Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 20:40:28 (3456)


[20:40]
     Ragnar Arnalds :
    Það meginmarkmið GATT-samningsins að draga úr innflutningshömlum og lækka tolla í viðskiptum ríkja er tvímælalaust jákvætt markmið og kemur sér vel fyrir íslenskt efnahagslíf. Á hinn bóginn er samkeppnisaðstaða íslensks landbúnaðar tvísýn og erfið. Þótt erlendir framleiðendur bjóði hugsanlega lægra verð má aldrei gleyma því að stóraukinn innflutningur búvara á kostnað íslenskrar framleiðslu þýðir aukið atvinnuleysi í landinu, verulegan samdrátt í úrvinnsluiðnaði og minnkandi þjóðartekjur. Ég er ágætlega sáttur við orðalag tillögunnar eins og hún kemur frá hv. utanrmn. Ég minni þó á að allt veltur á útfærslu málsins í löggjöf og í framkvæmd að loknum næstu kosningum til Alþingis. Ef illa er á málum haldið getur illa farið fyrir íslenskum landbúnaði en ef vel er að málum staðið af hálfu nýs þingmeirihluta eftir næstu kosningar ætti hinn nýi GATT-samningur ekki hafa veruleg áhrif til hins verra á íslenskan landbúnað, en hins vegar að bjóða upp á viss sóknarfæri. Í þeirri von að svo verði segi ég já.