Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 16:43:27 (3379)


[16:43]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1995. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. síðasta ræðumanni um það sem hann sagði um þetta frv., en það sem ég ætla einkum að gera að umræðuefni eru tvær fyrstu greinar frv. er varða grunnskólann. Aðrir hv. þm. Framsfl. munu koma að öðrum málum.
    Þannig er að nú er enn á ný af hálfu hæstv. ríkisstjórnar ætlunin að skerða framlög til grunnskólans. Þetta er í sjálfu sér gamall kunningi sem hér er á ferð því að öll árin sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur setið að völdum hefur hún ráðist á grunnskólann og litið á það sem alveg sérstakt ætlunarverk sitt. Mig langar, hæstv. forseti, til að rifja aðeins upp söguna þar sem við erum nú stödd hér á síðasta ári þessa kjörtímabils og eigum væntanlega ekki von á því að fá fleiri slíkar sendingar inn á hv. Alþingi eins og við höfum hér fyrir framan okkur eða það er a.m.k. einlæg von mín og ég sakna þess ekkert að þurfa ekki að halda oftar ræður eins og þær sem ég hef gert öll þessi ár og varða þessa skerðingu.
    Árið 1992 var með frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem varð að lögum nr. 1/1992, skert framlag til grunnskólans. Í umsögn fjmrn. segir, með leyfi forseta:
    ,,Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að frestun framangreindra ákvæða grunnskólalaga, nr. 49/1991, spari ríkissjóði rúmlega 40 millj. kr. á árinu 1992, en tæpar 100 millj. kr. á heilu ári. Sparnaðurinn á árinu 1992 miðast við fimm mánuði. Allar fjárhæðir eru á áætluðu verðlagi í janúar 1992.``
    Í öðru lagi. Á árinu 1993 var ekki lagður fram sérstakur ,,bandormur`` en flutt voru sérstök lög, nr. 4/1993, um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla. Þar segir í umsögn fjmrn. um frv., með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að frestun framangreindra ákvæða grunnskólalaga, nr. 49/1991, spari ríkissjóði a.m.k. 100 millj. kr. á árinu 1993.``
    Í þriðja lagi. Lög nr. 127/1993, um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1994. Þar segir í umsögn fjmrn., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að frestun framangreindra ákvæða grunnskólalaga spari ríkissjóði um 160 millj. kr. á haustinu 1994, en 350 millj. kr. á öllu skólaárinu 1994--1995.``
    Síðan erum við í dag að fjalla hér um bandorm og þar eru ákvæði um sparnað sem hljóðar upp á, ef ég vitna hér í umsögn fjmrn. eins og ég hef gert varðandi hin tilfellin. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sparnaður af þessu ákvæði [þ.e. fækkun kennslustunda] er því um 105 millj. kr. á vorönn og um 75 millj. kr. á haustönn eða samtals 180 millj. kr. á árinu 1995. Auk þess sparast 50--100 millj. kr. vegna þess að frestað er ákvæði um fækkun nemenda í bekkjum.``
    Til þess að greina örlítið betur frá því hvaða ákvæði þar er um að ræða þá kemur það fram í umsögn minni hluta menntmn. um frv., sem er birt sem fskj. með nál. meiri hluta efh.- og viðskn., að það er alls um 26 bekkjardeildir að ræða þar sem þetta ákvæði er nýtt, að fjölga í bekkjum um allt að tvo nemendur með sérstöku leyfi fræðslustjóra. Á sama tíma og þessi hæstv. ríkisstjórn sem hér situr er að koma fram við grunnskólanemendur á þennan hátt, er lagt fram frv. til laga á hv. Alþingi um ný grunnskólalög sem kveða á um gífurlegan kostnaðarauka í rekstri grunnskólans. Og það er hægt að gera það núna vegna þess að nú á að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna og þá er hægt að vera uppi með háleit markmið. Þetta finnst mér vera vinnubrögð sem eru algerlega óviðunandi og það er eiginlega dapurlegt að þurfa að taka þátt í vinnubrögðum sem þessum í hv. menntmn., en þar höfum við verið með til umfjöllunar þessi tvö frumvörp á sama tíma, frv. sem sparar 200 millj. eða svo, 280 millj., og svo frv. sem hefur í för með sér kostnaðarauka upp á milljarða kr. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn hafi oftrú á lagasetningu og telji að ný lög um grunnskóla breyti öllu og séu fyrst og fremst það sem grunnskólinn þarf. En sannleikurinn er sá að grunnskólinn þarf fyrst og fremst meira fjármagn og hann þarf fyrst og fremst að lögin frá 1991 fái að gilda í landinu, en þau hafa aldrei verið tekin í gildi vegna þess að þau voru strax skert á fyrsta ári með sérstökum lögum sem hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarsinnar hafa samþykkt hér á þingi öll þessi ár.
    Það hefur ekki staðið mikið í stjórnarsinnum í hv. menntmn. að samþykkja þetta öll þessi ár og hv. formaður menntmn., sem hefur leitt þá 18 manna nefnd sem hefur verið að störfum þetta kjörtímabil til þess að móta nýja stefnu í menntamálum, hefur ekki tekið það mjög nærri sér, eftir því sem best verður séð, að samþykkja öll þessi ár þessa skerðingu á framlögum til grunnskólans. Samt sem áður sagði hv. þm. í viðtali 23. okt. sl., það var líklega á Stöð 2 --- viðtalið var haft í framhaldi af því að háskólinn var mjög ósáttur við það framlag sem honum var ætlað í fjárlagafrv. og var viðtal við hv. formann menntmn. til þess að heyra hennar álit á niðurskurði til menntamála. Þá segir hv. formaður, með leyfi forseta:
    ,,Ég vil kannski ekki á þessari stundu nákvæmlega telja fram hvað það væri sem við ættum að skera niður en ég tel hins vegar að þetta sé svo brýnt mál að menntamálin verði að eiga forgang og ég bendi sérstaklega á það að það er beint samband á milli efnahagslegs árangurs og menntunar þjóða þannig að það er alveg hægt að fullyrða það að menntamál eru efnahagsmál.``
    Þetta var fallega mælt. Þetta er hins vegar ekki í raun það sem maður sér í verki af hálfu hv. þm. og annarra stjórnarsinna hér á hv. Alþingi, að það sé eitthvert samband á milli menntamála og efnahagsmála, því það er litið svo á að það sé alltaf verið að spara til menntamála. En þegar dæmið verður gert upp, hvenær sem það verður nú gert og er sjálfsagt erfitt nokkurn tíma að gera það upp debet og kredit, þá er ekki víst að þessi sparnaður sé svo óskaplega mikill sparnaður fyrir þjóðarbúið þegar á allt er litið og ekki síst hvernig komið hefur verið fram gagnvart grunnskólanum. Þar finnst mér að hæstv. ríkisstjórn hafi hreinlega orðið sér til skammar.
    Hæstv. forseti. Það eru um það bil 42 þúsund nemendur sem nú stunda nám í grunnskólum landsins. Þeim hefur verið að fjölga upp á síðkastið en hæstv. menntmrh. sagði í sinni stefnuræðu sl. haust, undir stefnuræðu forsrh., að hann ætlaði að skila aftur þeim kennslustundum sem hann hefði óneitanlega tekið frá grunnskólanum í sinni ráðherratíð. Og það er svo sem vel að hæstv. ráðherra hefur manndóm í sér til þess að gera það, en hins vegar hef ég sagt það að þeim kennslustundum verður aldrei skilað til þeirra nemenda sem voru svo óheppnir að vera í grunnskóla þessi ár. Það uppgjör getur ekki farið fram, eftir því sem ég fæ best séð, þannig að hæstv. ráðherra verður að hafa það á bakinu að hafa tekið þessar kennslustundir frá nemendum grunnskólans og þeim verður ekki skilað.
    Auk þess má nefna að samkvæmt fjárlagafrv. á að spara 1% í grunnskólanum, flatur niðurskurður. Flatur niðurskurður er uppáhaldið hjá hæstv. ríkisstjórn í flestum tilfellum vegna þess að það þarf meiri kjark til þess að forgangsraða. Það á að spara 1%, það á að hagræða og þetta eru 40 millj. kr. heilt yfir og það bætist ofan á annan sparnað.
    Svo er það annað sem á að færa núna yfir til sveitarfélaganna og það gerist án þess að um það hafi farið fram í sjálfu sér nokkur umræða og kannski er þar ekki um stórkostlegar upphæðir að ræða, en það er kennsla í norsku og sænsku sem hefur verið heimiluð og stunduð á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þeir nemendur sem hafa undirstöðu í þeim tungumálum hafa getað tekið norsku eða sænsku í stað dönsku og hefur ríkissjóður staðið undir kostnaði hvað þetta varðar þangað til núna að nú á að færa þetta yfir á sveitarfélögin sem verður þó sérstaklega Reykjavíkurborg og það á að gerast án þess að það sé í samræmi við það að grunnskólinn sem slíkur færist yfir því að það er algerlega óútséð um það í dag hvenær það geti átt sér stað. ( Gripið fram í: Og hvort.) Og hvort, sennilega verður það nú þó. Spurningin er meira hvenær að mínu mati.
    Að síðstu, hæstv. forseti, ég skal nú reyna að ljúka máli mínu fyrir kl. 5 en þá veit ég að á að gera hlé á fundinum, langar mig til þess að koma aðeins inn á orð hæstv. menntmrh. Þegar fyrst var gripið til niðurskurðar í grunnskólanum, þ.e. fyrsta ár þessarar ríkisstjórnar og það var samkvæmt lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þá urðu mikil viðbrögð úti í þjóðfélaginu vegna þessa niðurskurðar og foreldrafélög funduðu og sendu inn mikinn fjölda áskoranabréfa til hv. þingmanna og hæstv. ráðherra en það hafði ekki árangur. Þá hélt hæstv. menntmrh. því fram að það væri ekki verið að skera niður kennslu í íslensku og lagði mikla áherslu á það að þetta ætti allt saman að fara fram einhvern veginn öðruvísi. Og hann segir orðrétt í viðtali, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég hef líka sagt að það komi ekki til greina að minnka kennslu í íslensku eða hætta kennslu í einhverju tungumáli. Þarna er bara verið að mála þetta allt of dökkum litum. Þetta verður ekki gert svona.``
    Síðan kemur það nú í ljós þegar minni hlut í hv. menntmn. leggur fram fyrirspurn á hv. Alþingi til hæstv. menntmrh. um það hvar þessi niðurskurður hafi aðallega komið niður að það er þannig t.d. í 4.--7. bekk að kennslustundum hefur verið fækkað mest í íslensku og almennri bekkjarkennslu. Í 8. og 9. bekk kemur fækkun kennslustunda mest fram í íslensku, samfélagsgreinum, heimilisfræði, erlendum málum og náttúrufræði en reyndar í 10. bekk kemur fækkun næstum eingöngu fram í valgreinum. Þannig að meðan börnin eru á þessum aldri þar sem íslenskukennslan hlýtur að vera þeim ákaflega mikils virði þá er búið að taka af þeim íslenskukennslu svo að þetta gekk nú ekki eftir. Að vísu er þetta svar ekki nýtt sem kom frá hæstv. menntmrh. við fyrirspurn en samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér í morgun þá er ekkert sem gefur til kynna að á þessu hafi orðið breyting þannig að það er íslenskukennslan fyrst og fremst sem verður fyrir þessum niðurskurði og það álít ég að eigi eftir að hafa afleiðingar sem er of snemmt að segja fyrir um í dag hverjar verða. Ég ætla að síðustu að segja það að ég vona að ég þurfi ekki að halda fleiri slíkar ræður á hv. Alþingi um grunnskólann.
[Fundarhlé. --- 17:02]