Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 17:23:58 (3447)


[17:23]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. og nál. meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. og nefndin hefur klofnað um málið. Ég flyt hér brtt. meiri hlutans.
    Í fyrsta lagi gerir nefndin þá tillögu við 2. gr. frv. að a- og b-liður falli brott. Þarna var verið að gera tilraun til þess í frv. að skattleggja að einhverju leyti staðaruppbót þeirra sem starfa í utanríkisþjónustunni og í vinnu erlendis á vegum íslenska ríkisins en það hefur verið ákveðið að skoða þetta mál betur og þess vegna er ekki gert ráð fyrir því að þetta verði í lögunum.
    Í annan stað er varðandi 2. gr. gert ráð fyrir því að bæta við því að nú verði heimilt að draga frá tekjum kaup á stofnfjárbréfum í sparisjóðum, sbr. lög nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Það eru sett ákveðin skilyrði fyrir þessum frádrætti sem eru þau að útboð slíkra stofnfjárbréfa verða að vera opin fyrir alla einstaklinga sem eiga lögheimili á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs og eigi sé heimilt að innleysa stofnfjárhlut í tíu ár frá útgáfu.
    Þá eru breytingar við 3. gr. frv. Þar er breytt hugtakinu verktakagreiðslur í verktakasamninga og vísað í 96. gr. vegna framkvæmdarinnar.
    Næsta breyting sem lögð er til er við 7. gr. frv. Þar er fjallað um það að mögulegt sé að setja nánari reglur um útborgun barnabóta, innheimtu ógreiddra barnabóta og skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs. Þar er bætt inn að það megi skuldajafna á móti opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Um framkvæmd þessa skal geta í reglugerð. Þarna er verið að taka á bæði barnabótum, barnabótaauka og skuldajöfnun vaxtabóta.
    Í 10. gr. er því bætt við að framtalsskylda hvíli á lögaðila en sé um bókhaldsskylda aðila að ræða skal í framtalinu fylgja ársreikningur, skv. 1. mgr., en í skráðum félögum er nægilegt að þeir sem hafi heimild til að binda félagið undirriti framtalið.
    Síðast en ekki síst er gerð breyting á gildistökuákvæðinu samkvæmt tillögum nefndarinnar sem fyrst og fremst felur það í sér að ákvæði sem er í e-lið 2. gr. frv. um skattfrelsi húsaleigutekna er látið taka gildi við álagningu tekjuskatts á árinu 1995 vegna tekna á árinu 1994.
    Þetta er í stórum dráttum þær brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur ákveðið að leggja til við frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta frv. er óvenju lítið miðað við það sem oft hefur verið að gerast fyrir jólin í sambandi við ríkisfjármálin og eru tiltölulega litlar breytingar í því. Þess vegna eru brtt. í samræmi við það og taka ekki á mörgum atriðum.
    Frv. er fyrst og fremst ívilnandi fyrir skattgreiðendur og þau atriði sem til skattþyngingar horfa eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis.