Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 21:30:38 (3463)


[21:30]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil óska eftir því að frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. verði viðstaddur hér í þingsölum til að hlýða ræðu mína. Ég hafði hugsað mér að beina til hans fyrirspurn og ég tel eðlilegt að beina henni til hans sem ábyrgðarmanns málsins af hálfu þingnefndar fremur en að beina fyrirspurninni til fjmrh. sem er ábyrgðarmaður málsins af hálfu framkvæmdarvaldsins, en það fer eins og mönnum er kunnugt ekki með meðferð málsins hér í þinginu. Ég tel því eðlilegt að beina spurningum um málið til frsm. efh.- og viðskn. og vildi óska eftir því að forseti gerði ráðstafanir til þess að hann yrði hér viðstaddur.
    ( Forseti (StB): Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. komi í salinn.)
    Ég þakka forseta fyrir og veit að þingmaðurinn mun koma um hæl þannig að mér er ekkert að vanbúnaði að halda áfram ræðu minni um þetta mál.
    Það hefur verið fjallað nokkuð ítarlega um efnisatriði þessa máls af hálfu talsmanns okkar alþýðubandalagsmanna í þessum málaflokki og er ekki þörf á að bæta miklu þar við af okkar hálfu, en ég vil þó kannski fara nokkrum orðum um einstaka þætti málsins sem mér finnst ástæða til að verði frekar dregnir inn í umræðuna en verið hefur.
    Þar vil ég fyrst minnast á ákvæði frv. um skattalega meðferð á hlutafjárkaupum. Það er alveg rétt sem fram kemur í athugasemd með frv. að hér eru menn að gera breytingu frá því sem áður var búið að ákveða að yrði í náinni framtíð. En hitt er rétt að undirstrika að það er ekki verið að gera neina breytingu frá þeim lögum sem gilda um það efni, lögum nr. 111/1992, fyrir árin 1994 og 1995. Þannig að mér sýnist að það muni ekki reyna á hina efnislegu breytingu í 2. gr. frv. fyrr en með fjárfestingu eða kaupum á hlutabréfum á árinu 1996 og 1997, en þá fyrst muni koma fram breytingin sem er í þessu frv., að hámarkið á því hlutafé sem skapar rétt til endurgreiðslu á tekjuskatti verður áfram 80% af kaupverði í stað þess að lækka niður í 50% eins og það á að gera á árunum 1996 og 1997. Það er í raun því miður þannig þegar maður fer að skoða þessa tillögu, að hér er um að ræða miklu minni breytingu en ætla mátti miðað við kynninguna á henni í upphafi.
    Ég vil rifja það upp að ég var mjög andvígur þeirri breytingu sem gerð var fyrir tveimur árum að lækka skattalegan ávinning af því að fólk keypti eða verði sínu sparifé að einhverju leyti til kaupa á hlutabréfum og afnema þá heimild í áföngum. Ég taldi og tel enn að sú breyting hafi verið afar misheppnuð og misráðin og vænti þess að sú breyting sem hér er lögð til að láta fyrsta áfangann í niðurþrepuninni standa í stað þess að láta þrepunina ganga alla leið og afsláttinn deyja út sé viðurkenning stjórnarliða á því að um hafi verið að ræða vanhugsaða breytingu.
    En það er eitt atriði í brtt. sem mér finnst ástæða til að spyrja eftir. Ég sé ekki um það glöggar skýringar í frv. Það er það skilyrði að til þess að réttur skapist til endurgreiðslu á tekjuskatti í hlutfalli við kaup á hlutabréfum þurfi viðkomandi að eiga hlutabréfin í a.m.k. þrjú ár. Ég spyr: Hvað gerist ef það fyrirtæki sem hlutabréfin voru keypt í verður gjaldþrota innan þess tíma? Þetta er ekki bara fræðilegur möguleiki sem ég er að velta fyrir mér, þetta er raunverulegur möguleiki. Fólk er víða um land að leitast við að halda í gangi atvinnufyrirtækjum eða að setja á fót ný og leggja peninga í þau með því að kaupa hlutabréf jafnvel þó að það sé mjög ótrygg framtíð þessara fyrirtækja þannig að það er mjög raunhæft að um geti verið að ræða . . .


    ( Forseti (StB) : Forseti vill biðja hv. þingmenn í hliðarsal að hafa lágt.)
    Ég þakka forseta, en það er mjög raunhæft að um geti verið að ræða að fyrirtæki lifi ekki þessi þrjú ár þannig að þá spyr ég: Hvað gerist þá? Verður viðkomandi skattgreiðandi að endurgreiða skattafsláttinn sem hann fékk árinu eftir að hann fjárfesti eða verður litið svo á að hann haldi fengnum skattafslætti?
    Ég vil biðja frsm. meiri hluta nefndarinnar að athuga þetta atriði málsins og svara því hér á eftir þegar ég hef lokið máli mínu en mér finnst nokkuð miklu skipta og vera nokkuð mikilvægt fyrir það fyrsta að ákvæðið sé skýrt þannig að mönnum sé ljóst hvernig það á að virka og í öðru lagi að það sé skilið á þann veg eins og ég hefði kosið að fari fyrirtækið í gjaldþrot innan tímamarka, innan þriggja ára, þá verði eftir sem áður látinn standa sá réttur sem viðkomandi skattgreiðandi eða framteljandi hafi áunnið sér til lækkunar á tekjuskatti. Ég tel nauðsynlegt að ganga eftir svörum þessum svo að það fáist á hreint hver skilningur þeirra er sem að málinu standa um þetta atriði.
    Virðulegur forseti. Áður en ég vík að öðrum þáttum í þessu máli, sem ég geri lítillega, vil ég mæla fyrir tveimur brtt. á þskj. 543 sem ég flyt ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni. Þar er um að ræða tvær sjálfstæðar brtt. um ólík efnisatriði sem mér þykir rétt að kynna örfáum orðum.
    Fyrri brtt. er á þann veg að efni til að lagt er til að til vaxtagjalda reiknist ásamt vöxtum og tilgreindum kostnaði af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði einnig kostnaður vegna lána sem námsmaður hefur tekið vegna náms síns. Þar er átt við nám sem er lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs

ísl. námsmanna þannig að það er afmarkað og skilgreint hvaða nám er um að ræða sem gæti skapað rétt til þess að lán sem tekin eru vegna þess láns skapi rétt til vaxtabóta. Af okkar hálfu er gert ráð fyrir því að vaxtagjöld verði skilgreind með sama hætti og gert er með lán af íbúðarhúsnæði þannig að ekki á að vera neinn vafi á því hvernig ber að skilja vaxtagjaldahugtakið varðandi lán vegna náms. Til þess að koma þessari breytingu fram og fyrir í lögunum um tekju- og eignarskatt þá höfum við flm. lagt til að umorða 1. mgr. í c-lið 69. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt. Þá á ég við þann lagatexta sem var samþykktur á síðasta vori, hygg ég að hafi verið, alla vega á síðasta þingi og mun taka gildi á næsta ári.
    Síðari brtt. er að efni til þannig að við leggjum til að þegar svo stendur á hjá framteljanda að hann hefur misst maka sinn þá verði það viðtekin regla að við álagningu eða við ákvörðun á eignarskattsstofni verði hann ákvarðaður á eftirlifandi maka með sama hætti og um hjón væri að ræða, þ.e. við erum að leggja til að framteljandi sem býr t.d. við það að eiga hóflegt íbúðarhúsnæði, skuldilítið eða jafnvel skuldlaust, þurfi ekki að sæta því að fara að borga eignarskatt af eigninni við það eitt að missa maka sinn. Því miður getur það gerst því að þá stendur hann einn að eigninni í stað þess að um tvo sé að ræða eins og er þegar hjón eiga í hlut.
    Árið 1989 var sú breyting gerð á 81. gr. laganna að tekin var upp þessi regla en þó aðeins fyrstu fimm árin eftir lát maka. Við leggjum til að framlengja regluna þannig að hún verði ótímabundin en háð því skilyrði að um sé að ræða eftirlifandi maka sem sitji í óskiptu búi. Með þessu móti teljum við að það sé búið að sjá fyrir með varanlegum hætti hugsanlegum vanda þeirra sem missa maka sinn og búa við þær aðstæður sem greinin gerir ráð fyrir. Það má eiginlega segja að með þessu sé verið að afnema varanlega allar hættur á því að fráfall maka hækki menn upp í sköttum þó að engin breyting verði að öðru leyti og engin breyting á eignum sem réttlæti það.
    Ég vil láta það koma fram vegna umræðna hér á þingi undanfarin ár um svokallaðan ekknaskatt, sem er í annarri grein en þessari, að það er óskylt mál og reyndar tel ég að sá ekknaskattur sem þeir eiga við sem um það mál tala sé í raun ekki eiginlegur eignarskattur heldur stóreignaskattur og er ekki hlynntur því að hann verði afnuminn eins og lagt er til af hálfu stjórnarliða.
    Ég hef lokið við að mæla fyrir þessum brtt., virðulegur forseti, og vil segja það um málið almennt, breytingarnar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, að mér finnst þær bera vott um nokkurt stefnuleysi í skattamálum til langs tíma litið. Menn eru að fikta við breytingar frá einu ári til annars og mér virðist ekki vera nein heildarstefna á bak við hinar árlegu breytingar nema þá að þessu sinni. Sérstaklega er sú breyting mjög áberandi að þær eru ívilnandi gagnvart fólki með háar tekjur og miklar eignir. Það er sú áhersla sem kemur fram skýrast af hálfu stjórnarliða í þessu frv. og út af fyrir sig getur verið góð lýsing á þeirra stefnu en er mjög umdeild og um standa miklar pólitískar deilur og það má segja að þessi efnismeðferð í frv. skerpi að sumu leyti hinar pólitísku línur. Hún gerir það að verkum að fólki verður betur ljóst hverjar eru megináherslur í pólitík stjórnmálaflokkanna, a.m.k. annars vegar þeirra flokka sem standa að þessu, stjórnarflokkanna og hins vegar Alþb. a.m.k. og e.t.v. annarra stjórnarandstöðuflokka líka. En í heildina tekið og horft yfir kjörtímabilið allt þá finnst mér áberandi hvað breytingarnar eru handahófskenndar og eru markaðar mjög skammtímahugsun.
    Annað sem mér finnst mjög áberandi í þessum málum er að láglaunastefna í þjóðfélaginu er mjög ríkjandi og ríkisvaldinu hefur verið beitt fyrir vagninn að mörgu leyti í því skyni að viðhalda láglaunastefnunni. Það er auðvitað pólitískt verkefni þeirra sem munu taka við á næsta ári í landsstjórninni að breyta þessu og koma fram með burðuga launastefnu sem hefur það markmið að hækka eða auka tekjur þeirra sem hafa lágar tekjur. Einn þáttur í þeirri launastefnu verður að fara í gegnum þann frumskóg af bótum sem menn hafa verið að skapa í gegnum árin og tengja við tekjur og eignir og eru því miður orðnar svo margar og innbyrðis hafa áhrif hver á aðra að þær eru farnar að mörgu leyti að virka neikvætt. Það er óhjákvæmilegt að mínu viti að fara í gegnum þessa bótaflokka alla og tengingar þeirra og endurhugsa það kerfi og koma fram með heildstætt tekjuuppbótarkerfi sem auðvitað er fullkomlega eðlilegt að ríkisvaldið hafi, ( GÁ: Hvað með lánskjaravísitöluna?) sérstaklega til að jafna kjör í landinu. Ég get bætt því við vegna innskots að auðvitað er einn þáttur í því að endurskoða þessi kjör að afnema lánskjaravísitölu eða a.m.k. að eyða áhrifum hennar á kauphækkun eins og hún gerir í dag. Það er ekki markmið þeirra sem eru að sækja kjarabætur með kauphækkun að samtímis séu menn að hækka skuldir þeirra hinna sömu sem hækkunarinnar njóta svo að það segir sig sjálft að menn hljóta að endurskoða grundvöll lánskjaravísitölunnar a.m.k. og þrengja hann að nokkru ef þá ekki afnema að fullu.