Samningur um breytingar á tilteknum samningum EFTA-ríkjanna

70. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 20:34:00 (3383)

[20:34]
     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 462 er álit utanrmn. á till. til þál. um fullgildingu samnings um breytingu á tilteknum samningum EFTA-ríkjanna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali, þ.e. þskj. 463. Breytingin felur í sér að tilgreindir eru þeir þrír samningar EFTA-ríkjanna sem breytast.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið var einnig rætt um staðsetningu dómstóls EFTA en upplýst var á fundinum að utanrrh. Íslands og utanríkisviðskiptaráðherra Noregs áformuðu að flytja dómstólinn frá Genf til Lúxemborgar. Nefndin hefur ekki rætt til hlítar um staðsetningu dómstólsins og telur eðlilegt að Alþingi ræði hana frekar áður en kemur til flutnings hans um mitt ár 1995.
    Guðmundur Árni Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir þetta álit skrifa auk mín: Páll Pétursson, Ólafur Ragnar Grímsson, Geir H. Haarde, Guðrún J. Halldórsdóttir, Árni R. Árnason, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Jón Helgason.
    Hæstv. forseti. Ég læt þess getið að í greinargerð með tillögunni eins og hún var lögð fram á þskj. 409 er prentvilla. Þar stendur að verið sé að fækka mönnum úr eftirlitsstofnuninni úr sjö í þrjá og dómstólnum úr sjö í þrjá en þarna á talan fimm að standa í staðinn fyrir sjö. Vænti ég þess að þetta verði leiðrétt þegar skjalið verður endanlega birt í þingtíðindum.