Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 17:07:11 (3438)


[17:07]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að heildsalinn hafi ekki tekið yfir frekar en bóndinn hafi oft tekið yfir málflutning ýmissa hv. þm. úr þessum ræðustól á þeim árum sem ég hef setið hér. Ég held að hv. þm. þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að það séu einhverjir eiginhagsmunir sem ráða mínum málflutningi.
    Ég spurðist fyrir um vald ráðherra, það er rétt. Mér fannst ekki koma neitt svar frá hv. þm. um það annað en ég ætti að lesa tillöguna. Tillagan er bara óskýr. Ég spurðist fyrir um ýmsa málaflokka sem með þessu mundu hugsanlega falla undir forræði landbrh. Ég fékk ekki svar við því en ef ég man, ég er ekki með tillöguna hér hjá mér, þá er hv. þm. einn af flm. og honum hefði verið í lófa lagið að svara því

sjálfur úr ræðustólnum. En ég dreg enga dul á það að ég hygg að þessi tillaga hafi verið borin undir hæstv. utanrrh. og honum sé fullljóst út á hvað hún gengur og þess vegna ekkert óeðlilegt við það að inna hann eftir því hver hans skilningur sé á henni. Ég hef engan áhuga á því að heyra hver skilningur formanns utanrmn. er á þessari tillögu, nákvæmlega ekki nokkurn áhuga á að heyra það þó að honum sé auðvitað í sjálfsvald sett hvort hann kemur hér upp og gerir frekari grein fyrir því.
    Hvað atkvæðagreiðsluna varðar þá verð ég að hryggja hv. þm. með því að ég mun greiða atkvæði gegn þessari brtt. en ég mun auðvitað greiða atkvæði með fullgildingu samningsins.