Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:24:14 (3964)


[17:24]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins vegna þess sem var úrskurðað af forseta sem áður sat í stólnum ítreka eindregin mótmæli mín gagnvart þeim úrskurði sem felldur var varðandi meðhöndlun á 44. gr. þingskapa. Ég hef haft ráðrúm til að bera mig saman við þá sem um þessi mál véla á vegum þingsins. Hér hefur verið kveðinn upp rangur úrskurður varðandi málsmeðferð og hefur ekkert fordæmisgildi og ég bið forsetadæmið, forsn., að fara yfir málið og þegar í upphafi næsta fundar að kveða upp úrskurð um það hvað sé eðlileg túlkun í málinu. Ég er ekki að gera því skóna að þingflokkur Alþfl. --- ég hef ekki séð ósk hans um umræðutíma eða annað sem veit að þessu --- hafi viljað hafa þennan hátt á. Ég hef ekki séð neitt erindi frá þingflokknum. Spurningin er um það hvort umræða er ótímabundin eða ekki. Þannig hefur verið haldið á málinu og það verður þá auðvitað eitt yfir alla að ganga í þeim efnum. Þannig að mismunun af þessum toga, sem hér er ákvaraður, nær auðvitað ekki nokkurri átt og á sér engin fordæmi og hlýtur að verða hnekkt.