Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 18:25:47 (3979)

[18:25]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands. Flm. ásamt mér er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.
    Efni tillögunnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta Vegagerð ríkisins ljúka athugun á tengingu Austurlands og Norðurlands með öruggu vegasambandi allt árið um byggðir á Norðausturlandi og um Vopnafjörð, með jarðgöngum undir Hlíðarfjöll. Þessi kostur verði borinn saman við aðra möguleika og síðan mótuð stefna í tengslum við endurskoðun vegáætlunar. Við athugun málsins verði haft samráð við heimaaðila í báðum landshlutum og lokaáliti skilað til Alþingis fyrir 1. febrúar 1995.``
    Síðustu árin hefur nokkuð verið rætt um hvernig rétt sé að leggja vegi á Norðausturlandi, horft til framtíðar. Stærsta byggðarlagið á þessu svæði er Vopnafjörður og eðlilega hefur spurningin um samgöngur þaðan austur á Hérað og við nágrannabyggðirnar til norðurs verið ráðandi í umræðunni. Fyrir orð þingmanna Austurlands gerði starfshópur, skipaður fulltrúum frá Vegagerð ríkisins, ýmsar athuganir á vegasambandi á þessu svæði og skilaði í apríl 1990 skýrslu sem ber heitið ,,Vegasamband byggða á Norðausturlandi`` og hefur hún margháttaðan fróðleik að geyma.
    Síðan hefur með endurbótum á vegi um Hellisheiði eystri fengist bráðabirgðabót á vegasambandi milli Vopnafjarðar og Héraðs en áfram brennur á mönnum spurningin um frambúðarlausn sem aðeins getur fengist með jarðgöngum milli ofangreindra byggðarlaga.
    Snemma á árinu 1993 komu fram hugmyndir um að skynsamlegt gæti verið að stefna að því að vetrarleiðin eða svonefnd heilsárstenging milli Austurlands og Norðurlands lægi um Vopnafjörð, annaðhvort með ströndinni og yfir Öxarfjarðar- og Reykjaheiði áleiðis til Akureyrar eða upp úr Vesturdal í Vopnafirði og yfir Einbúasand að Grímsstöðum og áfram til Mývatns.
    Fyrsti flutningsmaður þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er flutt skrifaði um mál þetta og birtust greinar um það í júnímánuði 1993 í dagblöðum. Þar var hvatt til að nýjar leiðir yrðu skoðaðar til hlítar áður en ráðist verður í að byggja upp nýjan veg yfir Fjöllin. Viðbrögð við þessum hugmyndum voru afar jákvæð, einkum í byggðarlögum á Norðausturlandi.
    Þann 14. okt. 1994 var haldinn fundur á Egilsstöðum sem fjallaði um jarðgöng á Austurlandi og sóttu þann fund sveitarstjórnarmenn og alþingismenn kjördæmisins og sérfræðingar frá Vegagerð ríkisins og Byggðastofnun. Sá fundur ályktaði samhljóða um jarðgangaframkvæmdir í Austfirðingafjórðungi en eitt af því sem þar hefur verið á dagskrá eru einmitt jarðgöng milli Héraðs og Vopnafjarðar sem eru nauðsynlegur þáttur í að gera strandleiðina að mögulegum ársvegi og tryggja góðar samgöngur á milli þessara byggðarlaga, sem um leið yrði þá liður í tengingunni milli landshlutanna.
    Þáltill. svipuð þeirri sem hér er flutt var flutt á 117. löggjafarþingi en nú er hún endurflutt með nokkrum breytingum í tillögutexta og í grg. Það er tekið tillit til athugana sem fram hafa farið og umræðu frá því tillagan var fyrst flutt. Með flutningi hennar er nú lögð áhersla á að athugun á umræddri leið verði lokið í tæka tíð fyrir endurskoðun vegáætlunar á yfirstandandi vetri.
    Ég vil víkja nokkrum orðum, virðulegur forseti, að þeim leiðum sem til álita koma í sambandi við varanlega tengingu milli Austurlands og Norðurlands. Þá er það fyrst sú leið sem hér er vakin athygli á að líta þurfi á sérstaklega, með ströndinni um Öxarfjarðar- og Reykjaheiði. Vegur þessi yrði byggður upp miðað við umferð allt árið og lægi þá í jarðgöngum frá Jökulsárhlíð til Vopnafjarðar og þaðan norður með ströndinni um Bakkafjörð, Þistilfjörð og yfir Axarfjarðarheiði og Reykjaheiði áleiðis til Akureyrar. Þetta er raunar núverandi vetrartenging byggðanna á Norðausturlandi við landsvegakerfið en hún mundi styttast talsvert frá því sem nú er með uppbyggingu vegar um Öxarfjarðar- og e.t.v. einnig Reykjaheiði og yrði þá rúmlega 100 kílómetrum lengri en vegur sem lægi yfir fjöllin.
    Leið eins og þessi, sem hér er lýst, væri sú sem best tengir byggðirnar saman og væntanlega yrði auðveldast að halda opinni að vetrarlagi. Eins og fram kemur í fylgiskjölum þá vegurinn á þessari leið hvergi yfir 300 metra hæð og yrði hæsti kafli á honum þar sem hann liggur nú um Víkurskarð milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar og geta menn haft af því mið sem þekkja þá leið. Að meginhluta lægi vegurinn skammt frá sjávarmáli frá Egilsstöðum til Akureyrar og minna má á að vegi með ströndinni út fyrir Melrakkasléttu og Tjörnes má nota sem varaleiðir ef óvenjuleg veðurharka eða snjóþyngsli hindra þjónustu á þeim heiðum sem vikið er að og gætu orðið til styttingar á leiðinni.
    Það er síðan leiðin um Jökuldalsheiði og Fjöllin, sá vegur sem hefur verið í notkun, þó með hugsanlegum breytingum og sem unnið er að uppbyggingu á að hluta til nú þegar. Það er hinn meginkosturinn sem er vikið að í þessari tillögu og hlýtur að sjálfsögðu að verða tengivegur milli byggðarlaganna, milli landshlutanna um langa framtíð, a.m.k. að sumarlagi. Gert er ráð fyrir því að unnið yrði að slíku verki þó að hitt yrði ofan á að fara með ströndum fram með ársveg sem yrði reynt að tryggja að yrði opinn allt árið.

Þessi leið, þó hugsanlega með nýlagningu um Jökuldalsheiði austan Möðrudalsfjallgarða yfir í Langadal --- eða jafnvel norðan Þjóðfells til Grímsstaða --- liggur á meira en 100 m kafla í yfir 300 m hæð, þar af eru um 70 km af leiðinni í milli 500 og 600 m hæð yfir sjó. Kaflinn frá Jökuldal til Mývatns liggur þannig um öræfi að mestu fjarri byggð. Vegalengdin milli Egilsstaða og Akureyrar eftir þessari leið er svipuð og eftir núverandi vegi, þ.e. um 270 km, en núverandi vegur er 273 km skv. upplýsingum Vegagerðar. Af þessum aðalvegi yrði afleggjari til Vopnafjarðar með svipuðum hætti og nú er og hringtenging austur á Hérað um Hellisheiði og síðan með jarðgöngum gegnum Hlíðarfjöll. Með þessari tilhögun yrði Vopnafjörður heldur betur settur en nú er en þó áfram úrleiðis miðað við landsumferð, a.m.k. mikinn hluta ársins. Leiðin frá Egilsstöðum yfir fjöllin til Vopnafjarðar mundi hins vegar styttast um nálægt 40 km ef núverandi þjóðvegur yrði fluttur austur fyrir Möðrudalsfjallgarða.
    Þriðji möguleikinn sem að er vikið í greinargerð er að leggja veg um Vopnafjörð og síðan yfir Einbúasand til Grímsstaða. Yrði þá farið úr Vesturdal í Vopnafirði um Grímsstaðadal eystri og Einbúasand yfir að gömlu Grímsstöðum og áfram til Mývatns. Þessi leið er komin til hliðar eftir nánari athugun á vegum Vegagerðar og sýnist ýmislegt mæla gegn því að þessi leið yrði valin, jafnvel þó að menn vildu kosta til að fara um Vopnafjörð og eru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. að aðstæður á Einbúasandi og í grennd eru lakari en upphaflega var talið.
    Samráðshópur hefur starfað á vegum vegamálastjóra um tengingu Norðurlands og Austurlands og Eyþing nyrðra og Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi stóðu að því að koma honum á laggirnar og starfsmenn Vegagerðar unnu með þessum hópi sem vann á vegum Vegagerðar samkvæmt tilmælum samgrh. Samkvæmt áliti þessa hóps þá lítur hann svo á að stefna beri að því að tengja Norður- og Austurland með vegagerð milli Akureyrar og Egilsstaða um Mývatns- og Möðrudalsöræfi, en segir jafnframt: ,,Álitlegt sýnist að leiðin liggi um Langadal og Háreksstaðaheiði, einkum með tengingu við Vopnafjörð í huga. Nokkrum veigamiklum spurningum er þó ósvarað til að hægt sé að mæla eindregið með þeirri leið.``
    Ekki fer milli mála að sjónarmið þeirra sem búa í Norður-Þingeyjarsýslu og raunar einnig margra á Vopnafirði og Bakkafirði er eindregið í þá átt að æskilegt væri að árstenging væri um strandleiðina. Hér er auðvitað afar mikið í húfi að vel takist til. Þegar hvatt er til þess að vel sé athugað um að leggja hávetrarveginn eða reikna með að halda honum opnum um strandleiðina liggur auðvitað í augum uppi að kostnaðarminna er að halda einum vegi opnum en tveimur leiðum samtímis sem tengingu milli landshlutanna. Það mun kosta verulegt fjármagn að tryggja að leiðin yfir Fjöllin haldist opin. Á þessum vetri er áætlað að ruðningur á þeirri leið kosti um 30 millj. kr. og er þó engan veginn tryggt að um daglega opnun sé að ræða og auðvitað verður uppbygging kostnaðarsamari ef miðað er við að um heilsárstengingu sé að ræða. Ég er einnig þeirrar skoðunar að það verði mjög torvelt að tryggja örugglega í snjóþyngri vetrum að unnt sé í raun að halda þessari leið opinni yfir háveturinn með viðunandi öryggi og vísa ég til þess að þarna er allra veðra von, þarna er ekið í mikilli hæð um alllanga leið fjarri byggð. Öryggi manna í þeim efnum skiptir auðvitað miklu.
    Ég er heldur ekki í vafa um að tryggt vegasamband með ströndum fram, með styttingu þó yfir Öxarfjarðarheiði og e.t.v. Reykjaheiði, væri til geysilegra hagsbóta fyrir Norðausturlandið og mikil trygging fyrir búsetu þar og jafnframt atvinnurekstur. Mér finnst því að full efni séu til þess að þessi mál séu gaumgæfð áður en ráðist er í þær kostnaðarsömu framkvæmdir sem eru nú ráðgerðar þó að vissulega mæli enginn gegn því að æskilegt er að hraða bættum samgöngum á milli nefndra landshluta.
    Í greinargerð með nál., sem ég vísaði til að nýlega væri fram komið frá starfshópi Sambands sveitarfélaga í báðum landshlutunum og Vegagerðarinnar, er að finna kostnaðarmat á framkvæmdum og þar er áætlað að vegur milli Akureyrar og Egilsstaða um Fjöllin kostaði eftir nýlagningu og uppbyggingu með bundnu slitlagi 2 milljarða 240 millj. kr. og að auki vegur um Vopnafjarðarheiði 600 millj. kr. Hins vegar er vegur með ströndum fram og uppbyggingu um Öxarfjarðarheiði og jarðgöng undir Hlíðarfjöll samtals metinn á 5 milljarða 460 millj. kr. Jarðgöng milli Héraðs og Vopnafjarðar á þeirri leið eru áætluð að kosti 2.600 millj. kr. af þessum 5 milljörðum 460 millj. Þettar eru ekki nákvæmar kostnaðaráætlanir en segja svona af hvaða stærð þetta er.
    Ég er þeirrar skoðunar að ef stefnt væri að því að gera strandleiðina að hinni öruggu tengingu yfir vetrartímabilið réttlæti það betur gerð jarðganga milli Héraðs og Vopnafjarðar fyrr en ella og auðvitað væri að því geysileg samgöngubót, milli þessar byggðarlaga því að þó að veruleg bót sé að tengingu um Hellisheiði og lagfærðingu þar er þar ekki um annað en sumar- og haustveg að ræða sem lokast í fyrstu snjóum og er vegna bratta engan veginn hættulaus ef hálka er og aðrar aðstæður bágar.
    Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. samgn.