Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 13:40:52 (3415)

[13:40]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það er öllum ljóst hversu mjög við Íslendingar erum háðir alþjóðaviðskiptum og þar af leiðir að að sjálfsögðu verðum við að vera aðilar að þeim helsta alþjóðlega viðskiptasamningi sem er í gildi á hverjum tíma. Það er ekki þar með sagt að við séum ánægðir þar með alla hluti og vildum ekki gjarnan að ýmsu væri þar á annan veg háttað. Það tók mörg ár að undirbúa þann samning sem nú er hér til umræðu og afgreiðslu af hálfu Alþingis og þar reyndu þjóðirnar að sjálfsögðu að gæta sinna hagsmuna og fá sem mest út úr þeirri niðurstöðu sem þar varð svo að lokum fengin. En lengi var tekist á um mjög mikilvæg málefni.
    Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl. áðan, um áhyggjur yfir því hver áhrif þessi samningur muni í reynd hafa á okkar mannlíf. Ég vil í því sambandi aðeins minnast á viðhorf Alþjóðabændasamtakanna til umhverfismála og þar með þessa samnings. Þessi samtök, Alþjóðabændasamtökin, höfðu lítt haft afskipti af þessum umhverfismálum fyrr en haldin var ráðstefna hér í október 1991 og á henni var lagður grundvöllur að þeirri vinnu sem síðan hefur verið unnin á vegum Alþjóðabændasamtakanna. Fyrsti áfanginn var lokaundirbúningur að ráðstefnunni í Ríó og á grundvelli samþykkta sem gerðar voru á ráðstefnunni hér í Reykjavík höfðu bændasamtökin sín áhrif þar. Hins vegar var þessi Úrúgvæ-samningur svo langt á veg kominn að það var orðið of seint að hafa áhrif á grundvallaratriði hans, en það var strax lögð áhersla á það að slík vinna þyrfti að hefjast sem allra fyrst og sem betur fer mun hún nú vera hafin, til þess að leggja grunn að breytingum á þessum alþjóðasamningi.
    Það er vissulega rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði, að það er vont að gera samning sem að sumu leyti stefnir í öfuga átt en stundum virðast staðreyndirnar þurfa að koma nógu skýrt í ljós til þess að menn hverfi frá villu síns vegar. Ég tel að Íslendingar eigi að leggja sig fram um að vinna að þessum málum og það hljóti þeir að verða að gera í samstarfi við aðrar þjóðir, því aðeins næst árangur. Í samræmi við það að ég tel að Íslendingar eigi að standa þarna vel að verki eins og þeir geta, þá hef ég staðið að flutningi þáltill. um fund á Þingvöllum árið 2000, sem sérstaklega mundi þá fjalla um umhverfis- og friðarmál.
    Það má einnig spyrja sig að því hver áhrif þessa samnings muni verða. Það hafa margir erlendir aðilar vakið athygli á því aukna valdi sem hinir stóru fjölþjóðaauðhringir, viðskiptaauðhringir, munu hafa og hafa jafnvel sagt að þessi samningur sé samningur í þágu þeirra, en hins vegar óttast að hin jákvæðu áhrif fyrir þróunarþjóðirnar, sem var og er yfirlýstur tilgangur þessa samnings, að þau áhrif munu verða of lítil og jafnvel neikvæð þegar upp verður staðið vegna þess gífurlega valds sem þessir viðskiptahringir hafa. Vissulega er það, má segja, yfirþyrmandi ef reynt er að skyggnast og kynna sér það vald sem er t.d. hjá hinum alþjóðlegu verðbréfamörkuðum og þau áhrif sem þeir hafa á gengi gjaldmiðla og önnur mikilvæg áhrif á verðmæti í heiminum. Því miður þá getum við Íslendingar orðið leiksoppar þessa kerfis þegar gengisskráningin fer að ráðast algerlega af slíkum viðskiptum og því ekki gott að segja hvað framtíðin ber í skauti sínu að þessu leyti.
    Ég skal ekki eyða fleiri orðum að þessum atriðum, en vildi leggja áherslu á að það eru ekki eingöngu jákvæðar hliðar sem þessi samningur hefur í för með sér fyrir okkur og aðrar þjóðir, þó að vissulega vilji ég vona að sá jákvæði ávinningur verði sem mestur og það takist að komast að samkomulagi um að draga úr hinum neikvæðu áhrifum.
    Þá vil ég víkja aðeins að þessu máli eins og það snýr við okkur hér á Alþingi. Ég sat fundi utanrmn. í gær þegar lokið var umfjöllun um það og hér hefur nú verið lýst áður hvernig sú vinna gekk fyrir sig. Það kom því miður í ljós að undirbúningsvinna ríkisstjórnarinnar að þessu máli var öll í molum og það var ákaflega fátæklegt sem þar var lagt fram eins og kemur í ljós á þeim fylgiskjölum sem eru með nál. meiri hluta utanrmn. Það stingur mikið í stúf við þá vinnu sem nágrannar okkar, t.d. Norðmenn, inntu af hendi til að undirbúa gildistöku samningsins þar sem þeir lögðu fram vel útfært frv. strax í byrjun október þegar stjórnþingið kom til fundar og afgreiddu það nú fyrir jól áður en til gildistöku samningsins kemur.
    Það kom fram hjá hv. frsm. meiri hluta utanrmn. að þessi vinna Norðmanna var til umræðu í utanrmn. og þá jafnframt að þangað væri að sækja góðar fyrirmyndir að þeirri vinnu sem nú verður að fara að taka upp úr því að hún hefur ekki verið innt af hendi á vegum íslenskra stjórnvalda. Það sem fyrst og fremst kom fram af hálfu ríkisstjórnarinnar var yfirlýsing sem birt er sem fskj. með nál. frá samstarfsnefnd á vegum ríkisstjórnarinnar. Það var strax ljóst að hún gat ekki orðið neinn samkomulagsgrundvöllur við afgreiðslu málsins. Þar má t.d. benda á það sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,, . . .  og veita megi innlendri framleiðslu þá vernd sem henni er óumdeilanlega nauðsynleg til þess að geta lagað sig að breyttum aðstæðum.``

    Ég býst við að flestum sé ljóst miðað við þá umræðu sem fram hefur farið um þessi málefni landbúnaðarins í sambandi við GATT-samninginn að þá yrði það ekki mikil vernd ef hún skyldi ekki ganga lengra en það að allir gætu orðið sammála um að hún yrði. Þessi yfirlýsing gengur því í þveröfuga átt við það sem varð niðurstaðan hjá utanrmn. í þeirri viðbót við þáltill. sem samkomulag var um að bæta við og kveður á um það að tollabreytingar skuli vera gerðar með hliðsjón af GATT-tilboði Íslands sem ríkisstjórnin sendi en í því tilboði liggja fyrir þær tölur sem reiknaðar voru út að væri heimilt að setja inn í tollskrá, tollaígildi, þegar samningurinn tæki gildi. Norðmenn hafa lagt þessar tölur til grundvallar við sína tollskrárbreytingu og reiknað það út nákvæmlega allt fram til ársins 2000.
    Í þessari viðbótartillögu er einnig tekið fram að landbrh. verði tryggt forræði um allar efnislegar ákvarðanir og það þýðir þá að sjálfsögðu það að hann mun fjalla um allar þær vörur sem eru í tollkafla I--XXIV sem fjalla um landbúnaðarvörur að undanskildum III. kaflanum þar sem er fiskur.
    Það hefur verið bent á það áður í umræðunum að þetta samkomulag utanrmn. stingi algerlega í stúf við þær yfirlýsingar sem hæstv. utanrrh. hefur gefið og kom hvað skýrast fram í viðtali við hann í fjölmiðlum í gærkvöldi. Mér fannst það vera dapurlegt svo ekki sé meira sagt að heyra hæstv. utanrrh. íslensku þjóðarinnar fagna því að nú væri hægt að fara að sækja vald erlendis frá til þess að taka fram fyrir hendur á íslenskum stjórnvöldum og taka af þeim ráðin til að ná sér niðri á íslensku þjóðfélagi. Það er vissulega ekki gott að slíkt viðhorf skuli koma fram hjá þeim fulltrúa íslensku þjóðarinnar sem hefur borið ábyrgð á samningagerð við erlendar þjóðir síðustu árin og undirstrikar að það var því ekki að ástæðulausu sem viðbrögð hans vöktu tortryggni hjá þeim sem vildu halda fram okkar hagsmunum.
    Í nefndarálitinu frá meiri hluta utanrmn. er minnt á mikilvægan fyrirvara í GATT-tilboði Íslands um varnir gegn dýrasjúkdómum og nauðsyn þess að þeirra sé gætt við framkvæmd samningsins. Það hefur orðið íslensku þjóðinni dýrkeypt þegar hættulegir dýrasjúkdómar hafa borist til landsins og með greiðari samgöngum verður að leggja enn þá meiri áherslu á að reyna að gera allt sem hægt er til að verjast þeim. Það er líka enn þá mikilvægara þegar það er að koma í ljós hversu mikils virði það er að geta framleitt vörur sem eru hreinar og lausar við öll óæskileg efni hvort sem það er vegna einhverra sjúkdóma eða efna sem talið er óhjákvæmilegt að nota til þess að verjast þeim. En slík lyf gegn sjúkdómum við ræktun og framleiðslu matvæla hefur á síðustu áratugum orðið gífurlegur mengunarvaldur í mörgum löndum og er það mikið atriði fyrir okkur að losna við slíkt. Því verður aldrei of mikil áhersla lögð á þennan þátt og því nauðsynlegt að standa rækilega á þeim fyrirvara sem þar var gerður og gæta þess að þar verði hvergi slakað á.
    Ég lýsti því yfir hér áðan að mig langaði að bera fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. Ég vil spyrja að því hvort hann sé ekki í húsinu.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. landbrh. er ekki í húsinu eins og er.)
    Ég hafði boðað það hér að ég vildi bera fram spurningu við hann um reglugerð vegna jöfnunargjalda vegna útflutnings sem hæstv. forsrh. lýsti hér yfir áðan að væri mjög mikilvægt að kæmi sem allra fyrst en vísaði málinu að öðru leyti til hæstv. landbrh. Ég vil þá vonast til þess að ég fái tækifæri til þess síðar við þessa umræðu að bera þá fyrirspurn fram til hæstv. landbrh. svo að hann geti tjáð sig um það hvernig það mál stendur og gefið fyrirheit um það hvenær hún muni sjá dagsins ljós.
    Ég ætla þá ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál að þessu sinni. Ég legg sem sagt áherslu á það að hér er um að ræða samning sem við Íslendingar hljótum að verða aðilar að og jafnframt því sem ég læt ítrekað í ljós vonbrigði mín yfir því hversu lítið hefur miðað undirbúningi ríkisstjórnarinnar að því að koma honum í framkvæmd og gera hann framkvæmanlegan og því láta í ljós vonbrigði að það skuli verða að afgreiða hann við slíkar aðstæður hér á Alþingi. Við því varð ekki gert úr því sem komið var á þessum fáu dögum á milli jóla og nýárs, sem við höfum til umráða að þessu sinni, en tel að með því víðtæka samkomulagi sem náðist í utanrmn. sé mörkuð mikilvæg stefna um það hvernig þar eigi að standa að verki þegar að því kemur að Alþingi muni ganga frá þeim málum.