. frv., 6. gr. --- hann er búinn að svara 8. og 9. gr. --- en þá spyr ég um 18. gr. frv.

í ,,þrátt-fyrir``-kaflanum og 27. gr., um skerðinguna á framkvæmdagetu Hafnabótasjóðs. Eru þetta ekki tímabundnar breytingar, eins og er verið að láta okkur halda, heldur í raun verið að smygla hér inn laumulega varanlegum breytingum?