Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:26:29 (3421)


[14:26]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm., m.a. sá síðasti ræðumaður hér vék að umhverfisþættinum í sambandi við þetta stóra mál. Mér fannst gæta meiri skilnings hjá honum en t.d. hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmi Egilssyni, sem ég átti smávegis orðastað við hér síðast á eðli þessa vanda. Það þykir mér vænt um. En ég vildi aðeins víkja að því sem kom fram í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrich að það væri einhverjar fyrirmyndir að sækja í þjóðfélagskerfi í Austur-Evrópu sem liðið er undir lok og hefur fallið fyrir borð í boðaföllum sögunnar. Þar hefði verið að vænta einhvers annars sem hægt væri að vísa til í sambandi við samhengi efnahagsstarfsemi og umhverfis. Svo er alls ekki. Það þjóðfélagsmynstur, sem þar var keyrt fram með miðstýringu og mikilli harðneskju, byggði einmitt á því að auka sem mest efnislega framleiðslu sem meginmarkmið og setti málið fram svo vitnað sé til leiðtoga þar eins og Khrústsjovs og kannski fleiri að það væri markmiðið að yfirtrompa, að vinna hið efnahagslega kapphlaup við Vesturlönd og þeim mundi takast það. Í þessu skipulagða kapphlaupi var gífurlega miklu fórnað, ekki síst umhverfishagsmunum eins og dæmin sanna og við blasir. Það er síst til að vísa til einhvers af þeim toga. En grundvöllurinn var í rauninni sá sami, markmiðið var efnisleg framleiðsla og samkeppni um það sem eitthvert meginmarkmið. Ekki er tími til að víkja að fleiri þáttum sem hv. ræðumaður nefndi en ég vildi koma þessu á framfæri.