Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 21:11:06 (3459)


[21:11]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög ljóst hvað ég er að fara í þessu efni. Ég skýrði það mjög vel við 1. umr. þessa máls og aftur núna. Ég tel að þær 1.500--1.600 millj. kr. sem á að auka persónuafsláttinn um hefðu átt að ganga til tekjulægri hópanna. Hæstv. landbrh. spyr af hverju ég flytji ekki brtt. við þetta mál. Ég hreyfði þessu máli í efh.- og viðskn., fékk ekki undirtektir við það og tel tilgangslaust að flytja það hér. Hins vegar hef ég flutt brtt. sem kosta mjög lítið og skal ekki standa á mér fái ég undirtektir við þær og þær verða samþykktar við 2. umr. þessa máls, ég geri ráð fyrir að þetta muni kosta svona um 150 millj. kr., að flytja brtt. til þess að mæta því sem þetta kostar. En heyri ég undirtektir hjá hæstv. landbrh. við það að ríkisstjórnin sé tilbúin til þess að skoða breytingu á persónuaslættinum þannig að þessi fjárhæð renni til láglaunahópanna þá mun ég auðvitað skoða minn hug í því efni og flytja umsvifalaust brtt. við það ef ég finn að það hafi einhverjar undirtektir hjá ríkisstjórninni en ég hef ekki heyrt það hingað til.