Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:35:05 (3425)

[14:35]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Hér eru vissulega nokkur tímamót en þau hefðu getað verið ánægjulegri og við fram úr friðarjólum haldið friðaráramót. Þetta hefði getað gerst hefði það samkomulag sem hér er verið að staðfesta með því að fullgilda svonefnt GATT-samkomulag frá 15. apríl átt sér skemmtilegri aðdraganda en raun ber vitni því að á þessi tímamót ber skugga. Það er sami skugginn sem sl. 7 ár hefur legið yfir landbúnaðarmálum á Íslandi og birtist með síendurteknum hætti og kemur enn og nú fram sem er hæstv.

utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson.
    En það ber vissulega að fagna sameiginlegri vinnu utanrmn. og vegna hennar eru þessi mál leyst í bili. En ánægja hæstv. utanrrh. með verk nefndarinnar kemur í ljós með þeim orðum hans að hann kallar störf nefndarinnar hnoð. En þrátt fyrir ákveðinn varnarsigur skulu menn gera sér þess grein að enn leikur hæstv. utanrrh. lausum hala í þessum málum. Hann er fulltrúi Íslands erlendis ásamt sínum undirmönnum og kemur þar einn við sögu. Ég hitti hæstv. utanrrh. í gærmorgun og honum var glatt í skapi og við tókum tal saman um GATT. Nú væri allt í lagi, Alþfl. mundi ekki gera athugasemd og nú væri bjart og blítt fram undan. Okkur kom saman um að batnandi manni væri best að lifa og meira að segja stórbatnandi. Þetta var í gærmorgun. Síðan komu fjölmiðlaviðtöl (Gripið fram í.) þegar leið á daginn. Já, Adam var því miður ekki lengi í Paradís. Það komu fjölmiðlaviðtöl í gærkvöldi, stór orð, og blöðin í morgun segja líka sína sögu. Því miður.
    Frá því að hæstv. utanrrh. undirskrifaði GATT-samninginn 15. apríl, eða fyrir nær 9 mánuðum síðan, hefur verið unnið að því innan ríkisstjórnarinnar að ná samstöðu um framkvæmd á skuldbindingum Íslands um landbúnaðarmálin með því að koma á breytingum í landbúnaðarlöggjöfinni sem nauðsynlegar eru og var talin forsenda þess að hægt yrði að staðfesta samninginn. Sú lagasmíð hefur ekki tekist svo sem kunnugt er og þegar við erum fallnir á tíma er sú óvanalega aðferð viðhöfð að bæta í texta þáltill. yfirlýsingu um það sem Alþingi ætlaði að gera en á ógert. Þetta örþrifaráð er tekið til þess að Ísland verði sér ekki til skammar eða smánar á alþjóðavettvangi og til að breiða yfir það upplausnarástand sem er í mótun stefnu í landbúnaðarmálum vegna þeirra umbrota sem eru á alþjóðlegum vettvangi en sú stefnumótun hefur reynst gjörsamlega ómöguleg í samstarfi við Alþfl.
    Viðbótartexti sem í þáltill. er á að tryggja að landbúnaður á Íslandi fái þá vernd sem samningurinn heimilar gegn niðurgreiddum útflutningi annarra ríkja til Íslands. Sú vernd sem innflutningstakmarkanir áður voru er nú breytt í tollígildi. Það leiðir af sér að lögfest verður að nota tollígildin að fullu eins og þau eru boðin í samningstilboði Íslands en íslenskum stjórnvöldum veitt heimild til að draga úr þeim þegar innflutnings er þörf. Enn fremur að landbrh. verði tryggt forræði ákvarðana um breytingu tollígilda og um allar aðrar efnislegar ákvarðanir í stjórnkerfi sem varðar landbúnaðinn og innflutning landbúnaðarvara.
    Með öðrum orðum að framkvæmd á landbúnaðarhluta samningsins falli undir valdsvið landbrh. Að sjálfsögðu eru, eins og ég gat um fyrr, í þessu nokkur tímamót. Treysta verður því að þessi niðurstaða Alþingis verði virt þegar kemur að nauðsynlegum lagabreytingum. Það á eftir að sjá.
    En ég ítreka þetta vegna þeirrar yfirlýsingar frá hæstv. utanrrh. sem birtist í fjölmiðlum á sama tíma og unnið er að þessu máli í einlægni á hv. Alþingi að því er maður hélt eins og ég gat um fyrr í mínu máli. En hæstv. ráðherra lætur hafa það eftir sér að það sé sama hvaða texta Alþingi hnoðar saman því staðfesting Íslands á samningnum leiði af sér að landbúnaður á Íslandi muni standa uppi varnarlaus að sex árum liðnum. Því er það á hæstv. utanrrh. að heyra að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær hann sér drauma sína rætast um að knésetja íslenskan landbúnað með erlendri samkeppni. Sömu jólakveðju sendi einnig aðstoðarmaður hans með því að bjóða fjárhagslega afkomu bænda sem skiptimynt í komandi kjarasamningum.
    Það þarf vissulega hagstæða kjarasamninga en þeir geta ekki leysts með hömlulausum innflutningi ódýrra landbúnaðarafurða. Stórhækkun skattafsláttar á lágtekjur er hins vegar leið í afgreiðslu kjaramála fremur en leið hæstv. aðstoðarmanns utanrrh.