Frestun á fundum Alþingis

75. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:54:29 (3505)


[01:54]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég hef oft áður komið í tilefni af sams konar tillögu og lýst því að ég lít ekki svo á að þörf sé á að Alþingi samþykki slíka tillögu þó að gert verði hlé á fundum Alþingis í þann tíma sem tillagan gerir ráð fyrir. Ég vil ekki túlka 23. gr. stjórnarskrárinnar með þeim hætti að það sé nauðsynlegt. Ég tel að forseti Alþingis geti frestað fundum eftir breytingu á stjórnarskránni. Að því er varðar Alþingi þá situr þing allt árið og ef þarf að kalla saman þá er ekkert því til fyrirstöðu að gera það með mjög stuttum fyrirvara. Þetta hlé hefur stundum verið notað til þess að setja bráðabirgðalög og ég tel að það komi ekki til greina að nota slíkt hlé eins og hér er gert ráð fyrir að setja bráðabirgðalög enda vænti ég þess að ríkisstjórnin hafi ekkert slíkt í huga. Ég vil endurtaka að ég tel að þessi tillaga sé óþörf.
    Eitt kemur mér þó á óvart í tillögunni og það er að hæstv. forsrh. skuli gera tillögu um að þingið verði kvatt saman eigi síðar en 25. jan. 1995. Í forsætisnefnd var samþykkt að Alþingi kæmi saman 23. jan. þannig að þarna er forsrh. að gera tillögu um breytingu. Ég er út af fyrir sig ekkert ósammála breytingunni, sem hæstv. forsrh. gerir ráð fyrir, en það kemur mér nokkuð á óvart að hann skuli gera tillögu þar um sem forsætisnefnd hefur ekki fjallað um.