Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 17:29:29 (3816)


[17:29]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var tvennt í máli hæstv. umhvrh. sem ég vildi koma að í andsvari. Það er í fyrsta lagi spurningin um viðhald varnarvirkja. Það er alveg rétt að hér er verið í frv. að taka á því máli með ákveðnum hætti. En það var raunar eitt af því sem ég hugðist gera athugasemd við en kom ekki að hér áðan tímans vegna. Mér er til efs að það sé skynsamlegt að hafa hlutdeild ofanflóðasjóðs svo lága sem þarna um ræðir, 60%, hvort ekki þurfi að endurskoða mörkin einnig þar vegna þess að þessi trassaskapur getur verið tilkominn af fjárskorti og erfiðleikum, togstreitunni um peningana. Ég bið um að þetta verði athugað.
    Í öðru lagi þetta með skipulagið og staðfestingu skipulags. Ég held að það hafi orðið ákveðin gleymska þegar skipulagmálin voru færð frá félmrn. yfir til umhvrn. Þá er í rauninni allt sem varðar skipulag komið á hendur umhvrh. og viss atriði úr lögunum sem hér er verið að endurskoða og gera tillögu um breytingar á liggja alveg undir félmrh., þar á meðal matið á hvað séu hættusvæði. Það er auðvitað ákvörðun sem á að tengjast skipulagi og skipulagsyfirvaldinu og hefur einfaldlega að því er mér sýnist gleymst að flytja það mál frá félmrh. yfir til umhvrh. þegar skipulagsmálin eru færð til. Ég held að það hljóti að liggja þannig í því.
    Svo vil ég aðeins að endingu segja, virðulegur forseti: Við þurfum að byggja upp þekkingu í landinu sjálfu á þessum málum. Sjálfsagt að kalla til útlendinga og heyra álit þeirra en við verðum að móta stefnu okkar til þessara mála og nota hæfileikafólk okkar á þessu sviði til að ráða ráðum og einnig til að fá undirstöður undir það pólitíska áhættumat sem hæstv. ráðherra var að vísa til hér áðan.