Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 12:59:27 (3412)


[12:59]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er afskaplega eðlilegt og raunar ánægjulegt að fá framkvæmdastjóra Verslunarráðsins, hv. þm. Vilhjálm Egilsson, til þess að fara með sína trúarjátningu í sambandi við alþjóðaviðskipti og hvernig hann metur efnahagsmál. Og þar kemur fram þessi barnslega trú eða réttlæting á því að halda óbreyttri stefnu, þ.e. að hægt sé að plástra. Að svokallaðar efnahagsframfarir með auknum hagvexti og auknum efnahagsumsvifum séu það sem gefur mönnum möguleika til að leysa umhverfisvandann. Þetta hefði einhvern tímann verið kallað á íslensku að pissa í skóinn sinn því að það er í rauninni ekkert annað sem er á ferðinni. Auðvitað má, litið til einstakra atriða, sýna fram á að það kosti peninga að koma við mengunarvörnum og öðru þess háttar. Það er ekki mál mála. Það er að grípa á undirstöðuþættinum, hinni auknu mengun sem fylgir óhjákvæmilega efnahagsstarfsemi þar sem þarf að nota orku, áhrifin á lofthjúp jarðar og annað þess háttar. Fram hjá því verður ekki horfið og það verður ekki plástrað yfir það með þeim hætti sem hv. þm. var að vísa til. Hann skilur ekki undirstöðurnar og túlkun hans á forsögn Rómarklúbbsins eða mati Rómarklúbbsins 1972 um endimörk vaxtar, eins og mig minnir að það heiti á íslensku, The Limits to Growth, að segja að það hafi verið slegið af. Það hafi bara fundist einhver töfralausn með efnissparnaði til þess að koma í veg fyrir þetta allt saman, þetta hefði allt átt að þrjóta fyrir 10 árum. Ég held að hv. þm. þyrfti nú að lesa The Limits to Growth, endimörk vaxtar, frá Rómarklúbbnum og síðari bækur hans einnig til þess að rifja það upp hvað þarna er sagt. Þar er engin spá um þurrð eftir 10 ár eða þess háttar og þar eru auðvitað slegnir fyrirvarar um þær forsagnir sem veittar eru, en grundvallargagnrýnin stendur.