Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:29:44 (3967)


[17:29]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér kom upp hv. 5. þm. Vesturl. og ræddi um spurninguna um flutning sérstakrar stofnunar til Akraness, hann er annar þingmaður kjördæmisins sem kveður sér hljóðs og tengir þetta mál við flutning þessarar tillögu. Ég vil í fyrsta lagi segja að það var ólíkt efnislegri málflutningur sem kom fram frá hv. 5. þm. Vesturl. en mátti heyra frá hv. 4. þm. Vesturl. hér áðan. En ég vil taka fram að af hálfu flutningsmanna þessarar tillögu var hvorki um það vitneskja hvað stæði til varðandi flutninga á Landmælingum ríkisins, hafði raunar heyrt einhverja aðra staði nefnda í því sambandi fyrr á síðasta ári eða árinu þar á undan og ekki á nokkurn hátt hugmyndin að bregða fæti við ákvörðunum af hálfu ráðherra enda á hann sjálfdæmi um það að eigin mati, telur sig í öruggri stöðu varðandi þá ákvörðun sem hér er gagnrýnd með þessari tillögu. Það er þeim sem hér stendur alveg hulin ráðgáta með hvaða hætti hæstv. ráðherra er að tengja þau efni saman.
    Hinu vil ég ekkert leyna að ég hef heyrt gagnrýni vegna undirbúnings á fleiri stofnunum eins og vikið er að í greinargerð með till. og það er ástæðan fyrir því að það er nefnt með þeim hætti sem fram kemur í greinargerð. Auðvitað er það mál sem hér er flutt á sinn hátt almenns eðlis. Það er auðvitað fullljóst. En hæstv. ráðherra getur ekki borið það fyrir sig að hann eigi í vörn vegna þessarar till. að taka ákvörðun sem hann hafði boðað. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem að baki liggur.