Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 15:58:47 (3429)


[15:58]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Nú þegar væntanlega líður að lokum umræðunnar vil ég gjarnan nota tækifærið og lýsa mikilli ánægju minni persónulega og flokks míns með það að samstaða skuli hafa tekist með a.m.k. fjórum af fimm þingflokkum um að tryggja að Ísland eigi stofnaðild að hinni væntanlegu alþjóðaviðskiptastofnun sem tekur til starfa nú um áramótin. Ég sagði fjórir af fimm þingflokkum vegna þess að mér hefur skilist á nefndaráliti Kvennalistans að þær hyggist sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Nú þarf út af fyrir engum að koma á óvart að formaður Alþfl. og við þingmenn Alþfl. fögnum slíkri niðurstöðu. Það er ekki nýtt fyrir mönnum að Alþfl. hefur áratugum saman verið einn harðvítugsti andstæðingur haftastefnu hér innan lands og ótrauðasti talsmaður fríverslunar í viðskiptum okkar við útlönd eins og staðreyndir mála um helstu mál á því sviði staðfesta á undanförnum árum og áratugum. Það kemur þess vegna ekki á óvart með nokkru móti.
    Hitt er kannski enn þá meira ánægjuefni að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka lýsa sig jafnánægða með þessas niðurstöðu og þá tek ég undir með hv. þm. 6. þm. Suðurl. að batnandi mönnum og ég tala nú ekki um stórbatnandi mönnum er best að lifa. Þetta er ekki síst í ljósi þess að hér er um stórmál að ræða. Þótt mönnum hætti til á þessum tímum að ofnota kannski orðið söguleg ákvörðun mundi ég jafnvel leyfa mér að nota það um þessa ákvörðun einfaldlega vegna þess að áhrifin af þessari ákvörðun eiga eftir að fara vaxandi eftir því sem árin líða og þeirra mun gæta fram á næstu öld. ( HÁ: Stutt í hana.) Já, stutt í hana, segir hv. þm., þó svona rúmlega tvö kjörtímabil eða svo, nei rúmt kjörtímabil og það er stuttur tími. En söguleg ákvörðun engu að síður og söguleg kannski í öðrum skilningi líka vegna þess að ef þetta táknar að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem hafa á undanförnum árum þrátt fyrir allt ekki talist mjög hallir undir grundvallarsjónarmið fríverslunar en eru það með þessari ákvörðun sinni þá boðar það nokkra stefnubreytingu. Ef t.d. fulltrúar þeirra flokka, sem greiddu atkvæði gegn EES-samningnum, lýsa nú ánægju sinni með þessa niðurstöðu eru það auðvitað þó nokkur pólitísk tíðindi, m.a. vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem flutti áðan merka ræðu, að hér er að sjálfsögðu um að ræða að við færum vald til samþjóðlegrar stofnunar á viðskiptasviðinu og hér er um að ræða nýja stofnun með nýjum starfsreglum. Þetta er lagalega bindandi samningur. Þetta er stofnun með ákveðinni stjórn. Það verður samkvæmt reglunum eftirlit með því hvernig aðildarríkin halda samninginn og hvernig farið verður með hann í framkvæmd og ákveðnar starfsreglur eru um það hvernig farið skuli með lausn deilumála.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér margt skynsamlegt um umhverfismál og tengsl umhverfismála og viðskipta en það er kannski einmitt þessi punktur málsins sem er þýðingarmestur að því er þetta tvennt varðar. Umhverfismál eru gjarnan nefnd sem dæmi um mál sem eru þess eðlis að þau takmarkast ekki við landamæri þjóðríkja og afleiðingar umhverfisspjalla og mengunar spyrja ekki um landamæri. Ef við viljum ráðast að rótum þeirra vandamála þá eru þau þess eðlis að þau kalla á alþjóðlegar reglur og framsal á valdi þjóðríkja í hendur alþjóðlegra stofnana, samþjóðlegra stofnana, til þess að ráða við afleiðingar slíkra mála þannig að þetta sætir nú allt saman nokkrum tíðindum. Þess vegna átti ég bágt með að skilja það t.d. hvers vegna hv. þm., formaður Alþb., sem vildi með réttu eða röngu eigna sér málið og taldi að hann að vísu með aðstoð annarra góðra manna í utanrmn. og formanns nefndarinnar hefði nánast bjargað málinu fyrir horn. Hann virtist ekki vera með miklu gleðibragði í ræðu sinni og taldi að með því að ná þessu máli fram hefði hann fyrst og fremst verið að vinna áfangasigur í heilögu stríði gegn Alþfl. Hvernig sú röksemdafærsla gengur upp er erfitt að skilja vegna þess að öllum mönnum er ljóst að ef nokkrum mönnum er þetta fagnaðarefni þá er það okkur alþýðuflokksmönnum. Það er í samræmi við málflutning okkar og stefnu okkar á undanförnum árum. Við erum baráttumenn fyrir þessu máli og þessi niðurstaða er engum kærkomnari en okkur. Það er því fjarri því að niðurstaðan sé á nokkurn máta á skjön við eða í andstöðu við sjónarmið okkar alþýðuflokksmanna.
    Menn hafa vikið nokkrum orðum að því hvort það hefði skipt máli að ná þessari niðurstöðu þannig að Ísland hefði getað gerst stofnaðili og velt því fyrir sér hvaða afleiðingar það hefði haft ef afgreiðsla málsins hefði dregist. Í því efni sagði hv. þm. Steingrímur Sigfússon að af minni hálfu hefði verið reynt að koma á framfæri einhverjum blekkingum í því sambandi. Ég andmæli því og vísa einfaldlega til þess að allar staðreyndir um það mál hafa verið kynntar og liggja á borðum manna. En það er ástæða til að íhuga hvað hefði gerst ef Alþingi Íslendinga hefði heykst á því að taka þessa sögulegu ákvörðun. Víst er það svo að við hefðum þá ekki notið ávinnings af þeim tvíhliða tollalækkunum sem við höfum samið um.

Þá segja menn: Ja, það var nú lítill akkur í því á Bandaríkjamarkaði því meðaltalstollar þar nú eru orðnir mjög lágir. Þær upplýsingar sem við byggjum á eru náttúrlega þær að við erum annars vegar að tala um tollbindingar og við erum að tala um viðmiðunarárin sem allt þetta móverk er nú á byggt. Og það er rétt, að því er Bandaríkin varðar voru tollar lágir að meðaltali. Því er hins vegar alls ekki að heilsa um mörg önnur lönd. Og það er ekki bara að við hefðum farið á mis við þann ávinning sem við sömdum um, við gerðum slíka tvíhliða samninga við nokkur Asíulönd. Margir hv. þm. hafa vakið á því athygli að þar væru vaxtarmarkaðir okkar, ekki síst fyrir fiskiðnað og fiskafurðir og tæknibúnað að því er varðar fiskvinnslu og fiskiðnað. Og það eru mjög verulegar tollalækkanir sem þar var samið um á vaxtarmörkuðum eins og í Japan, Kóreu og víðar. En þetta er þó minnsta málið í þeim heildarhagsmunum sem um var að ræða vegna þess að við njótum allra þeirra tollalækkana sem aðrar þjóðir sömdu um innbyrðis sín í milli og það eru ekki óverulegar tölur hvort heldur við mælum það í prósentum eða beinlínis í krónum og aurum.
    Meginmarkmiðið á tollasviðinu að því er varðar þessa lotu GATT-umræðna var að ná niður tollum um um það bil 33%. Niðurstaðan er sú að það tókst að gera ögn betur, t.d. að því er varðar tolla fyrir iðnaðarvörur þá lækka þeir að meðaltali um 40%, líka frá tollbindingu viðmiðunarársins, það skal tekið fram. En að þetta skiptir máli sést best á því að það er áætlað að hlutur iðnvarnings sem nú bætist við á næstu árum, vegna þessara tollalækkana, á mörkuðum þróaðra ríkja geti aukist úr 20--44% að markaðshlutdeild. Þannig að það fer ekkert á milli mála að hér er verið að færa til mikil verðmæti og skapa mikil verðmæti með aukningu viðskipta, samanber þær heildartölur sem birtar hafa verið um aukningu þjóðarframleiðslunnar eða heimsþjóðarteknanna sem afleiðingu af þessu þegar allar afleiðingarnar eru komnar til skila.
    Það má nefna fleira sem við hefðum orðið af. Ef við hefðum ekki gerst stofnaðilar þá hefðum við ekki getað beitt fyrir okkur þeim reglum sem felast í samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til þess að verja okkar hagsmuni. Mér dettur í hug að nefna t.d. að þegar hvalveiðimál ber á góma er oft talað um að við búum við þá hótun eða eigum yfir höfði okkar þá hótun að bandarísk stjórnvöld muni beita okkur viðskiptaþvingunum og þá hafi ýmsir orðið til þess að benda á það að leiðin til þess að mæta því væri hugsanlega sú að taka það upp sem deilumál innan GATT þar sem almenna reglan er sú að ekki megi hóta viðskiptaþvingunum út af óskyldum deilumálum. Það hefðum við ekki getað gert, ef á hefði reynt, ef við hefðum ekki gerst aðilar.
    Eftir sjö mánuði frá gildistöku samningsins missa þau ríki sem ekki hafa fullgilt rétt til meira að segja áheyrnaraðildar, hafa engan aðgang að gögnum eða upplýsingum. Eftir eitt ár fellur gamli GATT-samningurinn frá 1947 úr gildi, sem þýddi að Ísland mundi ekki einu sinni njóta þeirra réttinda sem við höfum nú og þá væri sannarlega orðið illt í efni. Það þýddi einfaldlega að við værum réttlausir í milliríkjaviðskiptum og varnarlausir gagnvart hugsanlegum aðgerðum annarra ríkja af hvaða tagi sem það gæti orðið.
    Eftir tvö ár frá gildistöku fellur niður réttur þeirra ríkja sem eru aðilar að GATT frá 1947 til þess að gerast aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Eftir þann tíma hefðu þau þurft að semja um aðildina alveg sérstaklega. Það er því engum orðum aukið að það var mikið í húfi, fyrir utan það sem menn hafa sagt hér hver á fætur öðrum, þann álitshnekki sem Ísland hefði orðið fyrir ef það hefði komið á daginn að það hefði reynst okkur ofviða að taka þessa ákvörðun um að gerast stofnaðili og vera þannig í hópi þeirra ríkja sem við höfum sögulega séð átt mest samskipti við og þar er öll að finna.
    Að því er varðar almenn áhrif GATT-samningsins eða stofnunar Alþjóðaviðskiptastofnunar er út af fyrir sig hægt að hafa mörg orð. Ég ætla ekki að gera það. Hér hefur umræðan því sem næst öllsömul snúist um landbúnaðarþátt samninganna. Menn hafa vísað til greinargerðar frá OECD um mat á áhrifum þessara samninga. Það mun vera fleiri en ein skýrsla frá OECD til um það efni. Mér er kunnugt um sérfræðingaskýrslu frá OECD sem metur sérstaklega áhrif landbúnaðarsamninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á alþjóðaviðskipti með landbúnaðarafurðir á næstu árum. Þetta er sérfræðingaskýrsla dags. 12. des. á þessu ári og þar segir svo, með leyfi forseta, um heildarniðurstöðuna:
    ,,Landbúnaðarsamningurinn markar alger þáttaskil. Loks hefur tekist að setja almennar lagalega bindandi reglur sem hafa stefnumarkandi áhrif á viðskipti á þessu sviði. Auk þess hafa ríkin tekið á sig sérstakar skuldbindingar í smáatriðum um það hvernig ákvæðum samningsins verður framfylgt.``
    Þetta er auðvitað kjarni málsins. Þótt menn hafi lengi deilt um landbúnaðarstefnu hér á landi sem annars staðar og almennt um það hvort haftastefna sé til frambúðar æskileg eða óæskileg eða verndarstefna í milliríkjaviðskiptum, ég tala nú ekki um hugmyndir manna sem boða sjálfsþurftarbúskap og kenna af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum við sjálfan lord Keynes. Þetta getum við allt deilt um. En það er óumdeilanlegt að þessi breyting, aðild okkar að þessari stofnun, markar algerlega þáttaskil í grundvallaratriðum þótt áhrifin af þessari ákvörðun verði þeim mun meiri sem frá líður. Í því efni skiptir ekki meginmáli, ef menn hugsa til skamms tíma, hvað hann heitir maðurinn sem situr á stól landbrh. á næstu árum vegna þess einfaldlega að það verður hlutverk hans að framfylgja þessum reglum og standa við þessar skuldbindingar fyrir hönd Íslands. Í þessari skýrslu segir einnig á þessa leið:
    ,,Árangurinn er lagalega bindandi rammi sem setur skorður við því hvernig ríki haga landbúnaðarstefnu sinni og sem mun smám saman leiða til aukins frelsis í landbúnaðarviðskiptum. Þótt skammtímaáhrif hans verði e.t.v. takmörkuð ber að skoða árangur hans í ljósi þess hver staðan væri ef ekki hefði til

hans komið og það að hann snýr haftaþróuninni sem verið hefur við.``
    Um markaðsaðganginn segir á þessa leið: ,,Sá árangur að öllum viðskiptahindrunum, öðrum en tollum, verður breytt í tolla [þ.e. tollígildi] er í raun risaskref í frelsisátt. Í því felst veruleg kerfisbreyting í viðskiptum á þessu sviði og með því er verndar- eða haftakerfið sem tröllriðið hefur landbúnaðarviðskiptum fært upp á yfirborðið.``
    Með öðrum orðum, verndin verður gagnsærri í stað þess að vera falin í kvótum, innflutningsleyfum, bönnum, gjöldum o.s.frv. Þetta mun auðvelda samningaviðræður í framtíðinni til muna sem munu þá snúast um lækkun tolla í framhaldinu og yfirleitt að henda reiður á því í hverju höftin eru fólgin. Með þessu er að vissu marki gengið lengra en með iðnaðarvörur, m.a. vegna þess að tollar og tollígildi á öllum landbúnaðarafurðum hjá öllum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verða bundnir, þ.e. þeir verða með hámarki sem óleyfilegt er að fara upp fyrir. Síðan segir hér:
    ,,Sá böggull fylgir þó skammrifi að algengt er að ríki hafa reiknað tollígildi upp úr öllu valdi`` --- dirty tariffication, eins og það er kallað. --- ,,Niðurskurður þeirra og annarra tolla á aðlögunartímanum á að vera 36% að meðaltali en aldrei minna en 15%. Þetta þýðir að fyrir viðkvæmustu vörurnar er niðurskurðurinn eingöngu 15%, en hærri fyrir þær sem minna máli skipta til að ná 36% meðaltalinu.`` --- Sem er reyndar einnig tilfellið í íslenska tilboðinu. --- ,,Þetta getur haft í för með sér að þessar tollalækkanir munu ekki hafa veruleg áhrif til aukins markaðsaðgangs fyrsta kastið.`` --- Látum nú þetta nægja um mat á hinum almennu áhrifum þessa.
    Þá langar mig að víkja að örfáum atriðum öðrum. Það er spurningin um framkvæmdina hér innan lands að því er varðar verkaskiptingu milli ráðuneyta. Það er spurningin um það hvernig við metum stöðu málsins annars vegar út frá samkeppnisstöðu landbúnaðarins og þeim áhyggjum sem sumir hafa lýst að því er varðar samkeppnisstöðu hans eða áhrif þess á hag neytenda og síðan framhald málsins að því er varðar breytingar á innlendri löggjöf. Fyrst um verkaskiptingu ráðuneyta.
    Nú er það svo að það er meginreglan varðandi verkaskiptingu milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands að það er fjmrn. sem fer með tollamál og það er viðskrn. sem fer með innflutningsverslun. Þetta eru meginreglur og út af fyrir sig væri æskilegt og hreinlegast í stjórnsýslunni að halda sig við þær reglur. Allar málamiðlunarlausnir sem kalla á einhvers konar skiptingu valds eða skiptingu ábyrgðar milli ráðuneyta eru út af fyrir sig ekki heppilegar. En nú þarf ekki að orðlengja mikið um það vegna þess að það vill svo til að þetta mál, að því er varðar innflutning landbúnaðarafurða, hefur verið útkljáð með samkomulagi sem reyndar hefur verið leitt í lög. Í sambandi við þær breytingar sem gerðar voru á búvörulögunum og urðu að lögum 15. apríl 1994 þá er þetta mál útkljáð á þennan veg. Þar segir í 3. gr.:
    ,,Landbrh. er heimilt, til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðauka I og II með lögum þessum og jafnframt eru framleiddar hér á landi.``
    Það var ekki lítið togast á, virðulegi forseti, um þessi fáu orð sem skipta þó verulegu máli. Rökin fyrir því að hverfa frá meginreglu um verkaskiptingu ráðuneyta eru nefnilega þau að meðan landbúnaðurinn sem atvinnugrein býr við jafnmikil ríkisafskipti og framleiðslustýringu og raun ber vitni þá muni innflutningur geta haft áhrif, meiri og beinni áhrif, á afkomu hans og þess vegna sé réttlætanlegt að ákvarðanir jafnvel um verðjöfnunargjöld, sem eru í eðli sínu einhvers konar tollar, séu, a.m.k. meðan verið er að koma þessu kerfi á, í höndum landbrh. En það er ástæða til þess að leggja áherslu á það að þetta frávik frá meginreglunni um verkaskiptingu ráðuneyta sætir ákveðnum takmörkunum vegna þess að í þessum sömu lögum segir einnig:
    ,,Við ákvörðun verðjöfnunargjalda skal ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna. Skal einn skipaður án tilnefningar, annar af fjmrh. og hinn þriðji af viðskrh. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðist við, en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem greinir í 6. mgr.`` sem er skilgreiningin á verðjöfnunargjöldum. Rísi ágreiningur í þessari nefnd, segir síðan á þá leið að þá ,, . . .  skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn``.
    Þetta er nú svona nokkuð flókið og að mörgu leyti gagnrýnisvert móverk. En engu að síður, þetta varð niðurstaðan, um þetta var samið á sínum tíma milli stjórnarflokkanna og um þetta varð samstaða sem dugði til þess að þetta er fest á lögbók. Þetta eru lögin. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla að við þetta verði ekki staðið þannig að um það mál þarf ekkert að orðlengja frekar. Það er búið að leysa það, útkljá það og lögfesta það.
    Fáein orð um spurningarnar um stöðu landbúnaðar og hins vegar hag neytenda í tengslum við mat manna á þessari ákvörðun. Ég held að þeir sem hafa lýst þyngstum áhyggjum af stöðu landbúnaðarins vegna þessara breytinga þurfi ekki að hafa þær áhyggjur sem þeir lýsa. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að það er innbyggt í þetta kerfi um leið og það tekur til starfa að framleiðendur njóta skilgreindrar, óbreyttrar tollverndar. Þeir eiga að vera í jafnstöðu þegar kerfið byrjar og síðan á það að gerast í áföngum á sex árum að dregið verði úr þessari innflutningsvernd sem samsvarar 36% á 6 árum og er þó sveigjanleiki í því innbyrðis hvernig sú tollvernd leggst á einstakar afurðir. Það er með öðrum orðum fullt tillit til þess tekið og það er þess vegna að mínu mati algjörlega óþarfi að vera að hafa einhver stór orð uppi um það að hér sé einhver aðför að landbúnaðinum. Það er fullt tillit tekið til þess að kerfið byrjar í jafnstöðu. Síðan geta menn hins vegar spurt: Verður það virt í framkvæmd? Ég vitnaði hér áðan í ummæli sérfræðinga OECD sem sögðu: Því miður er það svo að í upphaflegum tilboðum einstakra ríkja, sem kveða á um hámarksheimildir til tollsetningar, hafa menn í mörgum tilvikum gert sig seka um það sem heitir dirty tariffication, með öðrum orðum með því að stilla þessar hámarksheimildir, tollígildin, hátt yfir það sem raunverulegar forsendur voru til.
    Þetta er það eina sem varðar framkvæmdina sem ég hygg að menn munu eðlilega skoða mjög vandlega vegna þess að ef þær hugmyndir eru uppi hjá einhverjum að nú eigi að nota tækifærið til þess að auka tollverndina langt umfram það sem staðreyndir liggja til þá er það auðvitað misnotkun. Þá er ekki verið að tala um jafnstöðu heldur er verið að tala um það að reyna misnota kerfið til þess að auka tollverndina. Það ber að varast vegna þess að með því væru menn að sýna vafasaman vilja til þess að halda þær reglur sem hér er verið að setja og í annan stað að ganga á snið við eðlilega sanngirni gagnvart sjónarmiðum neytenda.
    Hver er þá hagur neytenda í þessu máli? Hverjar eru líkurnar á því hvaða áhrif þetta hafi á verðlag á lífsnauðsynjum við búðarborðið? Um það þarf ekki að hafa mörg orð á þessu stigi, reynslan mun leiða það í ljós. En það fyrsta sem neytendur eiga að uppgötva er það að núna verður heimill 3% lágmarksinnflutningur, þ.e. 3% af markaðshlutdeild á lágum tollum og þar er sett hámark sem þætti hátt að því er varðar 2. gr., 32%, yfir það má ekki fara, en þykir ekki hátt í þessum bransa enn sem komið er.
    Það getur skipt máli hvaða aðferð verður notuð til þess hvort neytendur fá að njóta verðlækkunaráhrifa af þessum mjög takmarkaða innflutningi. Það er óútkljáð mál.
    Í annan stað á að vera tryggt að ríkjandi markaðsaðgangur, þ.e. sá markaðsaðgangur sem var leyfður fyrir á engum eða lágum tollum, haldist óbreyttur. Hann má ekki hækka. Framkvæmdin að því er það varðar getur líka skipt verulegu máli varðandi hag neytenda því það er hægt að haga þessari framkvæmd þannig á fákeppnismörkuðum að þetta leiði til aukins milliliðagróða og hærri álagningar og hærra verðlags fyrir neytendur.
    Síðan er það í þriðja lagi spurningin um það hvaða verðlagsáhrif þetta hefur í heild sinni og þá til skamms tíma og til lengri tíma. Til skamms tíma, þ.e. nú á næstunni þegar við tökum ákvarðanir um endurskoðun tollskrár, þá skiptir það máli auðvitað hvort heldur við lítum á málið út frá sjónarmiði framleiðenda eða neytenda, að það sem menn eru að gera er að stilla tollana í jafnstöðu, að þeir tryggi raunverulega óbreytta stöðu en jafnframt skiptir það mjög miklu máli fyrir neytendur að þeir verði ekki spenntir umfram það. Og í þeim skilningi eru skammtímaáhrifin þess eðlis að þau skipta máli, ekki bara fyrir framleiðendur heldur líka fyrir neytendur. Þess vegna er það sem ég segi, að það er eðlilegt að fulltrúar launþegasamtaka, nú þegar þeir hafa lausa kjarasamninga, skoði það mjög vandlega hvernig staðið verður að þessari framkvæmd. Þegar menn líta hins vegar á málið til lengri tíma litið, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og reyndar fleiri í þessari umræðu hafa gert, þá spyrja menn sem svo: Hvernig má það vera ef það er verið að draga úr stuðningi innan lands við landbúnaðarframleiðslu og það er verið að draga mjög verulega úr útflutningsbótum frá útflutningsríkjunum að það geti, þegar lengri tímar líða, leitt til verðlækkunar á landbúnaðarafurðum eða matvælum fyrir almenning?
    Þeir sem þannig spyrja hugsa um þetta einhvern veginn statískt og telja að um leið og dregið er úr ríkisstuðningi þá hljóti það að leiða til samsvarandi verðhækkunar. Ástæðan fyrir því að menn meta það almennt ekki svo er þessi: Verndarstefnan í landbúnaði í heiminum er slík að aðeins lítill hluti af landbúnaðarframleiðslu heimsins hefur yfirleitt verið nokkuð í útflutningi eða í milliríkjaviðskiptum. Yfirleitt hefur verið um að ræða einskonar sjálfsþurftarbúskap. Það er því afar lítill hluti af heildarlandbúnaðarframleiðslu heimsins sem hefur lotið lögmálum framboðs og eftirspurnar á einhverjum heimsmarkaði. Afar lítill hluti. Það sem gerist í framtíðinni er það að nú opnast markaðurinn fyrir viðskipti með þessar vörur rétt eins og iðnaðarvörur eða þjónustuvörur og við lítum til reynslunnar af því sem þar hefur gerst. Meginskýringin á bættum lífskjörum manna í hinum þróaða heimi byggir á því að hindrunarlaus milliríkjaviðskipti, afnám tollmúra og afnám viðskiptahindrana, vaxandi samkeppni, aukin framlegð og framleiðni, hefur leitt til verðlækkunar sem hefur lyft upp lífskjörum þessara þjóða. Menn leyfa sér að álykta að svipað muni gerast að því er varðar landbúnaðarafurðir, þegar stóraukið framboð berst inn á markaðina, þegar lögmál framboðs og eftirspurnar fá að njóta sín og það muni líka, þegar fram líða stundir, verða til þess að jafna mjög lífskjör í heiminum, jafna lífskjör milli þeirra sem eru að láta af forréttindum að baki verndarmúrum, þ.e. í hinum ríka heimi, þannig að þróunarríkin og þó með fullum fyrirvara á því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði, að þeim ber ekki að steypa í einn hóp, það er mjög ólíkt skipt kjörum og aðstöðu þeirra. En engu að síður, þau líta svo sjálf á, stjórnvöld þessara ríkja, að það sé þeim mikið hagsmunamál að fá aðgang að þessum mörkuðum þar sem kaupgeta er mikil og að það geti skapað auð og verðmæti og lyft lífskjörum í þeirra löndum. --- Þetta held ég að sé kjarni málsins um það.
    Virðulegi forseti. Síðan hafa menn farið nokkuð hörðum gagnrýniorðum um það hversu skammt á veg komið er undirbúningi málsins hér heima að því er varðar það sem vitað var fyrir löngu síðan að þurfti að gera. Það var að endurskoða tiltekna lagabálka, sérstaklega tollskrá og nokkur önnur lög, þannig að þeir yrðu í samræmi við þær skuldbindingar sem við nú tökum á okkur og að taka ákvarðanir um útfærslu eða framkvæmd málsins, eins og t.d. varðandi lágmarksmarkaðsaðgang, ríkjandi markaðsaðgang, hvernig það verður útfært og reyndar lagahreinsun sem þarf að framkvæma því það er ýmislegt annað í innlendri löggjöf sem ekki samrýmist þessum skuldbindingum.
    Og hvað er um þetta að segja? Sumir hafa veist harðlega að utanrrh. og talið að hann hafi ekki unnið heimavinnuna sína í þessu efni. En nú vil ég minna hv. þm. á að niðurstaðan í þessu máli var þessi: Það var skipuð nefnd fulltrúa fimm ráðuneyta undir forustu forsrn. til þess að vinna að þessu máli. Það eiga með öðrum orðum fulltrúa í nefndinni fulltrúar forsrn., þ.e. ráðuneytisstjórinn í forsrn., fulltrúar fjmrn. augljóslega vegna tollskrár, fulltrúar viðskrn., augljóslega vegna innflutningsmálefna, fulltrúar landbrn. og fulltrúar utanríkisviðskiptaráðuneytis. Það er þessi nefnd sem með þetta mál hefur farið og hin stjórnarfarslega ábyrgð er ekki á höndum utanríkisviðskiptarh., hún er, eins og þegar um er að ræða samstarfshópa af þessu tagi með fulltrúum margra ráðuneyta, á verkstjórnarlegri ábyrgð forsrh. ( Gripið fram í: Nú, er það Davíð að kenna?) Ég er ekkert að lýsa neinni sök, ég er að segja að menn hafa veist mjög harkalega að utanrrh. fyrir það að þessi nefnd hafi ekki lokið störfum.
    Nú vil ég gjarnan bæta nokkru við, hv. þm. Í fyrsta lagi að það er alveg ljóst af þeim reglum sem að þessu lúta að það er ekki lífsnauðsyn tæknilega séð til þess að fullnægja okkar skuldbindingum að þetta liggi fyrir um framkvæmdina nú þegar. Ég nefni sem dæmi að Evrópusambandið hefur látið það á þrykk út ganga og lýst því yfir að þeir muni miða sinn undirbúning við að framkvæmdin geti að fullu og öllu hafist 1. júlí. Mikið lengur má það kannski ekki dragast vegna þess að þá förum við að eiga á hættu að tapa ýmsum þeim réttindum sem við nú höfum í skjóli gamla GATT. En ég man ekki betur en sumir hv. þm. hafi gert þær kröfur að þetta ætti allt að liggja á borðinu. Menn vildu fá að sjá hvernig tollskrá lítur út endurskoðuð. Menn vildu fá að vita nákvæmlega hvernig á að útfæra framkvæmdina varðandi útboð eða aðrar aðferðir varðandi ríkjandi markaðsaðgang eða lágmarksmarkaðsaðgang. Menn geta gert þá pólitísku kröfu að vilja vita þetta. Það er ekki, með öðrum orðum, tæknileg nauðsyn, við erum ekki að brjóta neinar skuldbindingar þó að þetta liggi ekki fyrir og það er kannski eðlilegt að það taki sinn tíma.
    En ég vil aðeins segja um þetta að það sem er sögulegt á þessari stundu er að þingheimur hefur í stórum dráttum, með kannski undantekningunni einn þingflokkur, sameinast um að það sem langsamlega mestu máli skiptir sé sú stórpólitíska ákvörðun að stíga þetta skerf, að gerast stofnaðili frá byrjun. Að taka á sig þær skuldbindingar sem í því felast og marka þar með stefnu til framtíðar sem í því felst og um það geta ekki verið neinar deilur. Hitt getur vafalaust valdið deilum hvernig við útfærum þetta og framkvæmum hér innan lands. Það er hins vegar í vinnu á vegum þessa starfshóps sem ég hef margsinnis vitnað til og það er alveg á hreinu að á þessu stigi málsins, þar til sá starfshópur hefur skilað sínum niðurstöðum, hefur engin afstaða verið tekin til þeirra einstöku kosta sem þar eru til umræðu í nefndinni.
    Virðulegi forseti. Ég vil við lok málsins árétta það að mér er það alveg sérstakt ánægjuefni og flokksmönnum mínum áreiðanlega öllum, að málið hefur tekið þessa stefnu og það hefur skapast þessi samstaða, þrátt fyrir pólitískan ágreining um margt, um þetta mikla mál. Ég sagði áðan að þegar menn mundu líta til baka síðar meir til þessa dags þá verður þessi ákvörðun talin vera söguleg og ef menn skoða það frá sjónarhóli handan aldamóta þá munu menn telja að þetta hafi verið risaskref fram á við í átt frá hefðum haftastefnu og verndarstefnu yfir í algjörlega nýtt stjórnkerfi sem byggir á grundvallarhugmyndum og grundvallarreglum frjálsra viðskipta. Út frá því sjónarmiði tel ég það heiður hverjum þeim þingmanni sem greiðir atkvæði með þessari tillögu að hafa átt hlut að því. Þess vegna er mér það ánægja að lokum að taka undir þakkir manna til formanns utanrmn. og samnefndarmanna hans allra fyrir þeirra hlut að því að greiða götu málsins, sem og allra þeirra formanna þingflokka og þingmanna sem lýst hafa svo eindregnum stuðningi við þetta mikilvæga mál.