Samstarf Alþýðuskólans á Eiðum og Menntaskólans á Egilsstöðum

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:24:24 (3948)




[16:24]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Vegna þessarar fsp. vil ég að fram komi að ég er sammála því að athugað sé samstarf og sameining Alþýðuskólans á Eiðum við Menntaskólann á Egilsstöðum og tel að þær aðstæður hafi skapast á undanförnum árum að það sé eðlilegt að þetta mál sé athugað af fullri alvöru. Það var raunar strax og undirbúningur hófst að stofnun Menntaskóla á Egilsstöðum að byggingarnefnd tók þetta mál með vissum hætti á dagskrá og vakti athygli á því og var það gert í samvinnu við menntmrn. á þeim tíma. Aðstæður voru hins vegar þannig á þessum tíma og lengi síðan að full þörf var fyrir Alþýðuskólann á Eiðum til að sinna hlutverki í grunnnámi í fjórðungnum og rekstur framhaldsdeildar tókst þar með ágætum. En ég er ekki í vafa um það að gott samstarf og sameining þessara stofnana á framhaldsskólastigi getur orðið til styrktar framhaldsskólahaldi á Austurlandi. En jafnframt er mikilvægt að grunnskólahald geti farið fram á Eiðum á meðan þörf er fyrir Eiðaskóla í því efni en þar hefur skólinn gegnt miklu hlutverki fyrir nemendur úr strjálbýli á Austurlandi og þar sem ekki hafa verið aðstæður til að reka grunnskóla til loka.