Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 00:01:22 (3477)


[00:01]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 545 við brtt. á þskj. 451 um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Auk mín er flm. Finnur Ingólfsson.
    Það þarf ekki langar skýringar við þessa brtt. þar sem í nefndaráliti um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá heilbr.- og trn. voru menn sammála um eftirfarandi skýringu: Vegna nýrra laga um húsaleigubætur sem ganga í gildi 1. janúar 1995 er nauðsynlegt að tryggja að húsaleigubætur hafi ekki áhrif til lækkunar á bætur almannatrygginga. Þær breytingar þarf að gera á 11. og 12. gr. laganna á bótum félagslegrar aðstoðar að húsaleigubótum sé bætt við upptalningu þeirra tekna sem ekki skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyris. Lagt er til að kveðið verði á um að með bótum félagslegrar aðstoðar sé annars vegar átt við bætur sem samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, og hins vegar fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og þannig tryggt að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skerði ekki bætur almannatrygginga á sama hátt og gilt hefur hingað til.
    Í meðförum hv. efh.- og viðskn. þynntist þetta allverulega út þannig að við óttumst að verði þessi brtt. ekki samþykkt þá muni þessar bætur skerðast.
    Í öðru lagi er c-liður þessarar brtt. nýr liður og hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir sem njóta bóta samkvæmt ákvæði þessu skulu undanþegnir greiðslu afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem heilbr.- og trmrh. setur.``
    Þegar húsaleigubæturnar flytjast yfir til sveitarfélaganna þá eru það nokkrir aðilar sem munu sjálfkrafa missa þennan rétt um frítt afnotagjald af útvarpi og sjónvarpi. Það má segja að það hefði verið eðlilegra að breyta útvarpslögunum, en þetta er einfaldara á þennan hátt og gengur fljótar fyrir sig og ég trúi

ekki öðru en menn horfi á þetta með jákvæðum augum. Þetta eru ekki margir aðilar en þessa aðila munar mjög mikið um ef þeir missa þennan rétt til frís afnotagjalds sem er rúmlega 2.000 kr. á mánuði.
    Ég held að ég þurfi ekki að hafa mikið fleiri orð um þessar brtt. en ég ætla í leiðinni að gleðjast yfir því að mér skilst að menn séu hættir að ræða um að leggja niður héraðslæknisembættið í Reykjavík og í Norðurl. e. Mér skilst að það sé samkomulag um það málefni og ég hlýt að fagna því.