Útflutningur hrossa

70. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 21:02:44 (3388)


[21:02]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það væri freistandi að fara nokkrum orðum um frv. þetta því að það er gaman að tala um hross og ekki svo oft sem manni gefst tækifæri til þess í þingsölum en ég vil fagna frv. og þakka landbn. fyrir afgreiðslu þess.
    Hrossarækt er að vissu leyti einn af ljósu punktunum í íslenskum landbúnaði. Þar er þó margt í ólagi sem þarf að kippa í lag og þetta frv. bætir nokkuð úr sumum þáttum. T.d. á að vera hægt að rekja uppruna hrossa og ættfæra þau með nokkuð meira öryggi eftir að þetta frv. er orðið að lögum og farið er að starfa eftir því en á því hefur orðið nokkur misbrestur þar sem komið hefur í ljós að menn hafa verið jafnvel að sýna hross undir öðrum nöfnum en þau eiga að vera.
    Varðandi sölumál hrossa almennt er höfuðgalli að framleiðendurnir, þ.e. þeir sem ala hrossin upp, fá of lítið í sinn hlut. Milliliðirnir hirða mestallan arðinn sem í sumum tilfellum getur verið töluverður. Útflytjendurnir kaupa trippin af bændum eða öðrum framleiðendum fyrir sáralítið verð í mörgum tilvikum, temja þau og á því stigi hækka þau fyrst og fremst í verði. Þetta þyrfti að laga á næstu árum en þetta frv. tekur að sjálfsögðu ekki á því. Ég vil taka fram að ég tel að stofnverndarsjóður íslenska hestsins hafi gert feiknamikið gagn á undanförnum árum á þeim tíma sem hann hefur starfað og til hans rann gjald af kynbótahrossum, 10% af söluverði stóðhesta og 5% af söluverði hryssa. Þessum sjóði var varið til þess að halda bestu kynbótagripunum í landinu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera vakandi yfir því að láta ekki bestu kynbótagripina fara úr landi. Það eru aðrir en Íslendingar sem eru að taka forustuna í ræktun íslenska hestsins og ég nefni sérstaklega Þjóðverja sem sumir hverjir eru feiknalega miklir ræktunarmenn, kappsamir og kunna að rækta búfé, en það er okkur mikilvægt að láta þessa forustu ekki af hendi baráttulaust.
    Ég tel að ekki sé hægt að banna útflutning kynbótagripa því að hluti af því ævintýri hestamennskunnar er að rækta hross og það er ómögulegt að koma í veg fyrir að unnendur íslenska hestsins á erlendri grund geti notið þeirrar ánægju. Það þarf að kippa í lag tollamálum varðandi útflutning á hrossum. Því hefur ekki verið sinnt af hæstv. ríkisstjórn sem skyldi en við inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið breytast tollamál þannig að óhagkvæmara verður að flytja hross til Svíþjóðar en verið hefur fram til þessa. Nauðsynlegt er að vinna að þessum tollamálum víðar og reyna að fá niðurfellda tolla á lifandi hrossum í öðrum mörgum fleiri viðskiptalöndum okkar.
    Þetta frv. tekur að sjálfsögðu ekki á einu atriði sem ég vil þó gera aðeins að umræðuefni eða minna á og íslenskri hestamennsku og hrossarækt stafar stórkostleg hætta af, þ.e. lyfjagjöf hrossa. Það hefur komið á daginn og að því munu vera orðin einhver brögð í íslenskri hestamennsku að menn freistist til þess að misnota lyf í hross þannig að þau komi betur fyrir á sýningum. Það er óforsvaranlegt. Það blekkir kynbótamatið og þetta er algerlega óforsvaranleg framkoma, óforsvaranlegur gerningur og smánarblettur á íslenskri hestamennsku sem íslenskir hestamenn og hrossaræktendur verða að hafa forustu um að þvo af sér. Það er óhjákvæmilegt að fara út í mjög strangt lyfjaeftirlit varðandi keppnishross ekkert síður en lyfjaeftirlit sem er allmikið tíðkað í sumum íþróttagreinum hjá mannskepnunni.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira þó að mig langaði til þess að nota þetta tækifæri og að tala lengur um hrossin. Ég læt þetta nægja í bili.