Mat á sláturafurðum

73. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:10:34 (3486)



[01:10]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustólinn til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. en vil vekja sérstaka athygli hv. þm. á því að þarna er á ferðinni frv. sem kemur fram til þess að koma til móts við kröfur og óskir erlendis frá um eftirlit og að það sé staðið eðlilega að því hér hjá okkur. Þegar gerðar voru breytingar á lögunum um eftirlit með fiskafurðum fyrr á þessu kjörtímabili þá bentum við stjórnarandstæðingar á að það fyrirkomulag sem þá var upp tekið með skoðunarstofunum og samningum þeirra við fiskverkendur og útgerðarmenn, sem er svipað fyrirkomulag og hér er verið að leggja af með þessari tillögu, mundi ekki ganga. Hér er því lýst að á undanförnum árum, er sagt hér í grg., hafi komið fram athugasemdir frá Evrópusambandinu til dæmis um það fyrirkomulag sem gildir um meðferð sláturafurða.
    Það hlýtur að vekja sérstaka athygli að það var ekki hægt að fá hv. stjórnarþingmenn til þess að skilja það að það fyrirkomulag sem komið var á með skoðunarstofunum og samningum milli skoðunarstofanna og útgerðaraðilanna og fiskverkandanna í landinu gæti ekki gengið, einfaldlega vegna þess að þar væru hagsmunaárekstrar á ferðinni sem eru af nákvæmlega sama tagi og menn eru að viðurkenna að þurfi að taka af með þessu frv.
    Ég get ekki komist hjá því að vekja athygli á þessu og spyrja eftir því, ef einhver treystir sér til þess af hv. stjórnarþingmönnum að upplýsa það, hvort það standi ekki til að gera sams konar breytingar vegna eftirlits með sjávarafurðum.