Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 16:58:35 (3436)

[16:58]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um GATT sem slíkt. Ég tel að sá rökstuðningur sem komið hefur fram í málinu í dag sé fullnægjandi og ég tek undir hann allan enda stuðningsmaður þess að fullgilda þennan samning. Ég vil eingöngu fá að eyða örfáum orðum um þá brtt. sem lögð hefur verið fram og ég er ekki alveg fyllilega sáttur við og verð því að tjá hv. þm. Páli Péturssyni það að þingheimur mun ekki sameinast um þessa tillögu því ég fæ ekki betur séð en með þessari brtt. sé verið að færa alræðisvald í þessum málaflokki í hendur landbrh. og það er hlutur sem ég get ekki fyllilega sætt mig við. Það stendur í síðasta málslið brtt.:
    ,,Landbrh. verði tryggt forræði um allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli þessarar ályktunar.``
    Landbrh. fær sem sagt forræði yfir öllum efnislegum ákvörðunum í stjórnkerfinu og ég hlýt að velta því fyrir mér hvað þetta þýðir. Snertir þetta aðra málaflokka en t.d. innflutninginn og tollunina sjálfa sem hér hefur verið til umræðu? Snertir þetta mál eins og heilbrigðismál, hollustuvernd, umhverfismál og aðra slíka hluti? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra reyni að túlka þessa brtt. fyrir mér og þingheimi líka, hvort þetta sé með þessum hætti eða hvað þetta þýði og hverjar afleiðingar slíkrar brtt. séu. Eins og þetta lítur út fyrir mér er verið að færa alræðisvald í hendur landbrh. og við það get ég ekki sætt mig.

    Ég tek nefnilega undir orð hæstv. utanrrh. að ef hlutirnir væru eðlilegir þá ættu þessi mál að vera vistuð í ráðuneytum fjármála og viðskipta. Það má allt eins spyrja sig að því hvort það eigi þá að fara að brjóta upp innflutningsverslunina eins og hér er gert, til að mynda að setja allan iðnvarning undir iðnrn., íþróttavörur undir menntmrn. og þar fram eftir götum. Ég tek þess vegna fyllilega undir orð hæstv. ráðherra um að þetta væri hugsanlega betur komið í fagráðuneytunum en með þeim hætti sem hér er gert.
    Það er minn skilningur að við samþykkt þessarar þáltill. og um áramótin þegar GATT tekur gildi þá upphefjist heimild til þess að flytja inn það sem menn kalla lágmarksaðgang, þau 3% sem hér hefur verið rætt um og ég óska eftir upplýsingum um það hvernig á að standa að slíkum innflutningi. Hvaða kerfi á að vera í gangi við þann innflutning? Á það að vera útboðið sem hæstv. ráðherra nefndi áðan eða lotterí eins og talað var hér um fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan? Eða með hvaða hætti á að standa að þessu? Ég skil það þannig að nú þegar ætti mönnum að vera heimilt að panta inn á móti þessum 3%, strax við fullgildingu á þessum samningi og það eru skilaboð sem verða að komast út til viðskiptalífsins hvort það er heimilt að fara af stað með slíkt. Ef svo er ekki hvernig á þá að taka á þeim aðilum sem hafa skilið það á þann hátt? Eða hvenær á þetta að taka gildi og með hvaða hætti?
    Ég vil einnig fá að vita það sem ég heyrði hér frá hæstv. landbrh.: Er það meiningin að færa þetta á eina hendi, t.d. að Mjólkursamsalan eigi að fara með þetta allt? Þá spyr ég: Hvar er hagur neytenda? Ég minnist þess að enn þann dag í dag er þó frjáls álagning í landinu og henni væri þá í sjálfsvald sett að setja verðið upp í þær hæðir að það yrði engum neytanda til góðs. Það yrði innlendu framleiðslunni til góðs en ekki neytandanum. Ég óska því eftir skýringu við þetta. Auðvitað er afar slæmt að frumvörp og nánari útfærsla liggi ekki fyrir en ég held að línurnar í GATT-samkomulaginu séu nokkuð skýrar þannig að það er kannski ekki eins alvarlegt og mörgum fannst þegar við vorum að ræða um EES.
    Ég tek undir það með hæstv. ráðherra, þó að ég hafi ekki heyrt þau ummæli hans en hér hefur verið vitnað í þau, að þessi brtt. er hálfgert hnoð. En það kemur væntanlega betur í ljós þegar hæstv. ráðherra svarar spurningu minni um þessa tillögu.
    Hér er um að ræða sex ára aðlögun og mig langar líka að spyrja að því hvort tæknilega sé hægt að draga málið um einhvern tiltekinn tíma vegna þessarar aðlögunar, hvort hægt er að draga það að leggja fram frumvörp í ótiltekinn tíma. Og þá einnig: Hvenær er þá hugsunin að leggja fram frumvörp? Eigum við von á að sjá þau í febrúar t.d.? Ef svo er þá er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er hálfgert hnoð. En ég verð að segja það að með þessari tillögu þykir mér framsóknarmönnum á þingi fjölga allhratt og reyndar ískyggilega hratt.
    Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það varðandi verðjöfnunargjöld að landbrh. hefði heimild til að leggja þau á vörur sem jafnframt væru framleiddar hérlendis. Mig langar aðeins að spyrja í framhaldi af því: Ef t.d. væri fluttur inn ostur sem ekki er framleiddur hérlendis er sá innflutningur þá frjáls og óháður eða hvernig yrði tekið á slíkum innflutningi eða sambærilegum innflutningi?
    Hæstv. forseti. Þetta er aðallega það sem ég vildi spyrjast fyrir um. Ég er stuðningsmaður aðildar að þessum samningi og vil að það komi skýrt fram en óska eftir svörum við þeim spurningum sem ég hef borið fram.