Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 16:36:16 (3431)


[16:36]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. ,,Það voru hljóðir og hógværir menn sem héldu til Reykjavíkur``, segir í merku kvæði og aldrei þessu vant var hæstv. utanrrh. hljóður og hógvær í ræðustólnum og það fer honum vel. Það fer honum eiginlega betur heldur en sá gassagangur sem hæstv. ráðherra leyfir sér venjulega í ræðustólnum. En til þess liggja orsakir sem hér hefur oft verið minnst á í dag. Málið hefur verið tekið með formlegum hætti úr höndum hans, Alþingi er laust úr landbúnaðarprísund Alþfl. og Alþfl. kominn út í horn. Hæstv. ráðherra hafði vit á því með sinni hógværu ræðu að æsa hér ekki upp til lengri umræðna og það ber vott um vitsmuni, sem ég átti satt að segja ekki von á að hann sýndi, og skapstillingu.
    Hitt er svo annað mál að það getur vel verið að þegar hann kemst í sjónvarpið í kvöld eða útvarpið eða jafnvel bara í Alþýðublaðið, svo við tökum okkar minnsta bróður, þá fari hann að láta gamminn geysa og þá byrji landið aftur að rísa, eins og þegar þeir félagar úti í Kaupmannahöfn voru búnir að fá sér franskt brennivín og súpu.
    Hæstv. utanrrh. gerði nokkurn samanburð á GATT-samningnum annars vegar og EES-samningnum hins vegar. Ég var einn af þeim sem voru andvígir EES-samningnum, en ég hef alla tíð verið fylgjandi GATT-samningnum og stofnun þessarar Alþjóðaviðskiptastofnunar. Þetta eru ósambærilegir hlutir. GATT-samningurinn er víðtækur, EES-samningurinn er þröngur, hólfastefna, eins og hv. 9. þm. Reykv. orðaði það ágætlega áðan. Ég vildi ekki fara inn í þetta hólf sem EES-samningurinn er. Það er ekkert í GATT-samningnum sem sneiðir nærri hinni íslensku stjórnarskrá, sem er allt annað en hægt er að segja um EES-samninginn sem brýtur stjórnarskrána og það er meira að segja viðurkennt af hæstv. utanrrh. Nú fyrir jólin lagði hann það til að stjórnarskrárbreyting yrði gerð þannig að EES-samningurinn og hliðstæðir samningar gætu orðið samrýmanlegir íslenskri stjórnarskrá. Hann stakk nefnilega upp á því að breyta, að nota tækifærið þegar kosningalögum yrði breytt og nýr mannréttindakafli samþykktur í stjórnarskrána, að taka þar inn ákvæði líka um milliríkjasamninga.
    Framsfl. hefur alla tíð verið einhuga um það að styðja það viðskiptasamstarf sem formað er með GATT-samningnum og ég hef reyndar aldrei heyrt neina rödd á Alþingi í þá veru að við ættum að standa utan GATT og við ættum ekki að gerast aðilar. Ágreiningurinn hefur verið um það hvernig við byggjum okkur út í þessa sambúð, þennan félagsskap við aðrar þjóðir í gegnum GATT og hvernig við ættum að vernda íslenska framleiðslu, hvernig við ættum að halda áfram að lifa hér á landinu, hvernig við ættum að fara að því að fórna ekki okkar eigin atvinnuvegum þrátt fyrir það hagræði sem við fáum af GATT-samningnum.
    Hæstv. utanrrh. lét sem hann fagnaði því að hér væri verið að samþykkja aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Ég efa það ekki að hann er undir niðri kannski ánægður með það, en hann hefði átt að passa leistann sinn. Fagnaðarlætin voru reyndar ekki áberandi þó að orðin hljóðuðu upp á það, en hann hefði átt að passa leistann sinn og halda sig við hann og ekki tefla þessari samþykkt í tvísýnu eða fresta henni með undarlegum og óskynsamlegum vinnubrögðum. Hann hefði ekki átt að reyna að nota samninginn til þess að níðast á íslenskum landbúnaði. Hann átti ekki að blanda saman störfum sínum sem hæstv. utanrrh. og störfum sínum sem formaður Alþfl. Hann hefði alltaf átt að skilja formann Alþfl. eftir heima þegar hann fór út fyrir landsteinana sem utanrrh. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og hann hefði jafnvel ekki átt að taka hann með á ríkisstjórnarfundi þegar rætt hefur verið um landbúnaðarmál.
    Hæstv. utanrrh. kallaði það að reyna að halda utan að sínu með háum tollum ,,dirty tariffication``. Ég er ekki sammála þessu nafni sem hæstv. utanrrh. notaði hér og hefur sjálfsagt eftir öðrum því hann er ágætlega mæltur á íslenska tungu. Ég tel að okkur beri skylda til og það sé skynsamlegt fyrir okkur að hugsa fram í tímann, vita það að aldamótin eru skammt undan, sex ár eru fljót að líða og við ætlum að búa hér miklu lengur heldur en sex ár.
    Alþingi hefur ákveðið verkaskiptingu ráðuneytanna og Alþingi hefur sett inn ákvæði í búvörulög. En ég vek athygli hv. þm. á því að það er hægt að breyta þeim ákvæðum sem hæstv. utanrrh. vitnaði til í búvörulögum og sagði að hefði verið samkomulag um hjá núv. stjórnarflokkum. Það er alveg rétt, það varð samkomulag um það. Honum tókst að beygja Sjálfstfl. í þessu máli, eins og svo margoft áður á fyrri stigum málsins, en sem betur fer er Sjálfstfl. að réttast upp núna og hættur að taka við fyrirskipunum frá hæstv. utanrrh. varðandi þetta efni. En þó að þeir Viðeyjarbræður, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., geri með sér samkomulag þá þarf það ekki að standa um alla eilífð því, eins og menn vita, þá hafa þeir ekki stofnað þúsund ára ríkið.
    Hæstv. utanrrh. klappaði enn sama steininn og þénari hans, Þröstur Ólafsson, og vísaði á bændur, að þeir eigi að bera kostnaðinn af næstu kjarasamningum. Ég held að þetta sé ekki skynsamlegur málflutningur og ég held að menn ættu að varast að gera sér einhverjar grillur um það að nota GATT-samninginn sérstaklega til þess að koma hér á kjarasamningum.
    Undirbúningur af hálfu ríkisstjórnar Íslands að þessu máli hefur verið ófullnægjandi. En eftir á að hyggja þá er ég þakklátur fyrir að hann skuli ekki vera lengra kominn heldur en raun ber vitni vegna þess að það verður verkefni nýs þings og verkefni nýrrar ríkisstjórnar að búa okkur með lagasetningu undir GATT-samstarfið í framtíðinni og það er mjög ólíklegt að hér verði ekki farsælli stjórnarstefna í þessu efni heldur en verið hefur nú um sinn.
    Hæstv. utanrrh. vildi kenna hæstv. forsrh. um það að undirbúningur hefur ekki verið betur á veg kominn eða lengra á veg kominn heldur en raun ber vitni. Það er kannski mannlegt af hæstv. utanrrh. að hann reyni að hnýta eitthvað í hæstv. forsrh. eftir þá meðferð sem hann fékk í góðlátlegri ræðu hæstv. forsrh. fyrr í dag.
    Það er eitt atriði sem ég vil minnast á enn, herra forseti, og er geysilega mikilvægt í þessu sambandi, þó að það sé ekki tekið fram í tillögugreininni, en það er tekið fram í nál., að sjá til þess að halda vel á sjúkdómavörnum. Búfé okkar er með þeim hætti vegna langrar einangrunar að það er ákaflega viðkvæmt fyrir sjúkdómum og af því höfum við dapra og dýrkeypta reynslu, af búfjárpestum sem hafa flust að utan. Ég tel að við þurfum að vanda okkur ákaflega í framtíðinni að hafa þær hömlur á að hingað berist ekki pestir.
    Þingheimur hefur sameinast um þetta mál og jafnvel þó að hæstv. utanrrh. vitnaði þráfaldlega til Kvennalistans, sem ekki kemur til með að greiða þessu máli atkvæði, þá er Kvennalistinn ekki á móti því og það vil ég ítreka og undirstrika sérstaklega.
    Við skulum fara yfir það hvað það er sem þingheimur sameinast um. Það stendur allt saman á þskj. 523. Þingheimur sameinast um það að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar.
    Í öðru lagi sameinast þingheimur um það að hér verði áfram óbreytt skipulag í gildi hvað varðar innflutning landbúnaðarvara þar til lögunum hefur verið breytt með hliðsjón af samningnum. Og eins og ég sagði áðan þá verður það verkefni nýrrar ríkisstjórnar og vonandi tekst vel til með þær lagabreytingar.
    Síðan sameinast þingheimur um að gefa næstu ríkisstjórn nokkra forskrift um hvernig að lagabreytingunum skuli standa þar sem segir: ,,Þær lagabreytingar, þar með taldar tollabreytingar, . . .  `` --- Herra forseti, ég endurtek: ,, . . .  þar með taldar tollabreytingar, skulu gerðar með hliðsjón af GATT-tilboði Íslands til að veita innlendri framleiðslu nauðsynlega vernd.`` Þetta er leiðsögnin um lagabreytingarnar.
    Í fimmta lagi sameinast þingheimur um það að ,,landbrh. verði tryggt forræði um allar`` --- ég endurtek --- ,,allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli þessarar ályktunar.``
    Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið.