Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 23:45:48 (3472)

[23:45]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum sem er að finna á þskj. 551 og eru við það frv. sem hér er til 2. umr. Þessar brtt. eru tvær, önnur er við 5. gr. frv. og hún er einföld. Lagt er til að liðurinn 6.2 falli brott en sá liður fjallar um héraðslækna og nær til borgarlæknis annars vegar og héraðslæknisins á Akureyri hins vegar. Það er lagt til að þessi liður falli brott. Efnislega felst í þeirri breytingu ef samþykkt verður að starfsemi þessara embætta verði með sama eða svipuðu sniði og á yfirstandandi ári og mun ég beita mér fyrir því að fjárveitingar verði á þann veg.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að breyting verði á 9. gr. og í stað þeirrar greinar sem nú er 9. gr. komi texti sem er á þskj. 551. Þar segir að 14. gr. laganna, en það eru lög um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, orðist á þennan veg, með leyfi forseta:
    ,,Tekjum af flugvallargjaldi skal einungis varið til framkvæmda í flugmálum, svo og snjómoksturs og viðhalds flugvalla og tækja.``
    Hér er verið að leggja til að sú breyting verði gerð að í stað orðanna ,,rekstrar flugvalla og framkvæmda í flugmálum`` sé reksturinn skilgreindur nákvæmar en gert er í frv. og nær hann nú til snjómoksturs og viðhalds flugvalla og tækja. Ég vil taka það fram að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að undirbúa breytingu á þáltill. um flugmálaáætlun á þann veg að sú tala sem í henni er ætluð til rekstrar flugvalla á næsta ári breytist úr 70 millj. kr. í 40 millj. kr. Þetta þýðir að einungis 40 millj. kr. verður varið til rekstrar en afgangi teknanna verði varið til stofnkostnaðar eins og verið hefur á þessu og umliðnum árum.
    Hv. þm. Svavar Gestsson flutti ræðu fyrr í þessari umræðu og varpaði fram nokkrum spurningum sem ég mun leitast við að svara í stuttu máli. Í fyrsta lagi var spurt hvort skerða ætti framkvæmdafé Framkvæmdasjóðs fatlaðra samkvæmt fjárlagatölu eða niðurstöðutölu eftir að fyrir liggur hve miklir fjármunir fást úr Erfðafjársjóði. Ég vil taka það fram að það er ekki ætlunin að skerða fjárframlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og sú skerðing sem gengur til rekstrar er miðuð við fjárlagatöluna. Þetta hefur reyndar komið fram í umræðum áður en er endurtekið hér. Þess ber að geta að sjálfsögðu að um óvísar tekjur er að ræða. Stundum kann þannig að fara að tekjur Erfðafjársjóðs séu lægri en fjárlagatalan. Ég vek athygli á því en þetta er þá einn af örfáum sköttum sem ekki heyrir undir fjmrn. heldur heyrir hann undir

félmrh. og ráðuneytið og félmrh. gefur út reglugerð.
    Hv. þm. vék að málum sem ég hef þegar minnst á í sambandi við brtt. en síðan ræddi hann um sérstakan eignarskatt sem getið er um í II. kafla þessa frv., þ.e. 11. gr. frv. og sagði að í raun legðist lítið fyrir kappann og átti þá við ríkisstjórnina því að þarna væri verið að taka 40 millj. kr. af sérstökum eignarskatti og færa til rekstrar. Af þessu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram:
    Í fyrsta lagi voru lagðir talsvert meiri fjármunum til Þjóðarbókhlöðu á yfirstandandi ári en efni stóðu til og var dregið á tekjur næsta árs.
    Í öðru lagi er ljóst að til Þjóðarbókhlöðunnar eða Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns renna á næsta ári samkvæmt fjárlögum 40 millj. kr. umfram það sem gekk til beggja þessara safna á yfirstandandi ári.
    Þessu til viðbótar hefur síðan Háskóla Íslands verið lofað, og það kemur fram í fjárlögum, ákveðinni peningaupphæð. Ef ég man rétt þá eru það 100 millj. kr. eða 90--100 millj. kr. og þar af var ætlunin að 35--40 millj. kr. gengju til rekstrar þessa bókasafns. Þetta fer ég með eftir minni en ég heyri að tveir hv. fjárlaganefndarmenn leiðrétta mig og segja að skiptingin sé 70:30. Það sem skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er að það fara 70 millj. kr. til rekstrar Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns umfram það sem rennur til rekstrar þessara beggja bókasafna á yfirstandandi ári. Það er afar brýnt að þetta komist til skila vegna þess að því hefur verið haldið fram að skorið sé við nögl þegar fjármunir eru reiddir af hendi til þessa mikilvæga safns.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, vegna orða hv. þm. um þær brtt. sem liggja fyrir frá meiri hluta hv. efh.- og viðskn. segja að í 1. brtt. b-lið er sagt að skattstjórum sé skylt að láta Atvinnuleysistryggingasjóði í té upplýsingar. Hv. þm. gagnrýndi þetta en það ber að taka fram að það er skylda samkvæmt þessari grein að farið sé með þessar upplýsingar sem trúnaðarmál og það þýðir að sjálfsögðu að sömu reglur gilda um þá sem handfjalla þessi mál af hálfu Atvinnuleysistryggingasjóðs sem er opinber sjóður og um þá sem vinna á skattstofum. Það skal gæta trúnaðar. Þetta verður tekið fram.
    Varðandi c-lið a skal þess getið að hér er verið að sækja um eftiráheimild vegna svokallaðra eingreiðslna sem fylgdu kjarasamningum á yfirstandandi ári. Loks vil ég geta þess að í 6. gr. c-lið b er verið að lögfesta þá reglu sem í gildi hefur verið um samskipti sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þessi regla hefur stundum verið kölluð króna á móti krónu. Með öðrum orðum, þegar sveitarfélag efnir til atvinnuskapandi aðgerða leggur sjóðurinn fram krónu á móti krónu, enda sé verið að taka fólk út af atvinnuleysisskrá. Ég get ekki orðað þetta nákvæmar hér en eins og kemur fram þá er ætlunin að setja um þetta sérstakar reglur í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga enda er þessi brtt. flutt vegna viðræðna sem hafa átt sér stað milli ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Virðulegi forseti. Það eru held ég ekki fleiri atriði sem hv. þm. minntist á og ég tel ástæðu til þess að fjalla frekar um hérna nema frekara tilefni gefist.