Brunatryggingar

73. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:25:02 (3494)


[01:25]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Satt að segja er það mjög sérkennilegt að þrýsta þessu máli fram með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn gerir núna. Fyrir því eru í raun og veru engin efnisleg rök. Það eru hins vegar pólitísk rök fyrir því. Pólitísk rök ríkisstjórnarinnar og hæstv. heilbrrh. sem eru þau að hafa sett reglugerð sl. sumar um þetta umsýslugjald, sem kveðið er á um í 1. gr. þessa frv., staflið d, en fyrir þessu umsýslugjaldi var mjög vafasöm ef nokkur laga heimild. Og það sem menn eru að gera hér er að þrýsta á um að það verði skotið lögum, þó seint sé, undir reglugerð sem sett var í sumar. Ég segi alveg eins og er, ég tel þetta ekki góð vinnubrögð, en út af fyrir sig sýnist mér að málið liggi þannig að verulegur hluti þingsins, bæði í stjórn og jafnvel í stjórnarandstöðuliði líka, telji að það sé rétt að ljúka málinu með þessum hætti og þá verður það svo að vera.
    Ég vil líka láta það koma fram, hæstv. forseti, að ég tel það mjög skrýtið þegar mál hafa þróast þannig að við höfum sett hér nýja þróaða vátryggingalöggjöf sem gengur út á það að starfsemi tryggingafélaganna verði sett á hreinan samkeppnisgrundvöll þannig að tryggingafélögin eiga að keppa um sín viðskipti á almennum og opnum markaði. Þegar búið er að setja slík lög, rétt nýlega búið að setja slík lög, þá hlaupa hinir miklu leiðtogar og postular viðskiptafrelsisins í landinu til og biðja stóru mömmu, ríkið, um að passa sig með því að fara undir regnhlíf eða skerm Fasteignamats ríkisins með í raun og veru eftirlit og yfirstjórn brunabótamats í landinu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég kann ekki að meta þessi vinnubrögð úr því að menn eru á annað borð komnir inn á þá braut að setja tryggingafélögin almennt séð á samkeppnisgrundvöll, eins og gert er ráð fyrir í samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég teldi langeðlilegast að fyrsta virðing til vátryggingamats yrði hjá tryggingafélögunum eins og hún hefur verið og að Fasteignamatið greiði síðan fyrir aðgang að þeim upplýsingum ef Fasteignamatið þarf á því að halda. Það treysta menn sér ekki til að gera og þess vegna tel ég út af fyrir sig að miðað við allar aðstæður sé það til bóta að hæstv. heilbrrh. hefur lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að Fasteignamati ríkisins verði heimilt að semja við þriðja aðila og þá væntanlega tryggingafélög, um það að þau annist fyrstu virðingu til vátryggingamats fyrir hönd Fasteignamats ríkisins þannig að það valdi hvorki húseiganda eða vátryggingafélögunum sérstökum umframkostnaði. Það er út af fyrir sig í áttina og ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þá yfirlýsingu og ég tel hana til bóta og ég tek það fram að hún gerir mér kleift persónulega að sitja hjá við a-, b- og c-lið 1. gr. frv., en hins vegar get ég ómögulega látið það hjá líða að greiða atkvæði gegn d-lið 1. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég vil líka segja það að ég hefði kosið að ræða þetta mikið meira og það er óskaplega slæmt að þurfa að afgreiða tiltölulega flókin tæknileg mál eins og þetta að nóttu til rétt áður en á að fara að fresta þinginu. Út af fyrir sig er það ekkert nýtt og það er svo sem ekkert hægt að fjargviðrast yfir því að það sé mikið verra núna heldur en stundum áður. Ég minnist þess þegar menn voru hér vansvefta að afgreiða fjarskiptalög eitt vorið, 150 greina fjarskiptalög, klukkan að ganga sex um morgun. Það eru ekki gáfuleg vinnubrögð satt best að segja. Þetta mál og afgreiðsla þess núna minnir mig á það, því miður, og ég tel að það sé slæmt.
    Ég vil líka segja það, hæstv. forseti, að mér finnst það nokkuð skrýtið að festa það í lög, eins og gert er í 2. gr. þessa frv., eins og stendur hér, með leyfi forseta:
    ,,Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni.``
    Hvert er þá orðið okkar starf í 600 sumur eða 6 a.m.k., þegar menn hafa verið að tala um að það eigi að beita faglegum vinnubrögðum, menn eigi að ná lendingu á faglegum forsendum, semja um hlutina miðað við aðstæður í hverju tilviki, en þá finnur löggjafinn allt í einu upp á því að það eigi að draga frá ekki meira og ekki minna en akkúrat 15%. Þetta er ferlega vond speki, held ég, hæstv. forseti. ( Gripið fram í: Það er búið að vera svona allan þennan tímann.) Það skiptir engu máli nákvæmlega þetta sem hv. formaður nefndarinnar segir, það er búið vera svona allan þennan tíma. Hvaða tíma? Allt annan tíma, í löggjöf um vátryggingastarfsemi sem við erum að tala um hér núna? Ég held að menn hefðu átt að skoða þessa grein mikið betur, en ég ætla ekki að segja margt fleira um þetta núna. Ég tel að við hefðum þurft meiri tíma til að fara yfir þetta mál, hæstv. forseti.