Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 18:02:56 (3380)


[18:02]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Fyrr í dag óskaði ég eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. hlýddi á mál mitt vegna þess að ég tel að ég þurfi að eiga við hann nokkurn orðastað og ég spyr nú: Hefur hann ekki fundið sér tækifæri til að koma hingað? (Gripið fram í.) Hann er kominn í hús. Gott og vel.
    Fyrst af öllu vil ég segja, hæstv. forseti, að ég harma hvernig málum er komið á hinu háa Alþingi. Hér var í dag felldur dómur um að ekkert væri athugavert við þann tillöguflutning sem er kominn á borð okkar við 2. umr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Þessi dómur stenst auðvitað ekki og það þykir mér mjög leitt að þurfa að segja vegna þess að ekki eingöngu er ákvæði í 37. gr. þingskapa sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekki er lagafrv. samþykkt til fullnaðar fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður`` heldur stendur einnig í sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins í 44. gr.: ,,Ekkert lagafrv. má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.``
    Sjálf stjórnarskráin bannar málsmeðferð sem þessa því að í þessum leiða bandormi eru ákvæði sem ekki hafa verið rædd við 1. umr. og því fer 1. umr. þessa ákveðnu atriða fram hér í fyrsta skipti nú. Og ég hef oft áður haft á því orð að slík lagasmíð er óþolandi. Bandormar í sjálfu sér eru ekki boðleg lagasmíð en það hefur verið erfitt að fá það í gegn að menn hætti að setja landinu lög á þennan hátt, en hér er óumdeilt eins og ég mun koma að síðar, hér birtast á borðum okkar nú gersamlega ný atriði sem svo vill til að skipta þúsundir launþega Tryggingastofnunar ríkisins verulegu máli og skal ég nú koma að því.
    Sá kafli sem ég ætla að gera aðallega að umræðuefni er kaflinn um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ef starfsfólk Tryggingastofnunar ætti að fara að vinna eftir þessum lagatexta, þá held ég að það væri næstum því útilokað því að það vill svo til að það er ruglað saman bótaflokkum og það fyrsta sem er nauðsynlegt til þess að breyta lögum er að þekkja gildandi lög og það er auðvitað fáránlegt í sjálfu sér að það skuli vera efh.- og viðskn. sem er að leika sér að almannatryggingalögunum án þess að ráðgast við heilbr.- og trn. sem fer með þann málaflokk og án þess að kalla til starfsfólk úr Tryggingastofnun ríkisins. Til þess að fólk átti sig á því hvað ég er að fara ætla ég að útskýra þetta mál.

    Venjulegur lífeyrisþegi sem fær örorku eða ellilífeyri fær tekjutryggingu líka til að tryggja honum lágmarkstekjur. Ef hann býr einn, ellilífeyrisþegi eða örorkulífeyrisþegi sem eru einir um heimilisrekstur og njóta tekjutryggingar --- ég er að lesa upp úr bæklingum Tryggingastofnunar ríkisins --- og eiga rétt á heimilisuppbót þá skerðist hún á sama hátt og tekjutrygging. Þetta eru fyrstu þrír bótaflokkarnir sem varða elli- og örorkulífeyrisþega. Eins og ég sagði hér, hún skerðist á sama hátt og tekjutrygging. Sú skerðing fer reyndar fram eftir flókinni reglu sem ég hygg að lítið gagn sé í að útskýra, en hvað stendur svo hér í brtt. hv. efh.- og viðskn.? Þar segir í 3. brtt., lið b:
    ,,Við 2. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú hefur einhleypingur aðrar tekjur en úr lífeyristryggingum almannatrygginga og skal sérstaka heimilisuppbótin þá skerðast krónu fyrir krónu uns hún fellur niður.``
    Þarna eru menn að rugla saman annars vegar uppbót og hins vegar heimilisuppbót. Heimilisuppbót skerðist nú eftir sömu reglum og tekjutrygging og þetta skiptir engu smámáli. Og þetta byggist ósköp einfaldlega á því að nefndin kann ekkert í lögum um almannatryggingar. Það er í öllum þessum texta sífellt verið að rugla saman heimilisuppbót og uppbót. Ég skal útskýra fyrir fólki hvað er uppbót sem er fjórða tegundin af bótum. Þar segir svo í bæklingi Tryggingastofnunar:
    ,,Heimilt er að greiða frekari uppbót á lífeyri ef lífeyrisþegi kemst ekki af með tekjur sínar vegna sérstaks kostnaðar. Á þetta t.d. við um vistunarkostnað á elliheimili, háa húsaleigu, lyfjakostnað eða kostnað vegna mikillar umönnunar. Umsókn um uppbót skal fylgja yfirlýsing læknis um lyfjanotkun viðkomandi eða annan sérstakan kostnað en húsaleigukvittanir ef um uppbót vegna húsaleigu er að ræða.``
    Uppbót er ekki aðeins greidd vegna húsnæðiskostnaðar heldur alls kyns annars kostnaðar og þá oftast vegna mikils lyfjakostnaðar. Það er því fráleitt að húsaleigubætur skerði þessar bætur því að yfirgnæfandi meiri hluti fólks nýtur þessara bóta, eins og ég veit að hæstv. fyrrv. heilbrrh., hv. 1. þm. Vestf., veit er vegna lyfjakostnaðar. Þessum bótaflokki, sem þúsundir manna hafa notið, fylgir hins vegar að þeir sem hafa þessa uppbót hafa notið þess að greiða ekki útvarp og sjónvarp. Þetta hefur farið þannig fram að Ríkisútvarpið fær mánaðarlega lista yfir þá sem eru með uppbót á lífeyri og það heitir ekki heimilisuppbót því að hún er annað, og fellir niður afnotagjöld af útvarpi og sjónvarpi.
    Því er ekkert að leyna að Ríkisútvarpið hefur haft horn í síðu þessa kerfis allar götur síðan það var sett og skiljanlega vegna þess að Ríkisútvarpið hefur auðvitað orðið af stórkostlegum tekjum vegna þessa. En ég hygg að flestir þingmenn hafi litið meira til þess að þetta hefur verið stuðningur við elli- og örorkulífeyrisþega og ég hygg að marga mundi muna um að þurfa nú að fara að greiða fyrir útvarp og sjónvarp. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að menn viti hverju þeir eru að breyta áður en gengið er til atkvæðagreiðslu um þessi mál og ég mundi óska eftir því að það yrði reiknað út af kunnáttufólki og ekki starfsfólki ráðuneyta, hvað þetta mundi þýða.
    Það er fleira sem ég hygg að þurfi að athuga. Í texta hv. efh.- og viðskn. er talað um að ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og húsleigubætur, fara ekki fram úr ákveðinni upphæð þá skal greiða uppbót o.s.frv. og síðan gildir það sama um örorkulífeyrisþega nema þar eru tölurnar ögn hærri og þar segir:
    ,,Hafi bótaþegi hins vegar aðrar tekjur umfram 217.319 kr. skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru.``
    Nú spyr ég: Örorkulífeyrisþegar sem eiga börn á framfærslualdri fá barnabætur og einstæðir öryrkjar fá mæðralaun eða feðralaun. Eru þær bætur aðrar tekjur en lífeyrir? Og ætli nokkur geti svarað mér því, ég vona að hæstv. trmrh. hljóti að vita það, hvort átt er við að þær tekjur séu allar tekjur lífeyrisþegans því þá fer nú að kárna gamanið. Og það er auðvitað alveg yfirgengilegt að sjá svona samsetning augljóslega unninn af fólki sem hefur ekki hugmynd um hvað það er að gera, ekki minnstu hugmynd.
    Síðan er lætt hér inn ýmsum sérkennilegum ákvæðum sem ég kannast ekki við að hafa séð áður. Það er sérstaklega þetta, að lífeyrisþegi sem hefur barnalífeyri eða meðlag, hann gæti haft meðlag frá föður eða móður úti í bæ, hann gæti haft barnaörorku ef hann ætti barn sem eitthvað væri að. Það eru ýmsir bótaflokkar sem hann gæti notið vegna fjölskyldustöðu sinnar og ég vona að hæstv. ráðherra sé að hlusta á mig. Mundu það kallast aðrar tekjur, aðrar tekjur örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga sem er bara einn hlutur? Lífeyrir er bara lífeyrir. Það er ekki inni í því barnalífeyrir, meðlag, mæðralaun, feðralaun, barnaörorka, umönnunarbætur vegna sjúks barns eða hvað sem það kann að vera. Þetta er alveg nauðsynlegt að við vitum áður en við förum að greiða um þetta atkvæði og umfram allt hvað er ,,sérstaka heimilisuppbótin`` vegna þess að starfsfólk í Tryggingastofnun ríkisins gæti ekki unnið samkvæmt þessum lögum. Sérstök heimilisuppbót er annað en heimilisuppbót. Hins vegar getur það fengið sérstaka uppbót sem er vegna lyfja, húsaleigu og kostnaðar af öllu tagi. Það er alveg grundvallarskilyrði að fólk kunni þetta og skilji hverju það er að breyta.
    Ég vil því leggja til, hæstv. forseti, að kaflinn um almannatryggingarnar verði fjarlægður úr þessum bandormi og ég skal setjast niður með hverjum þeim hv. þm. eða hæstv. ráðherra og gefa ráð um það ef stendur til að breyta almannatryggingalöggjöfinni. En ég hlýt að verða að spyrja hæstv. ráðherra: Eru þetta ekki tæknilegir gallar heldur bara pólitísk ákvörðun? Þá vil ég upplýsa hæstv. ráðherra að hér er ekki á ferðinni nein smáskerðing á kjörum lífeyrisþega. Og ég veit ekki hvaða ráðgjafa hæstv. ráðherra hefur hafi þeir komið nálægt þessum samsetningi því að það er svo gersamlega augljóst að hér er á ferðinni fólk

sem hefur bara ekki hundsvit á því sem það er að gera. Þetta er auðvitað að verða alvarlegt mál að það skuli koma fyrir við afgreiðslu hvers málsins á fætur öðru að þingmenn verða að standa hér og reyna að upplýsa hæstv. ráðherra um hvað þeir eru að gera. Ég held að við verðum að gera meiri kröfur til vinnu í ráðuneytunum og þá ekki síður í hv. þingnefndum en svo að við þurfum að standa hér í alls kyns tæknilegum leiðréttingum dag eftir dag og síðan er ætlast til þess að þingheimur hespi þetta í gegn eins og ekkert sé.
    Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa skilið inntakið í máli mínu, en þeir geta þá fengið hér upplýsingabækling ef þeir vilja kynna sér málið. En aðalatriðið er að hér er um fjóra bótaflokka að ræða, lífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstaka uppbót. Og sé skerðing á heimilisuppbótinni og þar með tekjutryggingunni þá verða menn að borga sinn eigin síma. Ef menn hafa hins vegar fulla tekjutryggingu og þó þeir hafi ekki heimilisuppbót, þá hafa þeir ókeypis síma.
    Það þarf líka að athuga hvernig þessi skerðing, eins og segir hér í heimilisuppbótinni ,,krónu fyrir krónu``, verkar vegna þess að þarna eru komnar tvenns lags skerðingar. Tekjutrygging skerðist eftir alveg ákveðnum reglum og eins og nú er, heimilisuppbót á sama hátt. Nú er verið að breyta því. Nú á heimilisuppbótin að skerðast krónu fyrir krónu eins og hér segir, verði tekjur þetta og þetta háar. Og svo að ég segi þetta aftur til þess að menn skilji þetta nú örugglega: Hvað kalla menn svo tekjur? Er barnalífeyrir tekjur? Er meðlag tekjur? Er barnaörorka tekjur? Eru alls konar sjúkratryggingar tekjur? Þetta verðum við að vita. Og ég bið menn, hæstv. forseti, að ganga varlega um þetta því að ætli það sé nú ekki um það bil fjórðungur þjóðarinnar, líklega 20%, ekki undir því, sem er á ellilífeyrisaldri og ég hygg að það mundi koma við gamla fólkið á elliheimilunum og fólkið sem býr eitt af það á að fara að borga bæði síma, útvarp og sjónvarp. Ég held að menn verði að huga aðeins að þessu áður en lengra er haldið. Því vil ég fara fram á það við hæstv. ráðherra --- sem ég hef enga ástæðu til að halda að vilji skerða kjör lífeyrisþega, ég trúi því ekki, þannig að ég held að hann hafi orðið þarna fórnarlamb afskaplega misviturra ráðgjafa sem hafa ekki alveg gert sér grein fyrir því hvað þeir hafa verið að gera --- að þetta verði endurskoðað.
    Það er svo sem efni til að taka ýmislegt fyrir í þessu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en ýmsir hafa tekið fyrir einstaka þætti og ég vil taka undir með hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerði Sverrisdóttur, um grunnskólamálið sem allt er að verða okkur til mikillar hneisu og kennurum og börnum landsins til mikilla erfiðleika. Það er sorglegt að sjá hvernig er að fara fyrir námsmönnum á sama tíma og menn básúna hér um þýðingu rannsókna, menntunar, þekkingar og hvað þetta heitir nú allt saman. En það er augljóst að kjör námsmanna hafa verið skert verulega og svo að úr hefur dregið að fólk leggi í að taka námslán. Síðan er það nú einu sinni svo að síðan menn urðu að fara að taka lán fyrir fram fyrir námsláninu eða fyrir framfærslu öllu heldur þangað til lánið kemur, þeir verða bara ósköp einfaldlega að finna sér tvo ábyrgðarmenn á það lán og það eru ekki allir sem eiga gott með það. Fólk hugsar sig tvisvar um eins og eðlilegt er á þessum síðustu og verstu tímum áður en það fer að ábyrgjast hundruð þúsunda kr. lán fyrir fólk sem það hefur ekki einu sinni tryggingu fyrir því að nái tilskildum prófum og þá kemur ekkert lán. Það er eins og með hafbeitina, það er kannski vafasamt að veðsetja það sem maður veit ekki hvað er. Þannig að allt er þetta auðvitað hin mesta sorgarsaga.
    Mér sýnist nú --- svo að ég hlaupi hérna á nokkrum atriðum --- að það beri samt að fagna því að okkur tókst að stöðva það að listskreytingasjóður yrði algerlega aflagður. Það er hægt að sætta sig við að mismiklir peningar séu látnir á ári hverju í það að gera lífið svolítið fallegra í kringum okkur og við skulum vera sanngjörn og skera það niður ef það er nauðsynlegt, en það væri afleitt ef þessi framlög hyrfu alveg.
    Ég skal líka fagna því að Kvikmyndasjóður hefur fengið þarna umtalsverða viðbót. Ég hef margsagt það að það er áreiðanlegt að það getur verið mjög arðbært og atvinnuskapandi að efla kvikmyndaiðnað í landinu þannig að það er ánægjulegt að eitthvað hefur rofað til þar. Mér þykir hins vegar ekki mikið haft við ferðaþjónustuna, sem ég hef stundum leyft mér að skopast ofurlítið að við misjafnlega mikinn fögnuð, bæði félaga minna og annarra hv. þm., því að kauðaskapurinn í þeim málum er náttúrlega alveg hreint ólýsanlegur eins og nýlega kom í ljós að þegar búið er að takast að selja ferðamönnum víðs vegar að úr Evrópu rándýra farmiða og rándýra hóteldvöl til að eyða jólunum uppi á Íslandi. Þá kemur í ljós að þeir höfðu ekki verið látnir vita af því að það væri enginn matur í húsinu. Ég verð nú að segja að ég held að það sé ekki hægt að komast lægra í þeirri aðferð að taka á móti ferðamönnum á þennan hátt. (Gripið fram í.) Það mun hafa verið hægt að fara frá Hótel Sögu út á Hótel Loftleiðir, eins og það er nú þægileg leið, til þess að ná sér í eitthvað að borða. Ég held því að það væri ástæða til þess að ræða við forustumenn ferðaþjónustu og útskýra fyrir þeim að þó að fjöllin séu falleg þá er kalt um þetta leyti og margir eru þannig gerðir að þeir vilja gjarnan láta sér líða vel á ferðalögum. Ég er þannig og þess vegna hef ég alltaf skilið það. Mér hefur aldrei hugnast að því að líða illa á víðavangi, er kulsæl og heldur fyrir það að láta mér líða vel. Ég hygg að svo sé um fleiri.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið meira, hæstv. forseti. Ég tel mig hafa gert mitt til að útskýra þá endileysu sem hér er að finna varðandi Tryggingastofnun ríkisins eða öllu heldur lög um almannatryggingar. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra ræddi við fólk úr Tryggingastofnun ríkisins, sem ekkert hefur komið nálægt þessu, til þess að það staðfesti, hygg ég, það sem ég hef verið að segja. Þetta getur ekki verið svona. Enda segir það sig sjálft að það stendur ekki orð um hvaða áhrif þessar breytingar á

almannatryggingalöggjöfinni hafa á ríkisfjármál og það er ósköp einföld skýring á því, það hefur enginn hugmynd um það. Það hefur ekkert verið reiknað út hvaða áhrif þetta hefur á stærsta launþegahóp þjóðarinnar, fólkið sem tekur laun hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem eru líklega um 20% þjóðarinnar á ellilífeyrisaldri og umtalsverður hópur sem vegna sjúkleika hefur orðið að draga fram lífið á örorkubótum og hefur ekki verið ofsælt af því.
    En ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari spurningum mínum um hvað hér er á ferðinni, hvað telst til tekna og önnur þau atriði sem ég hef hér minnst á. Og þá skal ég ekki lengja þessa umræðu frekar.