Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:28:54 (3422)


[14:28]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá samanburður á viðskiptafrelsi annars vegar og markaðsbúskap og hins vegar á áætlunarbúskapnum sem viðgekkst í Sovétríkjunum fyrrverandi er bara einfaldlega vegna þess að við höfum þarna sláandi dæmi um það hvernig tekið er einmitt á umhverfismálunum annars vegar þar sem

markaðsbúskapur þrífst og viðskiptafrelsi er haft í hávegum og hins vegar þar sem menn ætla sér að stjórna þessu að bestu manna yfirsýn eins og hefur nú alltaf verið áætlunin hjá þeim sem hafa lagt fyrir sig áætlunarbúskap. Það er nú ekki svo að ekki hafi verið tekið á umhverfismálunum í Sovétríkjunum, þvert á móti, þar voru á pappírnum umhverfismálin í besta lagi. Þeir voru forusturíki í umhverfismálum eftir því sem þeir sögðu sjálfir og hagvöxturinn var þar líka í besta lagi. Hagvöxturinn var þar til fyrirmyndar sögðu þeir og voru forusturíki í hagvexti að þeirra eigin mati. Svo kom í ljós þegar menn fóru að skoða þetta vísindalega að umhverfismálin höfðu bara gjörsamlega verið látin eiga sig. Þau voru bara til á pappírum, bara til í áróðursráðuneytinu. Það var mjög svipað með hagvöxtinn, satt best að segja. Hann var líka bara til á pappírnum. Ég tek bara dæmi úr þeim raunveruleika sem við þekkjum þar sem menn nota annars vegar markaðsbúskap þar sem hægt er að færa umhverfismálin inn í markaðskerfið og láta þau fá sinn prís og svo hins vegar áætlunarbúskapinn þar sem menn ætla sér að bestu manna yfirsýn að stýra þessum málum og telja að með skipulagningu og áætlunarbúskap sé hægt að leysa þessi mál.