Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:56:48 (3865)


[13:56]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þm. sem hér talaði um að það er mikil þörf á því að efla nýsköpun í sveitum landsins og fjölga þar atvinnumöguleikum og þar þarf sannarlega að gera betur en gert hefur verið.
    En það er tvennt í ræðu hv. þm. sem ég vildi gera smáathugasemdir við. Það er í fyrsta lagi þar sem hún kom að því að hér rynni óeðlilega mikið fjármagn af opinberri hálfu til stuðnings við landbúnaðinn hjá okkur og hitt atriðið varðaði spurninguna um gerð samnings í lok kjörtímabils. Það er nú svo að ég held að ef grannt er skoðað sé stuðningur við íslenskan landbúnað í rauninni ekki meiri en hægt er að rökstyðja þó að vissulega sé þörf á því að reyna að ná slíkum stuðningi niður með skynsamlegum aðgerðum og með búvörusamningnum var stigið verulega stórt skref í þá átt. Ég held að hv. þm. ættu að líta til grannlanda, m.a. til Evrópusambandsins og hvernig þar er staðið að málum í sambandi við það og ekkert er óeðlilegt þó að stutt sé við grundvallaratvinnugrein eins og landbúnaðinn þó að deila megi um hvaða aðferðum er beitt í þeim efnum. Þrýstingurinn af hálfu neytenda á lægra vöruverð á sínar skýringar og er eðlilegur út af fyrir sig en þó ber að gjalda varhug við því að einblína ekki á slíkt og öll erum við neytendur, bændur sem aðrir í þessu landi.
    Hitt atriðið, virðulegi forseti, aðeins eitt orð um það. Ég tel að samningur sem gerður er af réttu stjórnvaldi við hagsmunasamtök eins og bændasamtökin sé fullgildur á þeim tíma sem markar hann og út af fyrir sig sé ekki við því að búast að ríkisstjórn nái því á fyrsta starfsári síns starfstíma að gera heildstæðan samning. Þess vegna átti það sínar skýringar að þessi samningur var gerður í lok kjörtímabils og hann heldur auðvitað fullu gildi og skuldbindur þá ríkisstjórn sem við tekur á meðan hún segir honum ekki upp.