Landgræðsla

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:48:46 (3910)


[16:48]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum. Að flutningi þess stendur auk mín hv. þm. Kristín Einarsdóttir. Frv. er í fimm greinum og ákvæði til bráðabirgða og þar er um að ræða fyrst og fremst viðauka við núverandi lög um landgræðslu þó að vissar breytingar felist um leið á gildandi ákvæðum laga. Ég ætla að gera hér stutta grein fyrir því sem um ræðir varðandi lagabreytinguna.
    Gert er ráð fyrir að 1. gr. gildandi laga orðist svo:
    ,,Tilgangur laga þessara er þríþættur: að stuðla að gróðurvernd, að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp örfoka og lítt gróið land.
    Við framkvæmd laganna skal byggt á vistfræðilegri þekkingu og varúðarreglu. Við það skal miðað að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegum gróðri landsins.``
    Breytingin sem hér er um að ræða er að aukið er við tilgangsþáttinn, hinu fyrsta sem upp er talið, að stuðla að gróðurvernd. Síðari málsliðurinn er viðbót þar sem gert er ráð fyrir að við framkvæmd laganna sé byggt á vistfræðilegri þekkingu og varúðarreglu. En varúðarreglan er viðmiðun sem er farið að taka upp í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál, eitt af meginatriðum til viðmiðunar í þeim efnum og að því vikið í skýringu við 1. gr. þar sem bent er á skilgreiningar á slíkri reglu.
    Síðan er það 2. grein frv. sem gerir ráð fyrir að ný grein bætist við lögin. Það er í rauninni meginefni þessa frv. og tilefni. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Því aðeins skal taka til notkunar í landgræðslu innflutta plöntutegund að fyrir liggi jákvæð umsögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndarráðs og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Sé nauðsyn talin á skulu þessir aðilar í samvinnu við Landgræðslu ríkisins beita sér fyrir rannsóknum á viðkomandi tegund, einkum með tilliti til þess hvort hætta sé á að hún valdi röskun á lífríkinu þannig að vegið sé að fjölbreytni þess og náttúrulegum gróðursamfélögum.
    Landbúnaðarráðherra skal að höfðu samráði við umhverfisráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd skv. 1. mgr.``
    Þá er það 3. gr. frv. sem felur í sér umorðun á 40. gr. laganna um landgræðslu og er svohljóðandi samkvæmt frv. þessu:
    ,,Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins ber ásamt Landgræðslu

ríkisins að leita nýrra leiða við uppgræðslu lands og gera rökstuddar tillögur um plöntutegundir sem vænlegar gætu orðið til landgræðslu, enda falli þær að ákvæðum laga þessara um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og verndun náttúrulegra gróðurlenda.``
    4. gr. frv. er umorðun á 41. gr. laga um landgræðslu svohljóðandi:
    ,,Landgræðslu ríkisins, eða öðrum aðilum, er heimilt að fjölga plöntum af þeim tegundum sem ákveðið hefur verið að nýta til landgræðslu á grundvelli laga þessara.
    Landbúnaðarráðherra skal að höfðu samráði við umhverfisráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd skv. 1. mgr.``
    Þarna er talað um tegundir og að Landgræðslunni eða öðrum aðilum sem eðlilegt er að taka hér inn, áður var eingöngu fjallað um Landgræðsluna, nú er það opnað fyrir það eðlilega að aðrir geti staðið að slíkri framleiðslu og fjölgun á plöntum sem þarna er að vikið.
    Ákvæði til bráðabirgða er tvíþætt. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að metið verði hvernig fara skuli með þær tegundir sem nú eru notaðar til landgræðslu. Fyrsti töluliður ákvæðisins er svohljóðandi:
    ,,Rannsóknastofnun landbúnaðarins skal að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og Líffræðistofnun Háskóla Íslands leggja mat á hvort einhverjar tegundir, sem nú eru notaðar til landgræðslu, falli ekki að alþjóðlegum skuldbindingum og lagaákvæðum um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og verndun náttúrulegra gróðurlenda og skila um það áliti til ráðherra fyrir árslok 1995. Landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra skulu fjalla sameiginlega um álitið og gefa út fyrirmæli til Landgræðslu ríkisins á grundvelli þess.``
    Annar töluliður ákvæðis til bráðabirgða er svohljóðandi og um annað efni:
    ,,Landbúnaðarráðherra skal í samráði við umhverfisráðherra skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 17/1965, um landgræðslu, með síðari breytingum, og leggja fram á Alþingi frumvarp að nýjum lögum um gróðurvernd og landgræðslu eigi síðar en haustið 1996.``
    Þetta er efni þessa frv. sem hér er flutt. Ég ætla fyrst, virðulegur forseti, að víkja aðeins að síðari hluta ákvæðis til bráðabirgða, þ.e. að þörf sé á að taka lögin um landgræðslu í heild sinni til endurskoðunar. Þau eru gömul að stofni til og hefur lítið verið breytt, þeim lögum sem sett voru 1965. Það þarf auðvitað engan að undra þótt að sitthvað í þeirri löggjöf sé ekki í takt við tímann og nýja sýn til mála á ýmsum sviðum og nýja þekkingu. Því er það að mati okkar flm. meira en tímabært að taka lögin í heild sinni til endurskoðunar og því gert ráð fyrir því að svo verði gert. Mér varð satt að segja enn frekar ljóst en mér hafði verið áður þegar ég fór yfir þetta af tilefni þessa frv., sem er í rauninni viðbót við lögin, hversu mjög skortir á að gildandi löggjöf svari kalli tímans. Og ég vænti þess að þetta atriði hljóti góðar undirtektir og verði hrundið í framkvæmd, jafnvel að það verði undirbúið nái þetta frv. ekki fram að ganga á þessu þingi. Því að það getur ekki verið nema eðlilegt að fara yfir svo gamla löggjöf um svo mikilvægt málefni og hér um ræðir.
    Í sambandi við efni frv., sem varðar val og notkun á plöntum sem nýttar eru til landgræðslu, þá er af hálfu okkar flm. verið að leitast við að finna leið til þess að skapa og koma á skynsamlegum vinnubrögðum í þessu máli og reyna að koma á með löggjöf sátt um vinnubrögð sem hafa verið og eru mjög umdeild í landi okkar og sem er mjög bagalegt vegna þess að almennt er mjög ríkur vilji á að tekið sé á í þessum efnum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, menn þekkja það allir sem hafa komið nálægt þessum málaflokki, að það er verulegur ágreiningur uppi um þær aðferðir sem beitt er. Með tillögum þessa frv. er leitast við að bæta þar úr og það er fyrst og fremst það sem er nýmæli. Í gildandi löggjöf er ekki tekið á þessum þætti.
    Markmiðið er að það verði reynt að tryggja að notkun innfluttra plantna til landgræðslu falli að stefnu um gróðurvernd sem og alþjóðlegum skuldbindingum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og er þá vísað til alþjóðasamnings sem staðfestur var hér á Alþingi á síðasta ári. Má í þessu sambandi vitna til 8. gr. þess samnings, sem vikið er að í grg., ég leyfi mér að vitna til þess, með leyfi forseta:
    ,,Hver samningsaðili skal eftir því sem hægt er og viðeigandi koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.``
    Í grg. og í sérstöku fskj. er vakin athygli á starfi starfhóps sem vann á síðasta ári og veturinn 1993--1994 og var settur á að tillögu umhvrh. í samvinnu við hæstv. landbrh. Starfshópurinn vann að framkvæmdaáætlun í umhverfismálum og landbúnaði og skilaði af sér skýrslu til umhvrh. um ástand, markmið og leiðir í þessum efnum í maímánuði 1994. Má segja að við flutningsmenn byggjum í rauninni efnislega á tillögum þessa starfshóps en tilnefndur forustumaður í hópnum var Sveinbjörn Eyjólfsson, deildarstjóri í landbrn., að ég held, sem leiddi þetta starf.
    Ég átti þátt í þessu starfi ásamt 18 öðrum tilnefndum aðilum frá stofnunum, ýmsum stofnunum sem þessi mál varða og frá samtökum, bæði í náttúruvernd og eins í landbúnaði. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að það var afar ánægjulegt að vinna að þessu máli, þessari stefnumörkun sem hópurinn stóð að, vegna þess hversu vel var haldið þar á máli. Þar átti formaður hópsins góðan hlut að máli og ég tel í rauninni að afurð þessa starfshóps hafi fengið minni athygli en vert væri. Vonandi á það eftir að verða þótt ekki hafi mikið á því borið. Það hefði verið full ástæða til þess t.d. að víkja að þessari afurð í umræðunni sem fór fram áður um búvörusamninginn og um landbúnaðarmál nokkuð almennt undir dagskrárlið en ég gaf mér ekki tíma til þess sérstaklega að gera það.
    Ég vek athygli á áliti starfshópsins um leið og ég vísa til þess í heild sem fylgiskjals, en þar segir í kafla um innflutning plantna, með leyfi forseta:
    ,,Enn sem komið er hafa innfluttar tegundir valdið lítilli röskun á íslenskum gróðurlendum en mörg dæmi eru um að slíkar tegundir séu að breiðast út. Gildandi löggjöf um innflutning plantna tekur ekki til eftirlits og varúðarráðstafana vegna hugsanlegrar ógnunar við vistkerfi landsins. . . .  Umræða um notkun á innfluttum tegundum og varúðarráðstafanir þeirra vegna þarf að vera þáttur í gerð landgræðslu- og skógræktaráætlana sem vinna á fyrir opnum tjöldum. Í slíkum áætlunum þarf að taka afstöðu til einstakra tegunda með hliðsjón af þeim markmiðum sem stefnt er að á hverju svæði fyrir sig.``
    Og í tillögum segir jafnframt: ,,Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar. . . .  Sett verði löggjöf um innflutning tegunda og um útrýmingu skaðlegra tegunda. Þar verði m.a. tekið tillit til skuldbindinga í rammasáttmála um verndun fjölbreytileika lífs og samþykkta Evrópuráðsins. Kveðið verði á um það hver beri ábyrgð á því að meta hugsanlegan skaða af innfluttum tegundum áður en dreifing þeirra hefst.`` Þetta læt ég nægja sem tilvitnun í þennan starfshóp.
    Eðlilega spyrja menn hvað það sé sem verið sé að vísa til varðandi það sem orðið er í landinu. Það er staðreynd, það sem liggur fyrir, og þar eru ákveðnar tegundir sem eru að nema land hér og hafa talsvert verið umræddar fyrir utan Alaskalúpínu sem mjög hefur borið á góma í þessu sambandi og verið tilefni sérstakra ráðstefna sem eingöngu hafa fjallað um þá tegund. Ég er hér með afurðir af einni slíkri fyrir framan mig en þar fyrir utan má nefna ýmsar fleiri tegundir eins og t.d. Spánarkerfil og skógarkerfil sem eru allstórvaxnar tegundir og öflugar sem gera sig gildandi.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að taka upp neina sérstaka umræðu um þetta á grundvelli þess sem er að gerast eða að því er varðar einstakar tegundir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn líti á þessi efni almennt og reyni að forðast tilfinningasemi sem hefur um of verið áberandi í sambandi við þessa umræðu, þar sem menn eru að skiptast í einhverjar fylkingar með og móti einhverjum tegundum og ágæti þeirra. Það sem mestu máli skiptir er að finna ásættanleg vinnubrögð til þess að eðlilegrar varúðar sé gætt og til þess að sem bestum árangri verði náð.
    Ég vísa síðan til þess, virðulegur forseti, og ætla ekki hér að fara að nýta þann tíma sem ég hef til að reifa þetta mál þó að vert væri, en það er nokkuð liðið á dag, og vísa til þess sem segir í grg. um nauðsynina á heildarendurskoðun laga um landgræðslu. Þar er vikið að, bara í upptalningarstíl, ýmsum atriðum sem þyrfti að taka á í sambandi við endurskoðun slíkra laga eða gildandi laga og þá í ljósi þess að setja nýja löggjöf. Og ég vænti þess að það verði tekið eftir þessu og að það verði ráðist í það nauðsynlega verkefni að skoða lögin í heild. En ég tel jafnframt brýnt að tekið verði á þessu máli sérstaklega, sem fyrst og fremst er viðbót við gildandi löggjöf, og við flutningsmenn, sem höfum flutt þetta, höfðum við undirbúning málsins samband við ýmsa aðila frá rannsóknastofnunum sem heyra undir landbrn., eins og sérfræðinga hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, hjá Skógrækt ríkisins, Tilraunastöðinni á Mógilsá og fulltrúa frá Náttúruverndarráði einnig sem við leituðum til og fleiri aðilar sem gáfu okkur góð ráð í sambandi við undirbúning málsins sem ég vona að verði til framdráttar því máli sem við erum hér að flytja.
    Að lokum, virðulegur forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. landbn. en óska jafnframt eftir að það fylgi með að nefndinni verði gjört eða þess verði óskað að landbn. leiti álits umhvn. varðandi málið svo sem eðlilegt er þar sem gert er ráð fyrir því að bæði ráðuneytin, landbúnaðar og umhverfismála, taki á í sambandi við gróðurvernd og ýmsa þætti sem tengjast því máli sem hér er flutt.