Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:16:01 (3371)


[15:16]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vísa því á bug að það sé verið að smygla hér inn laumulega einu eða öðru. Þetta frv. kom til efh.- og viðskn. með hefðbundnum hætti. Það var brotið upp og einstökum köflum þess var vísað til annarra þingnefnda til yfirferðar. Það hefur því fengið meiri skoðun heldur en flest önnur frv. sem hér eru til meðferðar vegna þess að mörg ákvæði þess hafa verið til umfjöllunar í tveimur nefndum. Það á sérstaklega við um þau efnisatriði sem fjallað er um I. kafla frv. Það er sem sagt ekki venjan að ,,þrátt-fyrir``-ákvæðin fari til skoðunar í öðrum nefndum heldur að farið sé yfir þau í efh.- og viðskn., enda eru flest hver ákvæði sem hefur verið tekið á áður og það sem ekki hefur verið tekið á áður í fyrri lögum af þessum toga hefur verið farið sérstaklega yfir í nefndinni og kallaðir til aðilar og beðið um umsagnir þar sem um slíkt hefur verið að ræða.
    Eins og hv. þm. bendir á þá eru í I. kafla frv. ýmis atriði sem eiga eingöngu við um árið 1995 og það er tekið skýrt fram, en í öðrum greinum er ekki um neina slíka fyrirvara að ræða, að breytingarnar eigi einungis við um árið 1995. Það hefur verið algengt í bandormi af þessu tagi að lögum hefur verið breytt til lengri tíma og það skýrir sig yfirleitt sjálft hvort um er að ræða breytingu til lengri tíma eða hvort breytingarnar eru tímabundnar.