Útflutningur hrossa

71. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 21:43:13 (3392)


[21:43]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það var einu sinni maður norður í Torfalækjarhreppi í Húnavatnssýslu, nágranni Pálma, hv. þm. á Akri, og hann vildi öllum mönnum vel og lagði aldrei illt til nokkurs manns heldur mikið gott til allra. En þegar honum fannst hann hafa yfirdrifið sjálfan sig í lofinu þá bætti hann gjarnan við á lægri nótunum: En hestamaður er hann ekki.
    Þessi karl kom mér í hug þegar hv. 4. þm. Austurl. var að tala hér áðan. Þó að hv. þm. sé mikilhæfur og afbragð annarra manna þá er ég hræddur um að hann sé ekki hestamaður. Mér fannst að sumar af þessum athugasemdum sem hann setti fram væru kannski ekki byggðar á nægum kunnugleika.
    Varðandi fyrstu athugasemdina í 2. gr.: ,,Öll hross sem flutt eru úr landi skulu heilbrigðisskoðuð af embættisdýralækni``. Við vitum hér um bil hvers lags kumpánar embættisdýralæknar eru, er það ekki, og það eru þeir sem eiga að framkvæma þessa skoðun. Það er tekið fram að einungis sé heimilt að flytja úr landi heilbrigð og rétt sköpuð hross. Nú veit ég ekki hvort ég á að fara að leggja í það að lýsa heilbrigðu og rétt sköpuðu hrossi ( Gripið fram í: Jú, jú.) en meiningin er sú að það er ekki skynsamlegt og það er ástæða til þess að banna það með lögum, að vera að flytja úr landi einhverja aumingja því að þeir eru okkur til skammar og geta meira að segja eyðilagt fyrir okkur framtíðarmarkaði, verðmæta markaði. Enn fremur skulu þau merkt með þeim hætti að ekki verði um villst. Þetta atriði er mjög mikilvægt, að það sé hægt að vita hvar sem hrossið fer í útlöndum um hvaða hross sé að ræða.
    Sá atburður gerðist í hestamennsku í Þýskalandi í sumar að sama hrossið var sýnt tvisvar undir mismunandi nöfnum. Eigandinn taldi sig hafa gert mistök og ég skal ekkert segja um það. Mér þykir nú frekar ósennilegt að hann sé svo mikill glópur að hann átti sig ekki á því hvaða hrossi hann ríður, a.m.k. þegar hann er kominn á bak. Hrossið var að vísu svart og svört hross eru nokkuð lík hvert öðru. En það er fullkomin ástæða til þess að halda því til haga hvert hrossið er og að það sé hægt að rekja það hvaðan hrossið er, að óvandaðir viðskiptaaðilar séu ekki að ljúga til um það og selja mönnum í góðri trú hross sem er kannski allt annað heldur en kaupandinn telur sig vera að kaupa.
    Varðandi Búnaðarfélag Íslands þá er það réttmæt athugasemd hjá hv. þm. að það er kannski ekki heppilegast að hafa Búnaðarfélag Íslands á þessum stað. Ég geri ráð fyrir því að þetta standi þarna vegna þess að þegar frv. var samið þá var Búnaðarfélag Íslands hinn rétti aðili. Búnaðarfélag Íslands hefur farið með hrossaræktina og kynbótastarfsemina. Þeirri starfsemi verður haldið áfram. Mér finnst að þarna sé ekki um stórvægilegt atriði að ræða. Ég veit ekki hvort það er búið að velja frambúðarnafn á hin nýju bændasamtök, en hjá þeim hlýtur að sjálfsögðu þessi vottorðagjöf að vera.
    Í síðasta lagi varðandi stofnræktarsjóðinn, þá kann að vera að nafnið stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins sé ekki nákvæmlega smekklegasta heitið. En mér er þetta mál dálítið skylt því að ég var upphafsmaður að stofnun þessa sjóðs í samfélagi við hrossaræktarráðunautinn Þorkel Bjarnason. Ég var þá formaður Hrossaræktarsambands Íslands og það horfði nokkuð alvarlega vegna þess að fjársterkir útlendingar buðu í bestu kynbótagripina. Þeir voru að kaupa og leggja fölur á bestu graðhesta á Íslandi. Við vildum koma í veg fyrir að þeir færu úr landi umyrðalaust. Það var stofnaður sjóður og kynbótahrossin voru skattlögð í þennan sjóð, 10% af söluverði graðhesta, 5% af söluverði hryssa og sjóðnum varið til þess að styrkja hrossaræktarsamböndin til þess að ganga inn í þessi kaup. Þessi sjóður, hvað sem um nafnið má segja, hefur gert stórmikið gagn og komið í veg fyrir það að margir af bestu graðhestum landsins hafi verið seldir úr landi og greitt fyrir því að hrossaræktarsamböndin gætu og hefðu efni á og fjárhagslega möguleika til þess að leysa til sín þessi hross.
    Ég veit ekki hvort ég á að orðlengja þetta meira, en ég held að hv. landbn. þurfi ekkert að fyrirverða sig fyrir afgreiðslu þessa máls.