Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 10:35:55 (3398)


[10:35]
     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta utanrmn. á þskj. 522 um till. til þál. um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar. Ég mæli einnig fyrir brtt. meiri hluta utanrmn. á þskj. 523.
    Nefndin skiptist í afstöðu sinni til þessa máls eins og fram kemur á þskj. en ágreiningurinn er ekki um það að þetta mál skuli ná fram að ganga heldur áherslur varðandi þann mikla samning sem hér er um að ræða.
    Virðulegur forseti. Í gær sat utanrmn. á fundum um málið og sá gleðilegi atburður gerðist að samstaða skapaðist í nefndinni um það að Ísland skyldi gerast stofnaðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og til þess að það megi verða þarf Alþingi að samþykkja þær tillögur sem hér liggja fyrir nú fyrir áramótin en síðustu forvöð til þess að skila fullgildingarskjölum vegna stofnaðildarinnar er 31. des. Það var markmið okkar sem unnum að þessu máli á vettvangi utanrmn. í gær að ganga þannig frá málum að þetta tækist og við náðum samkomulagi sem birtist í 2. mgr. þáltill. eins og hún liggur fyrir á þskj. 523 og vil ég leyfa mér að lesa þann texta, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Alþingi ítrekar að þrátt fyrir fullgildingu samningsins gildi óbreytt skipulag á innflutningi landbúnaðarvara þar til lögum hefur verið breytt með hliðsjón af samningnum. Þær lagabreytingar, þar með taldar tollabreytingar, skulu gerðar með hliðsjón af GATT-tilboði Íslands til að veita innlendri framleiðslu nauðsynlega vernd. Landbúnaðarráðherra verði tryggt forræði um allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli þessarar ályktunar.``
    Í þeim málslið sem utanrmn. bætti við hina upprunalegu till. til þál. eins og hún kom frá ríkisstjórninni felst stefnumörkun sem lýtur að því hvernig tekið verður á málinu þegar Alþingi fjallar um breytingar á innlendri löggjöf til þess að laga hana að þessum samningi. En það lá fyrir í nefndinni eins og kemur fram í áliti hennar að ljóst er samkvæmt bréfi frá framkvæmdastjóra GATT til hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar að Alþingi hefur ótvírætt svigrúm og tíma til að vinna að slíkri lagasetningu þrátt fyrir að heimildin til fullgildingar sé veitt.
    Í umræðum innan utanrmn. voru okkur kynnt frumvörp frá Noregi um það hvernig Norðmenn ætla að standa að því að breyta tollalögum hjá sér í samræmi við breytingar á GATT-samkomulaginu og það kom fram í nefndinni að líta mætti til Noregs við frágang málanna hér á landi.
    Nefndin ræddi einnig við tvo fulltrúa sem starfað hafa í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar um það hvernig staðið skuli að því að smíða þá innlendu löggjöf sem nauðsynleg er í framhaldi af fullgildingu þessa mikilvæga samnings og fékk upplýsingar um málið í grófum dráttum til birtingar með nefndaráliti sínu og vísa ég þar til fskj. I og fskj. II. Einnig ákvað nefndin að birta sem fskj. III yfirlýsingu frá samstarfsnefnd fimm ráðuneyta um markmið lagabreytingar vega fullgildingar samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar. Þessi gögn bárust nefndinni frá þessari ráðuneytanefnd og birtast þau hér sem fylgiskjöl. Einnig var það álit utanrmn. að æskilegt væri að kynnast viðhorfum landbn. Alþingis til málsins því að þær breytingar sem hér er um að ræða á viðskiptaumhverfi Íslands snerta ekki síst landbúnaðinn og landbn. fundaði um málið um kvöldmatarleytið í gær og sendi síðan utanrmn. bréf sem birtist sem fskj. IV og ég vildi mega lesa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Landbúnaðarnefnd Alþingis fjallaði á fundi sínum í dag um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (229. mál) og breytingartillögu utanríkismálanefndar við þá tillögu. Nefndin leggur áherslu á að afgreiðslu tillögunnar verði hraðað svo að Ísland geti orðið í hópi þeirra þjóða sem fullgilt hafa samninginn þegar stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fer fram.
    GATT-samningurinn kemur til með að hafa víðtæk áhrif á íslenskan landbúnað í framtíðinni. Hyggja ber sérstaklega að því að landbúnaðurinn fái ráðrúm til að aðlagast þeim breytingum, annað mundi leiða til ófarnaðar. Jafnframt er vakin athygli á að í GATT-samningnum felast sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað sem mikilvægt er fyrir Íslendinga að leggja rækt við. Nefndin telur að með þeim áherslum sem fram koma í breytingartillögu utanríkismálanefndar, sérstaklega þar sem kveðið er á um forræði landbúnaðarráðherra, sé gengið til fulls á móts við framangreind sjónarmið. Landbúnaðarnefnd gerir því ekki tillögur til breytinga.``
    Undir þetta rita landbúnaðarnefndarmenn þannig að það náðist eins og af þessu sést mikilvæg samstaða á milli þessara tveggja þingnefnda, utanrmn. og landbn., um málið og tel ég það mikilvægan lið í því að greiða fyrir skjótum framgangi þess á Alþingi og vonast ég til þess að sú samstaða endurspeglist í umræðum sem um þetta mál munu fara fram hér á eftir.
    Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég hef lagt málið fram. Það liggur skýrt og ljóst fyrir. Ég vil aðeins í lok máls míns þakka samnefndarmönnum mínum í utanrmn. fyrir það góða samstarf sem tókst með okkur í gær um lausn máls. Ég tel að þar hafi verið tekið á málum af raunsæi. Menn átta sig á því að nauðsynlegt var fyrir Íslendinga að gerast stofnaðilar að þessum mikilvægu alþjóðasamtökum og menn áttuðu sig jafnframt á því að það yrði ekki unnt nema allir legðust á eina sveif í því efni og það samkomulag sem tókst í nefndinni í gær er til marks um eindreginn samstarfsvilja nefndarmanna um það að þetta takist og verði samþykkt á Alþingi í dag.