Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 16:54:36 (3434)


[16:54]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú gerist það að hv. þm. fer heldur óvirðulegum orðum um þá yfirlýsingu sem formaður þessa starfshóps, ráðuneytisstjórinn í forsrn., lagði á borð með sér í utanrmn. fyrir hönd starfshópsins og segir að illa hafi til tekist og ekkert með það plagg gerandi og þess vegna hafi þeir þurft að taka sig saman um það að bæta heldur betur um. Þetta skjal formannsins sem kynnt var í utanrmn. er með umboði starfshópsins að sjálfsögðu, en það var ekki umsamið skjal. Það er kynnt í umboði nefndarinnar en það er algerlega á ábyrgð formannsins og ( Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.) Það þýðir ekki að nota þetta skjal sem var hugsað af góðum hug og sagt vera nauðsynlegt til þess að greiða fyrir samstöðu í nefndinni og standa nú upp og segja: Þetta var hið versta skjal og ekkert með það gerandi. Og sér í lagi þýðir ekki að nota það til árása eins og hv. 8. þm. Reykn. gerði á embættismenn utanrrn. sem komu þar hvergi nærri.