Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:28:31 (3893)


[15:28]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hafa þegar orðið allmiklar umræður af tilefni þeirrar skýrslu sem hér er rædd og það er sannarlega mjög góðra gjalda vert því að það er mikil þörf á því að ræða stöðu landbúnaðarins á grundvelli þess samnings sem gerður var 1991 og mjög eðlilegt að inn í þær umræður fléttist ýmislegt sem tengist framtíðinni því að það er auðvitað þangað sem við þurfum að horfa meira en til fortíðar þó að af henni beri að reyna að læra.
    Ástæðan fyrir beiðni þingflokks Alþb. um skýrslu er einmitt tilkomin af því að við töldum rétt og æskilegt að fá svör varðandi búvörusamninginn sem enn er í gildi og starfa ætti eftir samkvæmt honum að landbúnaðarmálum að því er varða samskipti ríkisins og bændastéttarinnar. Ég tel að hæstv. landbrh. hafi reitt hér fram málsgagn sem verulegt gagn sé að að fá í hendur til þess að styðjast við m.a. varðandi umræðu um framtíðaraðgerðir í framhaldi af þessum samningi og vegna hugsanlegra breytinga sem verið er að tæpa á að rétt væri að gera á samningnum. Ég tel að hæstv. landbrh. hafi látið vinna þetta mál með mjög eðlilegum hætti að fela framkvæmdanefnd búvörusamninga þar sem sæti eiga fulltrúar Stéttarsambands bænda og fulltrúi fjmrn. og landbrn. að vinna þessa skýrslu og það sé staðið að því með hlutlægum hætti og kannski að mörgu leyti betri en oft og tíðum gerist varðandi svör við skýrslubeiðnum af þessum toga. Hér er í rauninni ekkert verið að draga fjöður yfir það sem aflaga hefur farið í framkvæmd búvörusamningsins eða þau ákvæði sem ekki hefur verið staðið við þó að þar megi vafalaust finna eitthvað ef vel er leitað og lengi megi spyrja og leita fyllri upplýsinga um einstök atriði, þá hefur þessi skýrsla þá kosti að það er hægt að byggja á henni einnig við leit að frekari upplýsingum. Ég held að það sé fyrir alla aðila mjög gagnlegt, fyrir okkur hér á Alþingi og fyrir aðila að búvörusamningnum, að fá þetta mál fram hér með þessum hætti og fá það rætt.
    Ég tel líka að sú umræða sem hér hefur orðið um málið hafi verið efnisleg í mörgum greinum þó að eðlilega hafi kastað hér í kekki milli manna og mér finnst það fyrst og fremst vera einn hv. þm. sem hefur skorið sig úr í þessum efnum með ótrúlega ómálefnalegu framlagi til umræðunnar, fullyrðingum og öðru sem hann hefur nú dregið til baka og á ég þar við hv. þm. Guðna Ágústsson sem fór hér mikinn í umræðunni fyrr, en var síðan eins og umskiptingur þegar til andsvara var fjmrh., sem hann réðist á af mikilli hörku í umræðunni áður, fyrrv. hæstv. fjmrh., nú óbreyttur þingmaður, Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb. Ég tel að burt séð frá þessu þá hafi margt komið fram sem að gagni megi verða.
    Það er svo að íslenskur landbúnaður á í vök að verjast, hefur átt það um allnokkurt skeið og það eru miklar ástæður til þess að hafa áhyggjur af stöðunni eins og hún er nú, eins og þróunin hefur verið í einstökum greinum, sérstaklega í sauðfjárrækt á undanförnum árum en einnig litið til framtíðar vegna þeirra mjög svo breyttu aðstæðna sem við landbúnaðinum blasa vegna alþjóðlegra samninga sem Alþingi hefur fjallað um og staðfest og stjórnvöld hafa áður gert og lagt fyrir þingið. Þar á ég við EES-samninginn sem andstætt því sem fullyrt var í fyrstu grípur inn á ýmsa þætti landbúnaðar og kemur þar mjög við einstakar greinar, t.d. í sambandi við gróðurhúsaafurðir og innflutning sem tengist þeirri framleiðslu svo dæmi sé tekið. En þó enn frekar og miklu frekar sá stóri samningur sem var samþykktur af flestum á þingi 30. des. sl., það er þál. um þann samning, þ.e. GATT-samningurinn á grundvelli Úrúgvæ-viðræðnanna, Úrúgvæ-lotunnar sem gjörbreytir stöðu íslensks landbúnaðar frá því sem verið hefur og hlýtur auðvitað að vera eitt af því sem og kannski það sem öðru fremur ætti að horfa til hvernig menn ætla að taka á en núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið skil á því hvernig hún vilji eða ætli og telji rétt að bregðast við þeim samningi í einstökum atriðum með útfærslu á grundvelli lagabreytinga og öðru því sem málinu tengist. Þetta er í rauninni sú nýja blika sem er á lofti varðandi aðstæður fyrir íslenskan landbúnað. Það viðurkenna allir að það er verið að tefla í mikla tvísýnu aðstöðu þessarar atvinnugreinar og þess fólks sem hana stundar á kostnað annarra atvinnugreina og annarra hagsmuna sem menn meta að samanlagt réttlæti að ganga til samnings.
    Ég var í hópi þeirra sem sátu hjá við afgreiðslu þessa máls og taldi ekki rétt að gerast ábekingur þessarar þáltill. sem hæstv. utanrrh. bar fram og færði fyrir því rök í máli á Alþingi. Ég tel í rauninni

að það væri mikil þörf á því að fara yfir þetta mál áður en gengið verður til kosninga og auðvitað ber ríkisstjórninni skylda til þess, raunverulega siðferðileg skylda, að færa fram sína stefnu til lykta í sambandi við þetta stóra mál með því að leggja hér fyrir þingið lagabreytingar, tillögur að lagabreytingum, og reyna að koma þeim í höfn til þess að standa skil á þeirri stefnu sem hún hefur keyrt fram hér og ber fulla ábyrgð á að því er varðar þennan stóra alþjóðlega samning. Ég tel það í rauninni með miklum fádæmum að þeir þingmenn sem standa að þessum samningi skuli láta það vera meginhuggun sína að ná fram þeirri breytingu sem vissulega var efnisleg og skiptir máli, ég neita því ekki, að forræði í sambandi við þennan samning verði öðru fremur á hendi landbrh. í framtíðinni. En efnislega skiptir það ekki miklu í sambandi við þá gífurlega stóru breytingu sem hér er verið að innleiða fyrir íslenskan landbúnað og um leið fyrir íslenskan þjóðarbúskap að því er varðar þennan samning. Ég tel að fyrst ríkisstjórnin ekki treystir sér til þess að leggja hér útfærð lagafrv. og sýna hvernig hún vildi útfæra þetta mál þá hafi hún ekki átt neina heimtingu á því að Alþingi færi að taka á þessu máli í því formi sem gert var rétt fyrir áramótin. Það er m.a. á grundvelli þess sem ég rökstuddi það að vera ekki aðili að þessu burt séð frá því að ég met það svo að þessi stóri alþjóðlegi samningur sé óvænlegur í mörgum greinum litið til frambúðar, þar á meðal varðandi umhverfismál heimsins og aðstæður þeirra sem búa utan hinna stóru þéttbýlu svæða sem telja sig í bili fá efnahagslega uppskeru af þessum samningi og því opna kerfi sem þar er verið að innleiða.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að fjalla frekar um það en taldi þörf á að minna á þetta stóra mál sem hér kemur inn á svið þessa búvörusamnings, inn á gildistíma hans, nánast inn á miðjum gildistíma þessa samnings, og gjörbreytir forsendum sem fyrir lágu þegar þessi samningur var gerður. Það er satt að segja ekki vel að verki staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að ætla sér ekki annað en að fá hina almennu blessun og verða við kröfu Alþfl. og formanns Alþfl. og hæstv. utanrrh. um þetta efni. Þar hefði ég viljað sjá hæstv. landbrh. standa öðruvísi að málum, standa betur í ístaðinu að því er það snertir.
    Ef litið er yfir liðna tíð í sambandi við landbúnaðarmál og menn hafa eðlilega dvalið talsvert við liðinn tíma þá er það svo að margt hefur verið mislagt og það hefur mjög skort á það af okkar hálfu og það er ekki rétt fyrir mig frekar en aðra að skorast undan ábyrgð í þeim efnum en það hefur mjög skort á að menn næðu að bera fram og sameinast um útlínur, þó ekki væri annað en meginlínur í stefnumörkun varðandi þróun íslensks landbúnaðar. Og við gjöldum þess í dag að það verk var ekki unnið, það verk var ekki unnið þegar miklar breytingar urðu á markaðsstöðunni innan lands og þar urðu vissulega veruleg þáttaskil nálægt árinu 1980. Það kerfi sem farið var að innleiða hér 1979 á þeim tíma sem fyrrv. formaður Framsfl., hv. þm. og áður ráðherra, Steingrímur Hermannsson, fór með landbúnaðarmál að vísu ekki um langa hríð, þá var tekið upp þetta búmarkskerfi sem átti að verða haldreipi um skeið. En síðan eru gerðar á því breytingar á árunum sem á eftir fóru og gífurlegt óvissutímabil og síðan innleitt það kerfi fullvirðisréttar árið 1985 byggt á stöðu manna á undangengnum fáum árum. Ég held að það hafi sjaldan verið gengið í rauninni á jafnóhreinum forsendum fram gagnvart fjölda manna og gerðist gagnvart bændum landsins á þessum tíma þegar verið var að, ég leyfi mér að segja, sullast á mjög óljósum forsendum í sambandi við skömmtun á framleiðslurétti bænda á einstökum jörðum og landinu í heild samanlagt eins og gerðist á þessum tíma. Sárin eftir þessi vinnubrögð eru enn þá opin víða í sveitum landsins. Það er satt að segja mjög merkilegt að ekki skuli hafa verið farið í dómsmál í meira mæli en raun ber vitni út af þeirri málsmeðferð sem stjórnvöld létu sér sæma að standa að á þessum árum.
    Ég ætla hins vegar ekki að hefja neinar persónulegar árásir á einstaklinga sem réðu málum á þessum tíma eða fóru með mál, við eigum að reyna að nota skoðun þessara mála til að læra fyrir framtíðina. Þá er um að ræða framtíð sem er óöruggari og ótraustari vegna GATT-samningsins m.a. og ekki síst en verið hefur um langt skeið og hefur þó óvissan verið ærin í sambandi við málefni landbúnaðarins. Það er líka ástæða til þess vegna þess að auðvitað eru menn að horfa á vaxtarmöguleika annarra greina nú sem fyrr fyrir sveitafólk að menn hafi í huga að mörgu leyti mjög misheppnaðar tilraunir til að skjóta fótum undir nýjar búgreinar og hvernig á var haldið. Þar hef ég m.a. í huga loðdýrarækt og fiskeldi sem var mjög eðlilegt að menn festu augun á og reyndu að færast í fang og að líta til sóknar í sveitum landsins þar sem mönnum urðu mjög mislagðar hendur fullyrði ég vegna stjórnvaldsaðgerða, bæði vegna þess sem gert var og ekki var gert í þessum efnum og af því þurfum við sannarlega að læra. Ég er alveg viss um að í báðum þessum stóru greinum felast möguleikar og það er að sýna sig nú að í loðdýraræktinni, sem fór jafnilla og raun ber vitni, er fólk sem heldur velli þrátt fyrir allt og sama er að gerast í fiskeldi. En þarna urðu þau heljarstökk í fjárfestingu sem raun ber vitni um. Menn gættu ekki að sér og fjöldi manna fór að færast í fang á óvissum forsendum og sumpart mjög hvattir til þess af hinu opinbera að fara út í slíka framleiðslu, slíkar greinar.
    Ég sé það, virðulegur forseti, að það er ekki tími til þess af minni hálfu að fara hér yfir í einstök atriði í skýrslunni sem varðar það sem ekki hefur verið staðið við. Yfir þau efni fór hv. þm. Ragnar Arnalds. Ég ætla aðeins í lokinn að beina einni fyrirspurn til hæstv. landbrh. áður en ég vík úr stólnum --- vona að ég fái ráðrúm til þess --- sem varðar viðauka II í búvörusamningnum um kaup á jarðnæði eins og þar var heitið. Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra á þingi um það hvers vegna ekki hefði verið staðið að jarðakaupum á grundvelli umsókna sem þó komu og þær voru fáar. En ráðherrann svaraði því til að það hefði ekki verið metið rétt. Ég hef ekki sannfærst um að þar hafi verið rétt að máli staðið og ég bið hæstv. ráðherra um frekari skýringar á því að ekki varð þó orðið við þeim fáu umsóknum sem

komu um óskir og ég met að hafi í raun verið gildar eins og þær lágu fyrir.