Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 16:56:04 (3435)


[16:56]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Nú þykir mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Ég verð að rifja upp umræður sem urðu í utanrmn. einmitt um þetta skjal. Þangað mætti formaður nefndarinnar, Ólafur Davíðsson. Við höfðum óskað eftir því að fá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar áður en við afgreiddum GATT-málið úr nefnd og formaður utanrmn. hafði tekið mjög sterklega undir þá beiðni sem ég og fleiri nefndarmenn höfðum sett fram. Það kemur ekki stefnumörkun frá ríkisstjórninni heldur kemur Ólafur Davíðsson á fundinn og dreifir þessari yfirlýsingu sem birt er hér sem fylgiskjal III og ég sagði áðan að væri lítils virði og get endurtekið það ef menn vilja.
    Ég spurði eftir því hvort þetta bæri að skilja sem yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands. Formaður svaraði því til og rakti söguna af vinnu nefndarinnar, að þetta væri yfirlýsing frá samstarfsnefnd fimm ráðuneyta, ekki bara frá Ólafi Davíðssyni heldur frá nefndinni allri sem heild og þeir hefðu haft hver um sig samráð við sína ráðherra um efni yfirlýsingarinnar. Ef Ólafur Davíðsson hefði haft frjálsar hendur þá er ég sannfærður um að hann hefði komið með eitthvað bitastæðara á fund utanrmn. til þess að leggja fyrir okkur en vegna afskipta Alþfl. varð ekki meira úr verki heldur en þetta.