Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 18:25:26 (3381)

[18:25]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er tilfinnanlegt þetta aðstöðuleysi hér í ræðupúltinu þegar maður þarf að hafa með sér nokkuð af gögnum. Það er til umhugsunar hvort ekki er hægt að fá góða hönnuði til þess að smíða púlt sem hefði hliðarhillur og skápa þegar mikið liggur við, en þannig er nú orðið pappírsflóðið hjá okkur a.m.k. sem í efh.- og viðskn. búum og störfum þessa dagana að það er auðvitað hugsanlegt að leysa þetta með aðstoðarmönnum, það er rétt, að að okkur hellist þvílíkt pappírsflóð og möppur margar og miklar að það er ekki hægt að hafa það allt saman auðveldlega á reiðum höndum öðruvísi en taka þær bara með sér í ræðustólinn og er svo sem ekkert að því.
    Ég vil bara láta það koma strax fram, hæstv. forseti, að sá fagráðherra sem ég vil einna helst og mest kalla til fyrir utan hæstv. heilbrrh., sem er ánægjulegt að sjá hér sem endra nær, er hæstv. samgrh. Ég óska eftir því að honum verði gert viðvart um það að ég vildi gjarnan að hann sé viðstaddur umfjöllun um þann þátt þessa máls sem snýr að flugmálaáætlun og ég ætla að víkja talsvert að og reyndar gera kannski að segja má að aðalinntaki míns máls hér á eftir þannig að ef hæstv. samgrh. gæti orðið hér viðstaddur fyrr eða síðar og helst fyrr, þá væri það mjög til hagræðis, hæstv. forseti.
    Hér er á ferðinni svonefndur bandormur hæstv. ríkisstjórnar um það sem kallað er ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Bandormur af þessu tagi er að festast í sessi --- og býð ég velkominn hæstv. samgrh. sem reynist bara á næstu grösum --- er að festast í sessi, hæstv. forseti, og er það heldur hvimleitt satt best að segja því að auðvitað á ekki að þurfa að standa þannig að stjórn efnahagsmála að það þurfi að vera til meðferðar á hverju einasta þingi sérstakt neyðarfrv. um einhverjar bráðabirgðaráðstarfanir í ríkisfjármálum. En þannig er upplegg þessa máls að hér er á ferðinni að stofni til og hugsun tímabundnar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem víkja til hliðar eða breyta ákvæðum gildandi laga í einhverjum greinum, sem sagt einhvers konar neyðar- eða krísuaðgerðir í ríkisfjármálum. Það er auðvitað dálítið athyglisvert að þessi hæstv. ríkisstjórn er að festa þetta í sessi sem áður heyrði til undantekninga, var tengt einhverjum alveg sérstökum aðstæðum sem upp komu, efnahagsþrengingum, aðgerðum í tengslum við kjarasamninga eða annað því um líkt. Þetta mun vera ef ég man rétt þriðja árið í röð sem þessi hæstv. ríkisstjórn flytur svona við áramót eins og það sé bara að verða óhjákvæmilegur fylgifiskur fjárlagagerðar að grípa til neyðarráðstafana með sérstöku frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Svo er það reyndar þannig, hæstv. forseti, að í öðru lagi er það öfugmæli að hér sé eingöngu um að ræða ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Hér er í bland verið að smygla inn varanlegum breytingum á ýmsum lagaákvæðum sem alls ekki eiga að gilda aðeins á næsta ári svo að heiti frv. er í raun rangt. Það ætti að vera frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum að hluta til á árinu 1995 og að öðru leyti til lengri tíma og fleira eða eitthvað því um líkt.
    Þetta frv. byrjar á gömlum kunningja, hæstv. forseti, þar sem eru skerðingarnar á lögum um málefni grunnskólans, á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, með síðari breytingum. Og þetta er, hæstv. forseti, eitt af þessum dapurlegri tilfellum þar sem eru á ferðinni grunnskólalögin frá vordögum 1991 eða vetrardögum sem samþykkt voru á Alþingi að lokum í samkomulagi á grundvelli málamiðlunar ágætrar sem hér tókst á vordögum eða vetrardögum 1991 í tíð fyrri ríkisstjórnar og það voru gerðar ákveðnar breytingar á málinu í meðförum Alþingis sem Sjálfstfl. sérstaklega barðist fyrir og út á það náðist heildarsamkomulag um afgreiðslu málsins í þinginu þannig að maður hefði nú ætlað að þar með væri á ferðinni grunnskólalöggjöf sem sæmileg sátt væri um að standa síðan að með einhverri reisn á komandi árum. En því er ekki aldeilis að heilsa því að hvert einasta ár síðan hafa þau verið skert og vantar mikið upp á að þau hafi komið til framkvæmda. Hæstv. núv. ríkisstjórn hefur m.a. gert það að flaggi sínu í skóla- og uppeldismálum að þjarma að grunnskólanum, þrengja kost grunnskólans þannig að það vantar verulega upp á að gildandi ákvæði laga hafi verið framkvæmd. Og enn á hér að höggva í sama knérunn á næsta ári þó að vísu sé í einu tilviki verið að skila litlum hluta af þeirri skerðingu kennslustundar til baka sem þarna er á ferðinni. Ég sem fyrr mótmæli þessu, hæstv. forseti, ég tel þetta misráðið og aumingjadóm að reyna ekki að standa betur að þessum undirstöðuþætti menntunar og uppeldis í landinu sem grunnskólinn er. Það getur ekki verið að við Íslendingingar séu orðnir svo fátækir og aumir nú undir lok 20. aldar að við höfum ekki efni á því að standa a.m.k. að framkvæmd þessara laga eins og þau standa til og þurfum að búa skólanum svona starfsskilyrði svo að ekki sé talað um það umhverfi sem þetta vísar á fyrir starfsfólk skólanna, kennara og aðra starfsmenn, þ.e. það metnaðarleysi og sú framtíð sem við mönnum blasir sem fá þessar kveðjur árlega frá Alþingi. Í staðinn fyrir að vera að byggja upp og bæta skólann og gera þar nýja hluti,

þróa hann og efla, þá búa menn við það ár eftir ár að það er í raun og veru þrengdur hans kostur vegna þess að skólinn hefur í raun ekkert fengið til að mæta nýjum kröfum sem á hann lenda vegna stærri árganga, vegna þess að kröfur tímans eru breyttar. Ég get nefnt sem dæmi bara þann kostnað sem grunnskólar þyrftu að geta lagt í til þess að bjóða upp á viðunandi tölvufræðslu í takt við nútímaaðstæður og kröfu í okkar þjóðfélagi. Þar er um að ræða dýran búnað sem er sífellt að breytast, sem er geysilegur áhugi á. Allir þeir sem eitthvað koma nálægt starfi grunnskólanna í dag vita að áhugi unga fólksins liggur ekki síst þar, alveg niður undir yngstu bekkjum grunnskólans er það þannig og þeir sem eiga börn í skóla um þessar mundir vita það. Og það er líka sama hvar komið er að mjög víða er eitt af því sem skólamenn nefna sem standi þeim alveg sérstaklega fyrir þrifum að þeir hafa ekki fé og möguleika til að vera með kennslutæki og kennslugögn sem þarf til á þessu sviði. Þetta er óskaplega dapurlegt, hæstv. forseti, þegar þess er líka minnst að allir tyggja nú sömu tugguna á hátíðisdögum um mikilvægi menntunarinnar og að framtíðin liggi í menntuninni og rannsóknunum og öllu þessu. Hvar ætla menn að byrja ef ekki á barnaskólunum eða grunnskólanum? En þannig standa mál sem sagt hjá okkur. Það er verið að kenna upp undir 30 nemendum í einum bekk og það getur hver séð sig í anda sem á að búa við það heilan vetur með erfiðan bekk, með erfiðum nemendum innan um, að sinna eðlilega þörfum hvers og eins og þegar þannig er ástatt. Þetta rennur auðvitað foreldrum og öðrum svo til rifja að víða er verið að baksa við að reyna að safna fé á sjálfstæðum grundvelli, jafnvel taka að sér hjálparkennslu inn í bekkjum í sjálfboðavinnu sem ég veit dæmi um þar sem menn hafa verið með erfiðar aðstæður í bekkjardeildum án þess að hafa fengið heimild til að skipta þeim upp eða annað því um líkt. Til að mynda norðan af Akureyri úr mínu kjördæmi þekki ég magnað dæmi um það að foreldrar hafa sjálfir skipst á um það, tekið sér frí úr vinnu til þess að fara inn í skólann til þess að hjálpa kennaranum við að halda aga og reiðu á bekk sem var erfiður. Menn geta auðvitað sagt það að þetta sé jákvætt og gott og sýni mikinn áhuga. En ætlum við að reka skólakerfið til frambúðar á þessum grundvelli að það sé komið svona 50--100 ár aftur í tímann og þurfi orðið að byggjast á sjálfboðaliðastarfi? ( Viðskrh.: Þá var aginn ekkert vandamál.) Það kann að vera að aginn hafi ekki verið vandamál en það var líka beitt að hluta til öðrum aðferðum þá sem yrði sennilega ekki skrifað upp á allar í dag og skulum við ekki fara lengra út í það mál þó að vísu Íslendingar hafi tiltölulega hreinan skjöld í þeim efnum borið saman við ýmsa aðra, til að mynda Breta sem tóku ekki spanskreyrinn úr notkun fyrr en fyrir nokkrum árum síðan satt best að segja.
    Ég ætla svo sem ekki að blanda mér meira í umræður um þetta, aðrir gera það sjálfsagt betur en ég vildi ekki láta hjá líða að nefna þetta sem foreldri og maður sem rennur til rifja að sjá hvernig þessum málum er víða komið. Það er satt best að segja alveg ótrúlegt þegar maður heimsækir skóla að sjá við hvað menn þurfa að bjargast þar í t.d. þessum efnum varðandi kennslugögn og annað.
    Ég nefni í öðru lagi málefni fatlaðra og tek þar undir það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að sú breyting þar að taka allt að 40% af ráðstöfunarfé framkvæmdasjóðsins í rekstur er auðvitað ískyggileg. Það er verið að gera þessa breytingu á hverju sviðinu á fætur öðru að hverfa frá því að afla tekna með sérstökum tekjustofnum til uppbyggingar eins og menn af miklum metnaði gerðu með lagasetningu sérstaklega á 8. og 9. áratugnum og sér stað í gífurlegri uppbyggingu víða. Nú eru menn að gefast upp við þetta, ekki vegna þess að þörfinni sé alls staðar fullnægt, alls ekki vegna þess því miður, heldur vegna þess að menn eru hreinlega að bogna undan því verkefni að byggja sómasamlega upp þjónustu á þessum sviðum. Og það er ískyggilegt að sjá þetta gerast eins hratt og þarna á við um Framkvæmdasjóð fatlaðra, um Framkvæmdasjóð aldraðra og nú um flugmálaáætlun, að nokkru leyti um vegamálin o.s.frv.
    Um breytingarnar á atvinnuleysistryggingum þá er það að segja að í brtt. meiri hlutans felst viss lagfæring sem ég skal ekki gera lítið úr. Það er til bóta svo langt sem það nær en auðvitað hefði að mínu mati þurft að vera hér á ferðinni miklu myndarlegri áætlun um það hvernig staðið verður að fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. Þau mál eru í upplausn. Það er að vísu búið að breyta þar einu stóru óvissuatriði með því að falla frá áformum um að láta sveitarfélögin kosta 600 millj. kr. í sjóðinn en eftir stendur að það á að reyna að reka Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári að hluta til með ótilgreindum sparnaði upp á 200 millj. kr. sem enginn hefur sýnt fram á nema að litlu leyti hvernig eigi að ná. Þá á í öðru lagi að ganga á eigið fé sjóðsins um 200 millj. og það á að beita fleiri slíkum æfingum til að prjóna þetta saman. Þetta gengur ekki, menn munu fá þetta í hausinn og það er dapurlegt.
    Þá, hæstv. forseti, að því sem veit að breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og hv. frsm. minni hluta efh.- og viðskn. gerði rækilega að umtalsefni og ég get að miklu leyti vísað til þess sem þar kom fram. Ég held að það standi alveg morgunljóst eftir þó að nú sé farið að kvölda eftir umferð efh.- og viðskn. á því máli að það mál er faglega séð mjög illa undirbúið og það var reyndar viðurkennt af talsmönnum heilbrrn. sem komu til nefndarinnar að undirrót þeirrar tillögu að leggja niður embætti borgarlæknis hér í höfuðborginni og héraðslæknis á Norðurl. e. sem föst störf væri sparnaðarlegs eðlis, þ.e. það væri ekki fagleg ákvörðun í grunninn heldur ósköp einfaldlega ákvörðun um niðurskurð. Og þegar svo nefndin fór að fara yfir það hvernig ætti að standa að þessu og hvað lægi að baki þá kom berlega í ljós að ekkert annað hafði verið gert í þessu máli en að ákveða að skera þarna niður um 8 millj. kr. og sjá svo til hvernig tækist að koma þessum verkefnum fyrir annars staðar að svo miklu leyti sem þeim yrði þá sinnt yfir höfuð og hvað það kostaði. Menn slumpa bara á að það sé hægt að henda einhverju af þessu í landlækni með því að láta hann hafa um 700 þús. kr. og afgangnum eigi svo bara að dreifa eftir atvikum á ráðuneytið eða

heilsugæslustöðvarnar, læknavaktina og aðra aðila. En það er algjörlega óútfært hvernig að þessu eigi að standa og það liggur alveg fyrir að einhver kostnaður kemur þarna á móti. Það munu engir samningar nást við læknavaktina, lögregluna eða aðra aðila um að taka hluta af þessum verkefnum nema það kosti eitthvert fé. Það liggur alveg í hlutarins eðli.
    Það sem maður spurði sérstaklega eftir var stefnumörkunin í þessu sambandi. Liður í hvaða stefnu í heilbrigðismálum er þetta að leggja niður þessi stjórnsýsluembætti í heilbrigðismálum eða heilsugæslu og færa þau verkefni undir hið miðstýrða ákvörðunarvald landlæknisembættis eða ráðuneytis? Er þetta í samræmi við heilbrigðisáætlun? Svarið er nei, þetta er alveg þvert á hana. Hún gerir einmitt ráð fyrir því að stefnan sé einmitt í gagnstæða átt, að færa verkefni á sviði stjórnsýslu út til umdæmanna. Þá má spyra: Er þetta í samræmi við einhverja stefnu sem Alþingi hefur mótað að öðru leyti? Svarið er nei, þetta er algjörlega í öfuga átt því Alþingi hefur mótað stefnu með þál. fyrir fáeinum árum að það beri að stefna að uppbyggingu heilbrigðisskrifstofa í hverju kjördæmi sem taki við verulegum þáttum stjórnsýslunnar á þessu sviði, færi þá nær fólkinu. Er þetta þá í þriðja lagi í samræmi við einhverja almenna stefnu um verkefni og völd í þjóðfélaginu sem til að mynda núv. ríkisstjórn hefur markað? Svarið er nei, þetta er í algjörlega öfuga átt því núv. ríkisstjórn hefur verið með það í munninum að hún vilji dreifa verkefnum og valdi út til fólksins --- er það ekki satt? ( Gripið fram í: Jú, jú.) Og hæstv. fyrrv. forseti sameinaðs Alþingis, meginforseti vor, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, var formaður í nefnd sem ætlaði að flytja ósköp af verkefnum og stofnunum og valdi út í umdæmin, út til fólksins. En hvað er hæstv. heilbrrh. að leggja til hér eða hæstv. forsrh. fyrir hans hönd? Það er í algjörlega öfuga átt. Sníða af þessa litlu anga af stjórnsýslu í heilbrigðismálum sem hafa verið að byggjast upp eða eiga að byggjast upp samkvæmt heilbrigðislögum úti í umdæmunum og færa það undir hið miðstýrða apparat hér í Reykjavík. Þykir þó ýmsum nóg um stærðina á heilbrrn., Tryggingastofnun og öllu því batteríi sem situr í Reykjavík og situr yfir hlut heilbrigðismála landsmanna allra hvar sem þeir búa sem er auðvitað heimskulegt. Í þessum langstærsta málaflokki ríkisins sem tekur upp undir helming af ríkisútgjöldunum til sín að þá skuli miðstýringin vera meiri en eiginlega nokkurs staðar annars staðar. Það er fullkomlega óeðlilegt.
    Ég tel að það sem hér ætti að vera að gerast í þessum efnum væri til að mynda að það væri að verða til eitthvað sem héti heilbrigðisstofnun, ráðuneytið yrði minnkað og gert að fámennri yfirstjórn þessa málaflokks, tilheyrði einhvers konar heilbrigðisstofnun sem væri með skrifstofur í hverju umdæmi og sæi um þessa stjórnsýsluþætti og hluta af starfsemi Tryggingastofnunar og annað því um líkt.
    Hvers vegna í ósköpunum ætti ekki í þessum langútgjaldamesta málaflokki landsmanna þar sem velt er milljörðum króna í hverju kjördæmi að vera einhver stjórnsýsla, einhver þjónusta og einhver starfsemi úti í umdæmunum? Ég spyr. Af hverju ætti það bara ekki að vera t.d. alveg eins og í vegamálum? ( Gripið fram í: Það er nú.) Það er nefnilega óskaplega fátæklegt. Það á að heita svo að það séu einhverjar stjórnir yfir þessum apparötum úti í kjördæmunum en það er engin eiginleg samræmd stjórnsýsla. Það eru engin völd í sambandi við faglegar áherslur, fjárfestinga og annað því um líkt ( Gripið fram í: Reksturinn.) sem þarna er. Nei, rekstrinum, hv. þm., er meira og minna miðstýrt öllum héðan að ofan og það sitja yfir því þessi stóru bákn sem ég hef nefnt, ráðuneyti, Tryggingastofnun og aðrir aðilar.
    Ég tel þetta mikið umhugsunarefni og alveg sérstaklega vegna þess að ef menn meina eitthvað með þessu tali um að dreifa verkefnum og völdum, hvert ættu menn þá að líta, hvar ættu menn að bera niður ef ekki í heilbrigðismálunum þar sem liggur fyrir að verður vöxtur á næstu árum? Það er einn sá þáttur samneyslunnar sem er alveg borðleggjandi að við Íslendingar munum ekki komast hjá að ráðstafa meiri fjármunum til á næstu árum þó ekkert kæmi annað til en málefni aldraðra. Sem sagt allt sem tengist umönnun aldraðra, vaxandi fjölda aldraðra, eins og aldurspíramídinn er að snúast í okkar þjóðfélagi eins og öðrum vestrænum þjóðfélögum. ( Landbrh.: Við þurfum að koma valdinu norður.) Það er rétt, hæstv. ráðherra, það er norður með valdið og auðvitað eitthvað af því austur og vestur svona í mátulegum skömmtum. En þetta er alveg nöturlegt, hæstv. forseti, að standa frammi fyrir svona máli þó að ýmsum þyki það sjálfsagt ekki stórt og þó að það sé að hluta til kannski bitamunur en ekki fjár í einhverra huga hvort valdið liggur hjá borgarlæknisembætti --- mér er tamt að kalla það svo þó það heiti héraðslæknirinn í Reykjavík --- eða hjá ráðuneyti þá geri ég skýran greinarmun þar á vegna þess að stjórnskipulega séð skiptir miklu máli hvort um er að ræða sjálfstætt umdæmisbundið embætti eða ráðuneyti eða landlæknisembætti eða annað því um líkt. Það er það stjórnskipulega séð.
    Það sem ég vil sjá gerast í þessum efnum er að þessi embætti verði efld en ekki veikt. Ég vil sjá til að mynda héraðslækninn á Reykjanesi byggðan upp í áföngum á næstu árum sem fullt starf. Ég held að það sé full þörf fyrir það í þessu stóra umdæmi sem þar er. Ég vil sjá að síðan verði í áföngum stefnt að því að einnig héraðslæknar annarra kjördæma, e.t.v. þó með einhverri sameiningu til að mynda þannig að það kæmi einn héraðslæknir fyrir Vesturland og Vestfirði, einn fyrir allt Norðurland og einn héraðslæknir hugsanlega fyrir Austurland og Suðurland, eitthvað því um líkt, að þetta yrði gert. ( Gripið fram í: Austurland og Suðurland?) Austurland og Suðurland, þó að það sé að vísu landfræðilega mjög stórt svæði. Ég bendi bara á þann möguleika, hv. þm., að það væri hægt að taka þetta í einhverjum slíkum áföngum. Þetta tengdist síðan flutningi á auknum verkefnum á þessu sviði út til kjördæmanna eða umdæmanna.
    Með vísan til þessa tvenns, hæstv. forseti, ég ætla ekkert að fara inn í umræður um þetta mál að öðru leyti og ræði það eingöngu á þessum almennu grundvallarstefnumótunarnótum sem lúta að uppbyggingu heilbrigðismálanna í landinu og það hvernig þessi tiltekna breyting nú er undirbúin eða öllu heldur ekki undirbúin því hún er ekkert undirbúin og það liggja engir samningar fyrir um eitt eða neitt af því sem þarna þyrfti að gerast og ætti auðvitað að liggja þá fyrir. Ég hvet menn eindregið til þess a.m.k. að fresta þessari breytingu og ég tel að skynsamlegasta ráðstöfunin væri sú að setja á fót nefnd sem færi í það verkefni að endurskoða starfssvið þessara embætta. Ég viðurkenni fúslega að hlutverk þeirra hefur breyst og að sumu leyti má segja minnkað, til að mynda borgarlæknisembættisins eða héraðslæknisembættisins í Reykjavík með ýmsum breytingum í heilsugæslumálum. Sérstaklega verkefnatilflutningnum frá sveitarfélagi til ríkis. Þegar ríkið tók endanlega við þessum málaflokki hafði það áhrif á það sem áður var hlutverk borgarlæknis þáverandi starfsmanns í raun sveitarfélagsins að setja þessi mál frekar í endurskoðun og gefa a.m.k. nýjum stjórnvöldum á næsta kjörtímabili kost á því að taka einnig þátt í því að meta þessa ákvörðun, hvort rétt sé að gera þessa breytingu þannig að þessu yrði frestað fram eftir næsta ári og helst út næsta ár að láta þetta ganga í gildi enda er þó ekkert kæmi annað til en bara ónógur undirbúningur næg rök fyrir því.
    Ég trúi ekki öðru en að menn muni líka horfa til þessa mikla útgjaldamálaflokks, heilbrigðismálanna, á komandi árum varðandi flutning verkefna og valds út frá hinu miðstýrða apparati. Nú eru menn að tala jafnvel um að breyta kosningalögum og það sem menn kalla á fínu máli að jafna vægi atkvæða, þá kemur að sjálfsögðu upp hin hlið umræðunnar --- þarf þá ekki að jafna ýmislegt fleira? Ber ekki fólki sem býr annars staðar í landinu en á höfuðborgarsvæðinu ákveðinn réttur til þess að fleiri hlutir séu jafnaðir og ber því ekki til að mynda sem skattgreiðendum, fullgildum skattgreiðendum í landinu nokkur réttur til þess að njóta í sínu umhverfi sambærilegrar þjónustu og ábatans af því að hafa starfsemi á sínu svæði eins og öðrum?
    Við getum ekki leyft okkur að horfa fram hjá jafnmiklum málaflokki og heilbrigðismálin eru í þessum efnum.
    Hæstv. forseti. Næst ætla ég að hlaupa yfir nokkrar greinar og ræða þau ákvæði sem snúa að flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum og gef hæstv. heilbrrh. fúslega leyfi til að standa upp og rétta úr hryggnum ef hæstv. landbrh. yrði þá svo vænn að vera hér nálægur sem jafnframt er hæstv. samgrh.
    Þannig háttar til, hæstv. forseti, að ég er ákaflega óhress með þessi áform um að hefja hér að skerða hina mörkuðu tekjustofna flugmálaáætlunar eins og þetta frv. gerir ráð fyrir svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ég tel þetta, hæstv. forseti, algjöra óhæfu með tilliti til forsögu málsins að standa svona að verki. Ég get tekið undir margt af því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði fyrr í dag um það mál en ég vil bæta þar ýmsu við og fylla þar aðeins betur í eyðurnar.
    Í fyrsta lagi er það, hæstv. forseti, og það ætti hæstv. samgrh. að hugleiða sem er allt í einu gufaður upp, vonandi ekki gufaður út eins og hæstv. utanrrh. Í fyrsta lagi ætti hæstv. samgrh. að minnast þess, metnaðar síns vegna ef einhver er, að hæstv. ráðherra er nýbúinn að fá afgreidda flugmálaáætlun. Fyrir nokkrum mánuðum síðan var afgreitt flugmálaáætlun til fjögurra ára á grundvelli tiltekinna forsendna. Hún varð ekki gömul í höndunum á hæstv. ráðherra og hann stendur sjálfur að því hér að leggja fram tillögur um að skerða hana, eyðileggja hana liggur mér við að segja. Ég er hér með í höndunum þá þál. um flugmálaáætlun fyrir árið 1994--1997 sem lögð var fram á þingi fyrir ekki löngu síðan, á þessu ári, einhvern tímann á útmánuðum 1994. Hvað gerði sú tillaga ráð fyrir að yrði sett í þessi mál á næstu árum? Jú, það yrði ráðstafað um 360 millj. kr. af flugvallargjaldi og 35 millj. kr. af eldsneytisgjaldi til framkvæmda í flugmálum öll árin 1994--1997. Það vill segja að 395 millj. kr. yrðu til ráðstöfunar til framkvæmda öll þessi ár.
    Nú leggur hæstv. samgrh. blessun sína yfir það að í þessum bandormi í ríkisfjármálum séu ákvæði sem eiga að skerða þessar tekjur um 70 millj. kr. á hverju ári og renna í raun og veru í ríkissjóð því það eru bókhaldskúnstir að merkja það eitthvað rekstri Flugmálastjórnar því það sem upp á hefur vantað þar hefur komið úr ríkissjóði undanfarin ár. Það eru sambærilegar fíflaæfingar eins og þegar hæstv. sjútvrh. ár eftir ár var með æfingarnar um Hafrannsóknastofnun, að selja kvóta eða leggja á auðlindaskatt og láta það borga hluta af rekstri Hafrannsóknastofnunar sem aldrei var svo reyndar gert og frægt var af endemum og er orðið að því óbermi sem er væntanlegt auðlindagjald í Þróunarsjóð.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, langar mig til að rekja lítillega aðdraganda flugmálaáætlunar. Ég veit ekki hvort hv. 1. þm. Vestf. hefur gert það í dag að einhverju leyti en mig langar að fara aðeins yfir þá sögu. Þar eigum við nefnilega báðir ákveðinn hlut að máli, ég og hv. 1. þm. Vestf. En þannig er að í ársbyrjun 1984 skipaði þáv. hæstv. samgrh., Matthías Bjarnason, nefnd til þess að vinna að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum og var verkefni hennar að gera tillögur um uppbyggingu íslenskra flugsamgöngumannvirkja. Nefndin lauk störfum á seinni hluta ársins 1986 og skilaði mjög ítarlegri skýrslu þar sem gerð var tillaga um 10 ára framkvæmdaáætlun til að ljúka uppbyggingu flugvalla. --- Ég legg áherslu á það atriði. Til að ljúka uppbyggingu flugvalla. Hvað var átt við með því? Það var átt við það að með því yrði uppbyggingu allra mikilvægustu flugvalla Íslendinga komið í það horf að þau mannvirki uppfylltu alþjóðlega staðla sem gerðir eru af Alþjóðaflugmálastofnuninni, IC, til flugsamgöngumannvirkja. Í viðbót voru gerðar tillögur um tekjuöflun til þessa verkefnis. Þetta var það sem heitir á fínu máli í dag sjálfbær áætlun. Nú heitir það sjálfbær þróun að hlutirnir standi í raun undir sér sjálfir, gangi ekki á höfuðstólinn, þeir beri sig sjálfir ef svo má að orði komast. Það var ekki ætlast til að þetta yrði kostað af skattborgurunum

í formi greiðslna úr ríkissjóði heldur væri þarna sjálfbær áætlun á ferð sem fjármagnaði sig sjálf.
    Ég minnist fundar sem haldinn var inni í Borgartúni um þetta mál þegar m.a. var verið að kynna þessar tillögur og talsvert hvessti á þeim fundi. Ýmsir voru auðvitað óhressir með þær álögur sem þarna var lagt til að yrðu lagðar á flugrekendur og flugfarþega. Engu að síður náðist þetta í gegn. Áætlunin var lögð fyrir Alþingi og samþykkt á fyrri hluta árs 1987. Fyrsta flugmálaáætlunin var síðan samþykkt fyrir árin 1988--1991 og hún var algerlega byggð á þessari tíu ára áætlun flugmálanefndar. Það kom síðan í minn hlut sem samgrh. að undirbúa og leggja fram aðra tillögu um framkvæmdir í flugmálum sem samþykkt var hér á vordögum 1991. Sú var látin gilda til fjögurra ára en af vissum ástæðum var fjárveitingum eingungis skipt á einstök verkefni fyrstu tvö árin, þ.e. 1992 og 1993, þar sem þá þegar var orðið ljóst að verulegar breytingar hefðu orðið á forsendum flugmálaáætlunarinnar.
    Síðan hefur verið unnið markvisst á grundvelli þessara áætlana fyrir allt það fé sem til ráðstöfunar hefur verið. Að vísu hafa verið tekin inn ný verkefni og að vísu hafa tekjustofnarnir ekki að fullu fylgt verðlagi. En fram að þessu, til og með þessu ári hefur allt það fé sem aflað hefur verið með hinu mörkuðu tekjustofnum runnið til framkvæmda í flugmálum.
    Nú kemur það til, hæstv. forseti, að það er nauðsynlegt í þriðja lagi að rifja upp hvernig teknanna er aflað í þessu skyni. Það var gert með því að teknir voru upp tveir nýir tekjustofnar: Eldsneytisgjald, sem er í dag nálægt því að vera 1,60 kr. á hvern lítra af flugvélabensíni og 80 aurar á hvern lítra af þotueldsneyti með þeirri einu undantekningu að eldsneyti til Ameríkuflugs er undanþegið skatti vegna sérsamninga við Ameríkumenn um það ákvæði. Þetta gjald greiða sem sagt flugrekendurnir og þessi skattur hefur allur runnið hingað til í þennan framkvæmdapott.
    Enn þá viðkvæmari er þó hinn tekjupósturinn sem er flugvallargjaldið. Það er þannig framkvæmt að flugvallargjald er lagt á alla þá sem ferðast með loftfari frá Íslandi til annarra landa eða ferðast innan lands. Þeir sem ferðast milli landa borga nú u.þ.b. 1.250 kr. í hvert sinn og í hvert sinn sem menn ferðast innan lands borga þeir 165 kr. Þarna er því um að ræða sérstakan skatt, álögur til viðbótar öllum öðrum sköttum og skyldum sem þessi grein ber og áður höfðu verið lögð á, þjónustugjöld, lendingargjöld, skoðunargjöld, skattar, tekjuskattar, virðisaukaskattar og annað því um líkt. Og þótti ýmsum nóg um, bæði þau gjöld öll og verðlagið, t.d. í innanlandsfluginu hér. Það er alveg ljóst að þarna var um að ræða hreina viðbótarskattlagningu í þessu skyni þegar hún var lögð á. Það voru engir aðrir skattar felldir niður á móti. Þetta var hrein viðbót sem þarna bættist sem sagt við.
    ( Forseti (VS) : Þá er klukkan sjö, hv. ræðumaður.)
    Það er bara svona, hæstv. forseti. Hvað eigum við að gera í því? Eigum við að reyna að stoppa hana?
    ( Forseti (VS) : Forseti fer fram á það við hv. þm. að hann fresti ræðu sinni ef hann getur ekki lokið henni á örfáum mínútum.)
    Ég gæti ekki gert það á minna en 10--15 mínútum þannig að ég held ég verði að þiggja það ágæta boð forseta og fá að halda áfram að eiga orðastað við samgrh. þegar fundur hefst á nýjan leik enda ærin ástæða til.