Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:52:47 (3373)


[15:52]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get viðurkennt að á sínum tíma þegar borgarlæknisembættið var í raun lagt niður sem slíkt þá þótti mér það vera skref afturábak vegna þess að borgarlæknisembættið var mjög virt embætti, virt og virkt hér í borginni og mér þótti miður þegar borgarlæknisembættið var flutt frá því að vera sveitarstjórnarembætti yfir í embættismann ráðuneytisins þó að heitið hafi nú verið látið halda sér ef ég man rétt þá þótti mér það mjög miður.
    Varðandi þessa brtt. að öðru leyti í bandorminum þá reikna embættismenn það út að hún eigi að spara ef ég man rétt 8 millj. kr. Sjálfsagt höfum við ekki forsendur til þess að neita því að sú tala geti staðist, að hún sé a.m.k. réttilega reiknuð. Ég hef ekki haft forsendur til þess. En hv. þm. dró það í efa. Ég tel að þetta atriði sé eitt af þeim atriðum sem menn eigi að ræða mjög nákvæmlega hér við lok þinghaldsins, ef menn eru að ná samkomulagi um það með hvaða hætti við ljúkum þingstörfum hér í kringum áramótin þá er þetta eitt af þeim atriðum sem menn eiga að ræða að mínu viti.