Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:23:52 (3419)


[14:23]
     Frsm. minni hluta utanrmn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það mun útheimta meiri ræðuhöld en ég hef stefnt að í þessu mikilsverða máli að fara nánar út í seinasta efnisatriði í svari hv. þm. En ég held að ég geti ekki annað en ítrekað fullyrðingu mína og sannfæringu mína um að ég held að fyrst og fremst hafi hagsmunir hinna stærri fyrirtækja ráðið ferðinni. Ég held að það þurfi ekki að vera neitt feimnismál vegna þess einfaldlega að þau hafa sterkust ítök í viðskiptaheiminum hér og nú.
    Hins vegar varðandi það að smá og meðalstór fyrirtæki hafa blómstrað þá held ég að það sé ekki vegna neinna slíkra viðskiptasamninga heldur þvert á móti vegna þess að þetta eru lífvænlegar stærðir. Þetta eru fyrirtæki sem hafa miklu meiri aðlögunarhæfileika og að mörgu leyti meiri vaxtarbrodda í sér vegna þess að auðveldara er að vera með ákveðið frumkvæði og sveigjanleika og nýsköpun í þessum smáu og meðalstóru fyrirtækjum. Ég held að það sé eðli þeirra vegna en ekki vegna þess að hagsmuna þeirra hafi verið sérstaklega gætt sem þau hafa sýnt sig að vera kannski það sem hagvöxtur hefur fyrst og fremst byggt á. Raunverulegur hagvöxtur og sá hagvöxtur sem ég held að sé í mun meiri sátt við umhverfið en uppgangur stórjöfra af hvaða tagi sem eru.