Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 12:51:06 (3408)


[12:51]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega stórt spurt og hér verður ekki langt svar varðandi þá tvo þætti sem hv. þm. spurði um varðandi mína afstöðu. Ég er ekki andvígur því að það sé leitast við að binda viðskipti í heiminum samningum og leitast við að ná alþjóðlegu samkomulagi í þeim efnum, hvort sem það

er í sambandi við tollamál, á vörusviði, þjónustusviði eða almennt. Sú afstaða sem ég túlkaði felur í sér það mat að menn séu á alröngu spori með því allsherjarfríverslunarfyrirkomulagi sem verið er að herða, verið er að gefa aukna áherslu með Úrúgvæ-samkomulagi núna, menn séu þar á röngu spori. Það er á grundvelli þess sem ég gagnrýni þetta samkomulag og hef áhyggjur af því.
    Í öðru lagi um afstöðuna til núverandi skipunar mála innan GATT. Ég hef ekki verið andstæðingur þeirrar starfsemi í megintriðum, þ.e. ég hef ekki verið að leggja það til að við segðum okkur frá starfsemi GATT sem hefur verið fram til þessa með verulega öðrum hætti heldur en hér er verið að innleiða þar sem hvert ríki hefur haft neitunarvald. Hér er verið að ganga mun lengra í þessu máli, í rauninni er gerð eðlisbreyting á þessu með því kerfi sem verið er að innleiða með þessari Alþjóðaviðskiptastofnun og það er afskaplega slæmt að þjóðir heims skuli vera að festa sig í slíku neti í stað þess að leita annarra leiða. Það er mikið áhyggjuefni.