Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:59:38 (3856)


[12:59]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nú að koma hér fram einn daginn af öðrum að innan Framsfl. er kominn upp alveg nýr frelsari sem hefur algerlega óbundnar hendur af gerðum flokksins og viðhorfum forustunnar og boðar gull og gleðitíð á hverju sviðinu af öðru. Þetta gerðist í gær þegar hv. þm. fór hér upp með umræðu utan dagskrár og réðist harkalega að því kerfi sem Framsfl. hefur njörvað niður í sambandi við fiskveiðistjórnun og núna hentar hv. þm. að koma upp og boða gull og gleðitíð í landbúnaði bara ef Framsfl. fái að komast til valda og áhrifa. Hann er ansi fljótur að gleyma og er tiltölulega tillitslaus gagnvart sínum samflokksmönnum og þar með þingmönnum úr eigin kjördæmi. Hver man ekki eftir því hver var landbrh. 1983--1988? Hvar man ekki eftir því hver fór með landbúnaðarmál frá 1971 og tók við af Ingólfi Jónssyni þeirri stefnu sem hér var nefnd áðan og var samfellt til 1979 í landbrn.? Það er satt að segja, virðulegur forseti, með slíkum fádæmum þegar þingmaður úr landbúnaðarkjördæmi á Suðurlandi kemur upp og það hefur fennt svona gersamlega fyrir alla glugga þegar litið til fortíðar. Nú eiga menn bara að gleyma Framsfl. og hlut hans í landbúnaðarmálum á þessu tímabili þegar grunnurinn var lagður að búmarkskerfinu á sínum tíma, þegar kvótakerfið var njörvað niður, handónýtt kerfi í báðum tilvikum og flokkur sem streittist við það með Sjálfstfl. ár eftir ár og áratug eftir áratug að standa fastur í sambandi við kerfisbreytingu í landbúnaði sem var auðvitað löngu nauðsynleg til ákveðinnar aðlögunar og tekið var á með búvörusamningnum af ráðherra Alþb. í landbúnaðarmálum.