Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 12:57:01 (3411)


[12:57]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var einkar athyglisvert að heyra hv. þm. Hjörleif Guttormsson lýsa því yfir að hann væri reiðubúinn til þess að afsala þjóðinni hinu formlega fullveldi í samningum um umhverfismál og spurning hvort það á þá við um einhver önnur svið.
    En það sem mig langar til að fjalla um í ljósi ræðu hv. þm. er að ef við lítum á hvernig þróun mála hefur verið á undanförnum árum og áratugum þá hygg ég að það sé nokkuð góð fylgni milli þess hversu þjóðir hafa getað tekið myndarlega á umhverfisvandamálum og þess hver velmegun hefur verið mikil og að í rauninni sé hagvöxtur og framfarir forsenda þess að hægt sé að takast á við að leysa umhverfisvandamálin.
    Í annan stað er fróðlegt að rifja upp að í kringum 1970, að mig minnir, var gefin út fræg skýrsla af svokölluðum Rómarklúbbi þar sem því var spáð að fyrir tíu árum mundu helstu náttúruauðlindir og hráefni heimsins vera upp urin miðað við þær forsendur sem þá voru. En það sem hefur gerst í millitíðinni

er einmitt það sem kallað er efnisbylting þar sem einmitt framfarirnar og hagvöxturinn hefur leitt til þess að menn nýta mun betur efni jarðarinnar, orku og annað, en áður var og þessi hamfaralýsing sem var gerð á sínum tíma varð aldrei að raunveruleika. Nú hygg ég að það sé afstaða og trú flestra sem nálægt þessum málum koma að þessi bylting sé áfram í fullum gangi og forsenda þess að þetta geti haldið áfram með þessum hætti og umhverfið geti haldið áfram að lagast séu einmitt framfarir í viðskiptum eins og GATT-samkomulagið nýja gerir ráð fyrir.