Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:20:04 (3417)



[14:20]
     Frsm. minni hluta utanrmn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg nú raunar að hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Norðurl. e., hafi beint orðum sínum e.t.v. frekar að öðrum ræðumönnum hér en þeirri sem hér stendur. Við kvennalistakonur gagnrýnum skort á umhverfisáherslum í samningnum og það er megingagnrýni okkar á þann samning sem hér er til umræðu og ég held að hv. þm. geti ekki annað en tekið undir að sáralítið er tekið á þessum málum. Þrátt fyrir það skapast ákveðnar aðstæður við gerð samningsins eins og hann kom réttilega inn á undir lok ræðu sinnar sem valda auknum heimsviðskiptum og þau viðhorf sem þar ráða ferðinni eru fyrst og fremst hagsmunir stórfyrirtækja. Þetta er að sjálfsögðu atriði sem getur mjög stangast á við umhverfismál. Það hafa verið umræður um að taka sérstaklega á umhverfismálum varðandi gerð slíkra stórra viðskiptasamninga og þetta er sýnu stærsti samningurinn sem um er að ræða. En þessi sjónarmið hafa því miður ekki enn þá náð fram. Ég er hins vegar bjartsýn kona og tel að þróunin í heiminum verði sú að í framtíðinni verði betur gætt að þessum málum. En það gerist ekki nema stöðug umræða og stöðugur þrýstingur sé í þá átt.