Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 15:10:01 (3798)


[15:10]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Þetta er 139. mál þingsins á þskj. 146 og er flutt af þingmönnum úr öllum þingflokkum. Ég er þar fyrsti flm. en ásamt mér eru það hv. eftirtaldir þm.: Sturla Böðvarsson, Kristín Einarsdóttir, Halldór Ásgrímsson og Sigbjörn Gunnarsson.
    Þáltill. sama efnis var flutt á síðasta þingi, 117. löggjafarþingi, og bar þá heitið ,,Tillaga til þingsályktunar um Norðurstofnun á Akureyri.`` Ég stóð þá einn að flutningi tillögunnar sem fékk umfjöllun í hv. umhvn. og leitað var umsagna um hana. Nú er tillagan flutt undir öðru heiti með nokkrum breytingum, efnislega þó ekki stórum, og við hafa bæst flutningsmenn úr öllum þingflokkum á Alþingi. Ég vænti að sú staðreynd að tillagan kemur nú fram öðru sinni með svo breiðum stuðningi leiði til þess að mál þetta fái umfjöllun í þingnefnd og hugsanlega og að minni ósk væntanlega afgreiðslu fyrir þinglok. Ég legg til að eftir þessa umræðu verði tillögunni vísað til hv. umhvn. sem fjallaði um hana á síðasta þingi.
    Ég tel rétt, virðulegur forseti, að fara aðeins yfir efni tillögunnar en tillögutextinn er svo hljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að sett verði á fót á Akureyri stofnun um heimskautamálefni sem kennd verði við Vilhjálm Stefánsson og hafi það hlutverk að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku Íslendinga í málum er varða heimskautssvæðið.
    Meðal verkefna norðurstofnunar`` stendur nú með litlum staf þannig að því heiti er haldið í texta þáltill., ,,verði eftirfarandi:
    að vera íslensk miðstöð fyrir norðursamstarf og rannsóknir;
    að safna og miðla upplýsingum um heimskautamálefni;
    að eiga hlut að og skipuleggja rannsóknir sem m.a. varða umhverfisvernd í norðurhöfum;
    að samræma innlenda og alþjóðlega þátttöku Íslendinga í rannsóknum á norðurslóð;
    að annast tengsl við hliðstæðar miðstöðvar og stofnanir erlendis og laða þær til samstarfs;
    að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og aðra um norðurmálefni.
    Stofnunin heyri undir umhvrn. og verði að meginhluta kostuð af íslenska ríkinu. Hún skal rækta tengsl og samvinnu við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir.
    Sett verði á fót föst samvinnunefnd um norðurmálefni, skipuð fulltrúum tilnefndum af fulltrúum Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Veðurstofu Íslands, Rannsóknarráði Íslands, svo og formanni sem umhvrh. skipi án tilnefningar. Samvinnunefndin velji tvo úr sínum hópi í stjórn stofnunar Vilhjálms Stefánssonar auk formanns. Miðað verði við að stofnunin hefji starfsemi í ársbyrjun 1996.``
    Eins og þessi tillaga sem ég hef hér lesið ber vott um þá er hún tvíþætt, má segja, þar sem gert er ráð fyrir umræddri stofnun sem verði staðsett á Akureyri, en í öðru lagi að sett verð á fót föst samvinnunefnd um norðurmálefni skipuð fulltrúum tiltekinna stofnana, rannsóknastofnana og háskóla, og að úr samvinnunefndinni verði valin þriggja manna stjórn og formaður sé hinn sami í samvinnunefnd og stjórn stofnunarinnar. Í greinargerð með tillögunni er farið vítt yfir sviðið. Þar er rakin staða norðurmálefna á alþjóðavísu, alþjóðlegt samstarf á þessu sviði og þróun þess og þátttaka Íslands í þessum málefnum. Síðan er í greinargerð með þáltill. dregin fram helstu verkefni íslenskrar norðurstofnunar eins og þau eru fyrirhuguð að mati flm. sem og staðsetning stofnunarinnar og umfang. Í þessari greinargerð held ég að saman séu dregin með víðtækari hætti upplýsingar um stöðu þessara mála en hafa verið aðgengileg almenningi til þessa og þannig sé að því nokkur fengur að greinargerð er þetta viðamikil.
    Það hefur verið aukið við greinargerð frá því sem var á síðasta þingi og tekið tillit m.a. til ábendinga sem fram hafa komið um þessi efni, þar á meðal úr umsögn sem barst frá Halldóri Þorgeirssyni sem hefur sinnt þessum málefnum og verið þátttakandi í þeim. Það er að finna í fyrsta þætti greinargerðar þar sem vikið er að rannsóknarviðfangsefnum á norðurslóðum sem tengjast hnattrænum umhverfisbreytingum á einn eða annan hátt. Þar er einnig vikið að skýrslu sem fram kom frá umhvrn. sem afurð starfshóps undir nafninu Efling umhverfisrannsókna á Norður-Atlantshafi og var gefin út í desember 1993.
    Í tillögunni endurfluttri er gerð tillaga um breytingu á heiti stofnunarinnar og tengja hana við nafn Vilhjálms Stefánssonar. Það er gert eftir ábendingum sem 1. flm. bárust um þetta efni. Vissulega var áður vikið að Vilhjálmi Stefánssyni landkönnuði í greinargerð tillögunnar á fyrra þingi en hér er gengið lengra og tekið undir þá hugmynd að tengja nafn stofnunarinnar við nafn þessa landkönnuðar sem ávann sér heimsfrægð fyrir rannsóknir á norðlægum heimskautalöndum á sínum tíma. Vilhjálmur var ættaður af Norðurlandi en foreldrar hans, Jóhann Stefánsson frá Svalbarðsströnd og Ingibjörg Jóhannesdóttir frá Skagafirði, fluttust til Vesturheims 1876 og þar fæddist Vilhjálmur í Norður-Dakóta 3. nóv. 1879. Hér ætla ég ekki að víkja frekar að víðtækum rannsóknum hans á norðurslóðum en fyrir þá vinnu alla gat hann sér heimsfrægð og nafn hans er enn stórt á þessu sviði í umræðu og skrifum um þessi mál og ég er ekki í vafa um að það gæti orðið málefninu til ávinnings að kenna þessa stofnun, sem væntanlega verður að veruleika áður en langur tími líður, við nafn Vilhjálms Stefánssonar. Á ensku gæti stofnunin kallast Vilhjálmur Stefánsson Artic Institute.
    Í greinargerð með tillögunni um staðsetningu og umfang er vikið að gildi slíkrar stofnunar og rannsókna á hennar vegum fyrir okkur Íslendinga. Það er einnig vikið að því að sjálfsagt sé að líta á hana sem landsstofnun og hún yrði kostuð af framlögum úr sameiginlegum sjóði. Fljótlega ætti stofnunin að geta aflað nokkurra tekna fyrir hagnýta þjónustu, svo og fyrir útsend verkefni. Tilkoma slíkrar stofnunar ætti að greiða fyrir samstarfi innlendra aðila er láta sig heimskautamálefni varða, auðvelda mjög samstarf við erlendar rannsóknastofnanir og því mundi vafalaust fylgja þátttaka erlendis frá í fjármögnun ýmissa verkefna. Í greinargerð segir, með leyfi forseta:
    ,,Eðlilega verður spurt hver þurfi að vera stærð slíkrar stofnunar í byrjun og um umfang starfseminnar, m.a. vegna áætlunar um stofn- og rekstrarkostnað. Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða um slík atriði en þau mundu skýrast við þann undirbúning sem tillagan gerðir ráð fyrir.``
    Sett er fram dæmi miðað við það að við stofnunina störfuðu sex manns og tiltekið húsnæði aðeins til þess að fá hugmynd um það hver kostnaður væri fyrir stofnun af þeirri stærð, en það segir einnig:
    ,,Vissulega er ekki útilokað að hefja starfsemi norðurstofnunarinnar innan þrengri ramma en slíkt þarf að skýrast við frekari undirbúning.``
    Þá segir einnig í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Þá gæti einnig komið til greina að innlendar rannsóknastofnanir leggi norðurstofnuninni til verkefni og fjármagn og hún verði eins konar sameignarstofnun þeirra og ríkisins. Félli það vel að hugmyndinni um samvinnunefnd rannsóknastofnana sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Einnig gæti komið til álita að gera samstarfssamning milli stofnunarinnar og Háskólans á Akureyri með hliðsjón af samningum sem gerðir hafa verið milli háskólans og nokkurra rannsóknastofnana.``
    Það er auðvitað ekki vafamál að tilkoma stofnunar sem þessarar gæti orðið norðurrannsóknum og þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi til verulegs framdráttar. Einnig að það rannsókna- og vísindaumhverfi sem á Akureyri er til staðar og er þar í þróun og uppbyggingu mundi njóta gagns af tilkomu slíkrar stofnunar og þar yrði um gagnkvæmni að ræða. Mjög athyglisverð þróun hefur verið í gangi einmitt á milli Háskólans á Akureyri við rannsóknastofnanir eins og Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnun um samstarf á sviði rannsókna, sameiginleg afnot af húsnæði og ráðningu sérfræðinga sem hafa kennsluskyldu við háskólann en rannsóknaskyldu við viðkomandi stofnanir. Slík tilhögun gæti vissulega komið til greina í sambandi við stofnsetningu þeirrar rannsóknastofnunar sem hér er gert ráð fyrir, stofnunar sem er ætlað að vera miðstöð fyrir heimskautarannsóknir en langt frá því að hún mundi framkvæma þær í einu og öllu. Þvert á móti er hér gert ráð fyrir þverfaglegum tökum þessara mála og tengsl við allar þær mörgu stofnanir í landinu sem hafa með einhverjum hætti með slíkar rannsóknir að gera, beint eða óbeint, og tillagan um samvinnunefnd þeirra helstu stofnana á þessu sviði sem koma nálægt slíku er einmitt hluti af tillögunni.

    Ég held líka að við Íslendingar þurfum að hugsa til þess sem hefur verið að gerast í Norðurhöfum og réttarstöðu okkar á því sviði, bæði varðandi lífrænar auðlindir en einnig ólífrænar. Reynsla síðustu ára m.a. ætti að vera okkur hvatning til þess að stíga það skref fyrr en seinna sem hér er gert ráð fyrir, að fá samtengingu á þau málefni sem varða norðurslóðir. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að fjárhagslega mundum við innan tíðar draga björg í bú utan að með þátttöku útlendinga, erlendra rannsóknaraðila í margháttuðum verkefnum sem við gætum tengst og þar sem stofnun sem þessi gæti átt verulegan hlut að máli að koma á slíku samstarfi umfram það sem þegar er í gangi. Í greinargerð með tillögunni hefur verið tekinn upp nú við endurflutning viðbótarþáttur sem varðar norðurrannsóknir á vegum Evrópusambandsins þar sem vísað er til þess sem er að gerast á vegum aðildarríkja þess og þeim rannsóknarþáttum tengjast Íslendingar með vissum hætti eins og þar er um getið. Er auðvitað sjálfsagt að hagnýta sér það og tengja þessa væntanlegu stofnun þegar hún yrði að veruleika við rannsóknir sem fram fara alþjóðlega einnig að því er varðar Evrópusambandið.
    Ég vil, virðulegur forseti, um leið og ég ítreka og þakka í rauninni stuðning þeirra þingmanna sem gerst hafa meðflytjendur þessa máls og góða undirtekt við þetta mál, bæði á síðasta þingi og eins við undirbúning að endurflutningi hafa yfir síðustu orð úr greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Nú um skeið hafa forráðamenn þjóða í norðanverðri Evrópu litið mest í suðurátt og eru Íslendingar í þeim hópi. Mál er að horfa til fleiri átta og þar er norðrið nærtækt og örlagavaldur í lífi þjóðarinnar fyrr og síðar. Brýnt er að efla þekkingu okkar á norðurslóðum til að geta stuðlað að sjálfbærri þróun á þessu svæði sem miklu varðar um afkomu Íslendinga.``